Jónas Bjarnason
Jónas Bjarnason
Jónas Bjarnason skrifar um útkomu Samfylkingarinnar í kosningunum: "Það leið að mínu viti of langur tími frá prófkjörinu þangað til sjáanleg kosningabarátta var komin af stað."

SÆLL vertu Össur. Þú ræðir stíft um borgarstjórnarkosningarnar og útkomu Samfylkingar á heimasíðu þinni og leitar að skýringum. - Ef þú hefur áhuga á því að kanna málin í meiri dýpt, þá kemur margt annað til en það sem þú tilnefnir. Dagur beinlínis klúðraði kosningabaráttu ykkar. Hann var annars vegar fráhrindandi, hrokafullur vangaveltukarakter og svo fullur af "indeterminisma", ákvörðunarleysismaður. Ekki tilbúinn að taka afstöðu til neins, allir áttu að fá að koma að málum, hlustað skyldi á alla og allir koma sínum málum á framfæri. Hann ræddi um flugvallarmálin. Síðast heyrði ritari frá Degi, að komnar væru 32 tillögur um staðsetningu flugvallar. Þvílíkt rugl. Auðvitað átti stjórnmálamaður að sjá að það voru bara fáeinar leiðir sem átti að kynna, ekki 32, og ræða síðan beint og ákveðið um þær. - Allir og allir, alls staðar. - Opnaðar skulu allar gáttir og hvergi afstaða tekin.

Annars ert þú, Össur, í vondri stöðu í lífeyrissjóðsmálum stjórnmálamanna, sem Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins setja nú á oddinn. Þú manst vel eftir því þegar Guðmundur Árni Stefánsson tók þátt í bralli nokkurra þingmanna um mjög svo aukin lífeyrissjóðsréttindi til handa stjórnmálamönnum, sérstaklega formönnum þingflokka og ráðherrum. Guðmundur gat jú tekið þátt í þessu bralli, því hann var á leiðinni út úr pólitíkinni. Svo kom málið upp og leitað var að öðrum formönnum til að tjá sig um málið. - Þú hvarfst í burtu, eins og hver annar rakki, þá formaður í jafnaðarmannaflokki, Samfylkingunni. - Sigurður G. Tómasson, þá útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, kallaði á þig í útvarpinu: - "Össur, Össur!" - "Hvar ertu?" - Þú áttir að koma fram og segja samlöndum þínum hver væri afstaða þín gagnvart þingmannabrallinu og "fjárnámi í hagsmunum Íslendinga og sér í lagi opinberra starfsmanna og skattgreiðenda, í framtíðinni". - Nei, þú faldir þig þegar þið voruð að ganga frá sérstökum mismununarákvæðum um lífeyrisréttindi, umfram aðra og á kostnað þeirra í framtíðinni. - Og þú faldir þig bak við Guðmund Á. Stefánsson eins og Björn í Mörk forðum faldi sig að baki Kára Sólmundarsyni. Með þessum gjörningi hefur þú sett niður, Össur, það sem þú segir nú og í of mörgum orðum yfirleitt hefur litla vigt, þú hefur orðið ótrúverðugur. - Já, hún Ingibjörg Sólrún rúllaði þér upp í formannskjöri. Svo fer hún með eigin málstað. Af hverju studdi hún ekki Stefán Jón í prófkjörsmálum? Það er beinlínis til vansa hvernig þið hafið farið með hann. Hann gæti svo sem horfið burt úr borgarstjórn og pólitíkinni vegna þessa og þið, þú og Ingibjörg Sólrún, sitjið eftir með sárt ennið. Það var mjög slæmt fyrir ykkur að draga fram Dag eins og uppáhaldsframbjóðanda. Svo klúðraði hann málum og þið töpuðuð kosningunum. Það mætti segja manni að Vinstri grænir verði bráðum jafn stórir og Samfylking og þið, þú og Ingibjörg, standið eins og saltdrjólar eftir. Þetta eru bara timburmenn sem þú segir í pistli þínum á heimasíðunni þinni, eiginlega alveg út í hött.

- Í síðasta lagi finnst mér að Samfylkingin hafi ekki nýtt sér þann fljúgandi byr sem glæsilegt prófkjör og flottur sigur Dags vakti. Tímasetning prófkjörsins var ef til vill umdeilanleg, en mér fannst hún skynsamleg til að búa til byr - og það tókst - en menn verða þá að sigla! Það leið að mínu viti of langur tími frá prófkjörinu þangað til sjáanleg kosningabarátta var komin af stað.

Höfundur er efnaverkfræðingur.

Höf.: Jónas Bjarnason