FRAMKVÆMDASVIÐ Reykjavíkurborgar hefur auglýst til kynningar matsáætlun annars áfanga Sundabrautar, sem unnin var af verkfræðistofunni Línuhönnun hf. Um er að ræða 8 km langa braut frá Gufunesi og yfir Kollafjörð.
Í skýrslunni eru fyrst og fremst tveir kostir um legu brautarinnar kynntir. Fyrri kosturinn gengur út frá því að brautin tengist Vesturlandsvegi norðan við Kollafjörð með því að þvera Eiðsvík, Leiruvog og Kollafjörð, að mestu með fyllingum og lágbrúm og gert ráð fyrir að brautin sveigi til norðvesturs þar sem hún fer yfir Geldinganes. Þar er reiknað með að hún verði að hluta til í jarðgöngum. Þverun Kollafjarðar yrði að mestu á fyllingu en í miðjum firði er gert ráð fyrir brú sem tryggi vatnsskipti innan við fyllinguna.
Hinn kosturinn er sambærilegur við valkost nr. 1 að undanskilinni þverun Geldinganess og Leiruvogs. Skv. þessari útfærslu er gert ráð fyrir legu brautarinnar töluvert austarlega á Geldinganesi og að Leiruvogur verði þveraður innarlega í sundinu milli Geldinganess og Gunnuness. Ekki er gert ráð fyrir jarðgöngum undir Geldinganes heldur verður brautin að nokkru leyti niðurgrafin.
Þverun Kollafjarðar þykir heppilegri kostur en að fara með alla umferð til og frá höfuðborgarsvæðinu um botn Kollafjarðar. "Þverunin styttir leiðina um 3,5 km," segir m.a. í skýrslu Línuhönnunar.