Pálmi Ragnar Pálmason
Pálmi Ragnar Pálmason
Pálmi Ragnar Pálmason, formaður stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss, segir í viðtali við Morgunblaðið í gær að "deilan við yfirlæknana snúist um hagsmunamál lækna því þeir yrðu af talsverðum tekjum hættu þeir stofurekstri sínum...

Pálmi Ragnar Pálmason, formaður stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss, segir í viðtali við Morgunblaðið í gær að "deilan við yfirlæknana snúist um hagsmunamál lækna því þeir yrðu af talsverðum tekjum hættu þeir stofurekstri sínum...Áréttar hann þó að reynt hafi verið að koma til móts við lækna spítalans með lagfæringum á launum þeirra."

Þessi ummæli formanns stjórnarnefndarinnar (af hverju skyldi hún heita stjórnarnefnd? Af hverju ekki bara stjórn?) sýna að Pálmi Ragnar misskilur deilurnar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í grundvallaratriðum.

Þessar deilur eru löngu hættar að snúast um svonefnda helgun yfirmanna.

Þær snúast um framkomu við fólk.

Þær snúast um það hvernig yfirstjórnendur spítalans koma fram við starfsmenn.

Þær snúast um tilraunir yfirstjórnenda spítalans til skoðanakúgunar innan spítalans.

Þær snúast um tilraunir yfirstjórnenda til að deila og drottna.

Þær snúast um þau vinnubrögð að umbuna þeim sem standa með yfirstjórnendum og refsa þeim sem hafa aðra skoðun.

Nú að undanförnu snúast þær um það að yfirstjórnendur Landspítala - háskólasjúkrahúss neita að horfast í augu við dóma sem fallið hafa í deilumálum þeirra og starfsmanna.

Um þetta snúast deilurnar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.

Þess vegna eru þær svona alvarlegar.

Fyrsta skrefið til þess að leysa þessi alvarlegu ágreiningsmál er að yfirstjórnendur spítalans átti sig á um hvað þær snúast. Það á reyndar líka við um heilbrigðisráðherra og ráðuneyti hans.