LIÐSMAÐUR Al-Qaeda í Danmörku tók þátt í undirbúningi árásar sem hryðjuverkamenn fyrirhuguðu á jarðlestakerfi New York-borgar, að sögn danskra fjölmiðla í gær.

LIÐSMAÐUR Al-Qaeda í Danmörku tók þátt í undirbúningi árásar sem hryðjuverkamenn fyrirhuguðu á jarðlestakerfi New York-borgar, að sögn danskra fjölmiðla í gær.

Danska lögreglan kom upp um hryðjuverkahóp í Brøndby fyrir tæpu ári og hefur nú aftur þefað uppi annan slíkan hóp. Við rannsókn komu í ljós bein tengsl milli nokkurra danskra ríkisborgara og hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda. Hermt er að eftirlit dönsku lögreglunnar með einum þessara manna hafi stuðlað að því að upp komst um hryðjuverkaáformin.

Þrír menn handteknir

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, skýrði frá því á föstudag að tekist hefði að afstýra árás hryðjuverkamanna á jarðlestagöng undir Hudson-fljóti milli New Jersey og New York. Vitað væri um átta menn sem hefðu tekið þátt í undirbúningi árásarinnar og þrír þeirra hefðu þegar verið handteknir.

Assem Hammoud, 31 árs Líbani, er talinn hafa skipulagt árásina og hefur verið handtekinn og ákærður í Beirút. Ekki hefur verið skýrt frá því hvar hinir mennirnir tveir voru handteknir. Talsmaður FBI sagði að yfirvöld í sex löndum hefðu aðstoðað við rannsókn málsins.

Enginn mannanna átta, sem eru bendlaðir við málið, hafa farið til Bandaríkjanna. Nokkrir þeirra eru ef til vill í Kanada, að sögn bandarískra yfirvalda.

Þóttist vera glaumgosi

Assem Hammoud hefur viðurkennt að hafa skipulagt árásina. Hann segist vera í al-Qaeda og styðja Osama bin Laden, leiðtoga samtakanna.

Hammoud er tölvufræðiprófessor við einkaháskóla í Beirút og lét mikið á sér bera í skemmtanalífi borgarinnar til að leyna trúarofstæki sínu, að sögn Elie Baradei, talsmanns öryggisyfirvalda í Líbanon. "Hann var beðinn um að sýna ekki trúaráhuga á meðan hann dveldi í Líbanon og honum var sagt að láta líta út fyrir að hann væri glaumgosi. Og hann hefur gert það fullkomlega."