Ungu fólki undir tvítugu hefur verið meinað að tjalda á völdum tjaldsvæðum, án eftirlits.
Ungu fólki undir tvítugu hefur verið meinað að tjalda á völdum tjaldsvæðum, án eftirlits.
Eftir Andra Karl andri@mbl.is UNDANFARNAR tvær helgar hefur mikið borið á eftirlitslausum ungmennum á fjölskylduhátíðum, annars vegar á Færeyskum dögum á Ólafsvík og um helgina á Írskum dögum á Akranesi.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

UNDANFARNAR tvær helgar hefur mikið borið á eftirlitslausum ungmennum á fjölskylduhátíðum, annars vegar á Færeyskum dögum á Ólafsvík og um helgina á Írskum dögum á Akranesi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var hegðun flestra til fyrirmyndar en hins vegar þótti stinga í augu hversu ungt fólk hafði áfengi undir höndum, allt niður í fjórtán, fimmtán ára. Verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð segir ábyrgð foreldra mikla og fyrirhugað er hjá skipuleggjendum hátíðanna að endurskoða skipulagið.

"Vandamálið er náttúrlega sú staðreynd að samfélaginu í heild sinni virðist þykja í lagi að fimmtán, sextán ára krakkar fari með leyfi foreldra sinna hingað og þangað um landið og drekki áfengi í tvo til þrjá sólarhringa," segir Tómas Guðmundsson, markaðs- og atvinnufulltrúi Akraneskaupstaðar og einn skipuleggjenda Írskra daga. Tómas segir að skipuleggjendur hafi ráðfært sig við lögreglu og komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að það bæti ekki vandamálið að vísa ungmennum frá. "Við höfðum m.a. reynt að hringja og láta sækja krakka sem greinilega voru of ungir en það bar lítinn árangur. Það eina sem við gátum gert var að tryggja að á meðan þessir gestir voru á okkar ágætu hátíð þá liði þeim eins vel og hægt var og færu sér ekki að voða."

Ungmennin voru aðallega á tjaldsvæði í jaðri bæjarins og var fjölskyldufólk fyrst og fremst á öðru tjaldsvæði. Tómas segir að í heild hafi hátíðin tekist í samræmi við væntingar og mikill fjöldi fólks hafi tekið þátt í fjölskylduvænni dagskrá í bænum. Hins vegar muni verða farið yfir þátt ungmenna á hátíðinni og hugsanlega endurskoðað með hvaða hætti brugðist verður við að ári liðnu. "Við vitum hvaða ábyrgð við berum þegar við auglýsum svona hátíð, en stóra spurningin eftir helgina er hins vegar hvar ábyrgð foreldranna liggur," segir Tómas.

Vitundarvakning óskandi

"Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum til átján ára aldurs, þannig að hvort sem börnin eru að fara þarna með leyfi eða í leyfisleysi, þá er þáttur foreldra nokkuð stór," segir Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð.

Aðspurður hvað hægt sé að gera við unglingadrykkju, sem hefur verið viðvarandi í mörg ár, segir Rafn að ávallt sé verið að beina þessum orðum til foreldra, en vísar jafnframt í þátt fullorðinna á Færeyskum dögum. Þar voru allar bifreiðar með ungu fólki stöðvaðar og áfengi gert upptækt. Eftir helgina fóru hins vegar að berast af því fréttir að fullorðið fólk hefði einfaldlega keyrt áfengið inn í bæinn fyrir ungmenninn. Rafn segist ekki hafa neinar sannanir fyrir þessum fréttum en ef satt reynist þurfi þeir að líta í eigin barm. Hann bendir ennfremur á að hugsanlega þurfi að vera með öflugra og sýnilegra eftirlit á slíkum hátíðum. "Þetta er ekki einfalt og áfengi er því miður samþykkt í samfélaginu. Unglingadrykkja hefur verið hluti af því að alast upp og sumarið er einhvern veginn hömlulaust hvað þetta varðar. Þannig að einhverskonar vitundarvakning í samfélaginu væri óskandi," segir Rafn.

Verslunarmannahelgin nálgast

Nú þegar alræmdasta helgi unglingadrykkju nálgast, þ.e. verslunarmannahelgin, og farið er að auglýsa útihátíðir sem haldnar eru víðs vegar um land segir Rafn að rétt sé að árétta við foreldra að hleypa ekki börnum sínum eftirlitslausum á útihátíðir. Öllum ætti að vera kunnugt um þær hættur sem þar leynast en að verslunarmannahelginni lokinni berast undantekningalaust fréttir af mikilli ölvun ungmenna, ofbeldi, vímuefnaneyslu og nauðgunum. Á vefsvæði Lýðheilsustöðvar er að finna gagnlegar upplýsingar fyrir foreldra, s.s. til að bregðast við þrýstingi frá unglingnum á heimilinu á komandi vikum. Er þar meðal annars bent á að foreldrar séu besta forvörnin og eins að ein leið til að koma til móts við óskir unglingsins sé að fylgja honum á útihátíðina. Þannig fær unglingurinn tækifæri og frelsi til að njóta þeirrar skemmtunar sem þar er í boði en foreldrarnir eru um leið í betri aðstöðu til að koma í veg fyrir óæskilega hegðun.