— Morgunblaðið/Þorkell
VEFSÍÐAN Google, www.google.com, býður upp á ýmislegt sniðugt. Google er nú að setja upp bókasafn á vefnum og er Google books nokkuð sem Íslendingar eru farnir að nýta sér í auknu mæli. Til að komast inn á Google books má slá inn www.books.google.

VEFSÍÐAN Google, www.google.com, býður upp á ýmislegt sniðugt. Google er nú að setja upp bókasafn á vefnum og er Google books nokkuð sem Íslendingar eru farnir að nýta sér í auknu mæli.

Til að komast inn á Google books má slá inn www.books.google.com en líka er hægt að fara inn á www.google.is, velja Allt um google, þar inni er rammi sem heitir "Our search" og í honum er valið Google Services & Tools og þá er hægt að velja Book Search. Bókaleitin virkar síðan þannig að skrifað er orð, nafn eða setning í leitarrammann og ýtt á leitartakkann. Leitarvélin finnur þær bækur sem þetta orð kemur fyrir í. Smellt er á bókartitilinn og þá koma upp grunnupplýsingar um bókina, það geta líka birst nokkur textabrot úr bókinni sem sýna leitarorðin í samhengi. Ef útgefandinn eða höfundurinn hefur gefið Google rétt til er hægt að skoða nokkrar blaðsíður úr bókinni og ef höfundarréttur bókarinnar er runninn út er möguleiki að lesa alla bókina í tölvunni. Í flestum tilvikum koma upp tenglar sem leiða þig til netbókabúða þar sem bókin er til sölu. Einnig eru tenglar á gagnrýni á netinu sem þessi bók hefur fengið og hægt er að sjá hvar má finna sumar bækurnar á bókasöfnum.

Sniðugt er fyrir námsmenn í t.d. ritgerðarvinnu að nota Google books í heimildarleit eða bókaorma sem vilja leita eitthvað nýtt uppi, auk þess að gaman er að slá inn hin ýmsu orð til að sjá í hvaða samhengi eða bókum þau eru notuð.