MAGNI R. Magnússon, sem rak verslun í 40 ár með spil og ýmsa muni á Laugavegi, hefur löngum verið þekktur safnari. Nýverið fann hann franskt póstkort með mynd af frönskum sjómönnum á skútu að láta úr höfn. Undir myndinni er ritað á frönsku: "Franskir sjómenn á leið til fiskveiða við Ísland." Eftir að Magni hætti verslunarrekstri stofnaði hann ásamt konu sinni fyrirtækið Safnmuni í því augnmiði að safna gömlum munum tengdum Íslandi. "Það er fyrst núna sem maður hefur tíma til að skoða það sem maður hefur safnað," segir Magni.
Eftir áratuga reynslu á hann orðið ágætis félaga og kunningja í hinum alþjóðlega safnaraheimi sem láta hann vita ef þeir rekast á eitthvað á hans áhugasviði. "Þeir taka oft frá fyrir mig hluti sem tengjast Íslandi og ef það er eitthvað mjög skemmtilegt hef ég stundum fært þeim íslenskt brennivín en því gleyma þeir aldrei." Magni fékk t.d. ábendingu frá Frakklandi um að bjóða ætti upp póstkortið góða og náði því að næla sér í það.
Hann er ekki búinn að ákveða hvað hann ætlar að gera með póstkortið en hann var á leið til Tyrklands þegar blaðamaður náði tali af honum. Aðspurður hvort nokkrar líkur væru á því að finna eitthvað áhugavert fyrir safnara eins og hann þar sagði Magni að það væri nú ekki markmið ferðarinnar en hann hefði augun alltaf opin. Slíkt borgaði sig því oft hefði hann séð merkilegustu hlutina þar sem hann hefði síst átt von á þeim.