Grein Guðna Elíssonar, dósents í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, Blind er bóklaus þjóð, er birtist í Lesbók hinn 1. júlí sl. hefur vakið verðskuldaða athygli.

Grein Guðna Elíssonar, dósents í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, Blind er bóklaus þjóð, er birtist í Lesbók hinn 1. júlí sl. hefur vakið verðskuldaða athygli. Ljóst má vera af fréttaflutningi sem birtist á síðum Morgunblaðsins dagana á eftir að flestir eru sammála um að bókakostur Þjóðarbókhlöðunnar sé afleitur. Flestir virðast jafnframt telja að gott háskólabókasafn sé mikilvæg forsenda þess að auka gæði kennslu við Háskóla Íslands og skilyrði fyrir því að hann geti skipað sér í röð þeirra bestu eins og yfirlýst markið hans er.

Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður er sammála Guðna og bendir á að framlag Háskóla Íslands til ritakaupa hafi farið lækkandi síðari ár. Hún telur að það þurfi að tvöfalda og helst þrefalda þær þrjátíu og sex milljónir sem varið er til kaupanna svo "við getum staðið keik og sagt að við séum að bjóða stúdentum okkar og vísindamönnum upp á sem besta aðstöðu. 100 milljónir á ári er eitthvað sem menn gætu verið sæmilega sáttir við," segir Sigrún þann 4. júlí. Þar segir jafnframt að hún líti svo á "að líta verði á vöntun á fjármagni til bókasafnskostsins í ljósi reksturs Háskólans í heild sinni, enda leggi skólinn hluta af sínu rekstrarfé í bókakaup Landsbókasafnsins. Hún segist t.d. skilja að ákveðið sé frekar að "klípa af bókakaupafénu" í stað þess að sleppa því að kenna námskeið." Sigrún telur nauðsynlegt að taka reiknilíkanið sem notað er til að meta fjárþörf háskólans til endurskoðunar.

Það er "tómt mál að tala um það að HÍ verði á meðal þeirra hundrað bestu þegar við erum eins og lélegur framhaldsskóli hvað varðar bókakaupin. Þetta er bara hlutur sem menn verða að horfast í augu við". Menntamálaráðherra svarar þessari gagnrýni í Morgunblaðinu sl. laugardag og segist "[taka] undir með þeim sem hafa sagt að mikilvægi bókasafnanna og bókakostsins verður seint ofmetið". En jafnframt segir hún að það sé háskólanna sjálfra að ákveða hverju þeir verja til starfseminnar innan skólanna, hvort sem þar er um bókakaup að ræða eða annað. Hún vísar til þess að framlög til háskólanna hafi aukist úr 6,5 milljörðum í 10 milljarða frá 2002.

Þetta svar ráðherrans leysir engan vanda, heldur staðfestir einungis að vandlega þurfi að leggjast yfir endurmat á fjárþörf Háskóla Íslands miðað við aðra skóla. Einnig þarf að kanna hve nemendum hefur fjölgað mikið í því háskólanámi sem þessum tíu milljörðum er varið til. Getur verið að nemendum fjölgi meira en framlög til háskólanna aukast?

Í öllu falli má lesa úr viðbrögðum Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu í dag brýna fjárþörf umfram þau framlög sem Háskóli Íslands fær. Kristín segir að skólinn sækist eftir "fjárveitingum frá ríki þannig að þær verði sambærilegar við fjárveitingar samanburðarháskóla hér í nágrannalöndunum", og jafnframt að ekki sé hægt að ná því að "vera í röð fremstu háskóla heims miðað við núverandi ástand".

Í Háskóla þar sem "klipið er af bókakaupafénu" eins og Sigrún Klara orðar það til að halda uppi kennslu; þar sem nemendum á meistarastigi er kennt í sömu kennslustundum og nemendum í grunnámi til að spara fé, þar er farið að "klípa" af grundvallargæðakröfum sem gera þarf til háskóla að því marki að ekki verður lengur við unað.