Nafnarnir Arnar Þór Úlfarsson, leikmaður Fylkis, og Víkingurinn Arnar Jón Sigurgeirsson berjast um knöttinn í háloftunum.
Nafnarnir Arnar Þór Úlfarsson, leikmaður Fylkis, og Víkingurinn Arnar Jón Sigurgeirsson berjast um knöttinn í háloftunum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SÆVAR Þór Gíslason var bjargvættur Fylkis þegar liðið lagði Víking 1:0 í Árbænum í gærkvöldi. Hann gerði eina mark leiksins rúmri mínútu eftir að hann kom inn á í síðari hálfleiknum.

SÆVAR Þór Gíslason var bjargvættur Fylkis þegar liðið lagði Víking 1:0 í Árbænum í gærkvöldi. Hann gerði eina mark leiksins rúmri mínútu eftir að hann kom inn á í síðari hálfleiknum. Fylkir hefur því fengið sex stig úr leikjunum við Víking í deildinni, vann 2:0 í fyrstu umferðinni, og skaust í annað sætið, stigi á undan Víkingum. Langt er þó í FH-inga því þeir eru tíu stigum á undan Fylki.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is

Fylkismenn byrjuðu með látum í gær og Haukur Ingi Guðnason átti fínt skot frá vítateig strax á annarri mínútu. Víkingar mættu greinilega til leiks til að ná í stig og fóru sér að engu óðslega. Sóknir þeirra byggðust á að koma boltanum fram á Daníel Hjaltason sem var einn frammi og vona hið besta. Þessa varkárni náðu Fylkismenn hins vegar illa að nýta sér í fyrri hálfleik. Boltinn gekk að vísu ágætlega manna á milli en fátt markvert gerðist enda voru sendingar þvert á völlinn eða til baka trúlega fleiri en sendingar þeirra fram á völlinn.

Víkingar bættu í er líða fór á hálfleikinn og fengu fín færi en Daníel misnotaði tvö slík eftir undirbúning Arnars Jóns Sigurgeirssonar og Ragnar Sigurðsson skallaði framhjá úr fínu færi auk þess sem Viktor Bjarki Arnarson átti fínt skot úr aukaspyrnu rétt framhjá, Guðni Rúnar Helgason hitti markið hinum megin úr aukaspyrnu en Ingvar Þór Kale sló boltann frá.

Arnar Jón átti flott skot um miðjan síðari hálfleik en boltinn fór í varnarmann og þaðan í þverslána. Víkingar töldu reyndar að boltinn hefði farið í hönd varnarmannsins en Ólafur Ragnarsson, ágætur dómari leiksins, sá ekkert athugavert.

Haukur Ingi Guðnason fór útaf fyrir Sævar Þór á 65. mínútu og rúmri mínútu síðar skoraði Sævar Þór. Markið var í rauninni sanngjarnt því Fylkismenn voru mun sprækari en Víkingar í síðari hálfleiknum, en eins og svo oft áður bökkuðu leikmenn Fylkis eftir markið og Víkingar tóku til við að sækja af þunga. Það bar ekki tilætlaðan árangur hjá þeim frekar en í fyrri hálfleik. Varnarmenn Fylkis björguðu á marklínu eftir hornspyrnu og síðan varði Fjalar Þorgeirsson meistaralega eftir að Grétar Sigfinnur Sigurðarson skallaði að marki.

Það hefur vantað einhvern neista í Fylkisliðið í nokkrum leikjum í sumar og það sama má segja um leikinn í gær. Hjá Fylki var Fjalar öruggur í markinu og varði það sem þurfti að verja. Guðni Rúnar var kletturinn í vörn liðsins, mjög öruggur og á oft góðar langar sendingar út á kantana, sendingar sem ættu að geta skapað meiri usla en raunin varð í gær. Á miðjunni var fyrirliðinn Ólafur Ingi Stígsson traustur og yfirvegaður og Eyjólfur Héðinsson var duglegur. Haukur Ingi var sprækur í fyrri hálfleik og aðrir áttu fína spretti. Albert Brynjar Ingason átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en bætti sig verulega í þeim síðari.

Hjá Víkingum var fyrirliðinn Höskuldur Eiríksson gríðarlega traustur sem hægri bakvörður og við hlið hans var Grétar Sigfinnur einnig öruggur. Besti maður liðsins var þó Arnar Jón Sigurgeirsson sem átti fínan leik á miðjunni, var bæði duglegur og hugmyndaríkur. Sendingar hans sköpuðu oft hættu. Viktor Bjarki átti fína spretti, sérstaklega í fyrri hálfleik og það sama má segja um Daníel, sem gerði vel einn á móti margnum innan um varnarmenn Fylkis. Þá átti Stefán Kári Sveinbjörnsson ágæta spretti og stóð sig vel, sérstaklega í síðari hálfleiknum.

M-gjöfin

Fylkir

M

Fjalar Þorgeirsson

Guðni Rúnar Helgason

Ólafir Ingi Stígsson

Eyjólfur Héðinsson

Víkingur

M

Höskuldur Eiríksson

Grétar Sigfinnur Sigurðarson

Arnar Jón Sigurgeirsson

Viktor Bjarki Arnarson

Daníel Hjaltason

Erfitt að vera á bekknum

"NEI, var þetta ekki önnur snertingin hjá mér?" sagði Sævar Þór Gíslason sem tryggði Fylki 1:0 sigur á Víkingum með marki rúmri mínútu eftir að hann kom inn á í síðari hálfleik. "Annars skiptir það ekki nokkru máli hvort þetta var fyrsta eða önnur snerting. Það er markið sem skiptir máli og að við skyldum ná í þrjú stig. Ég sá boltann koma í gegnum teiginn og það var ekkert annað að gera en afgreiða hann.

Það er alltaf erfitt að vera á bekknum, en mér fannst við vera með yfirhöndina í fyrri hálfleik, náum síðan að skora og þá bökkum við eins og venjulega. Við verðum að fara að laga það," sagði Sævar Þór.

Oft hafa Fylkismenn talað um að hlutirnir hafi ekki dottið með þeim í leikjum sumarsins, en það gerði það núna. "Já, loksins datt þetta hjá okkur og það var kominn tími til. Þetta var baráttuleikur eins og við áttum von á, alveg eins og í fyrri leiknum," sagði Sævar Þór kátur í leikslok.

Fengum fín færi til að skora

Magnús Gylfason þjálfari Víkinga var ekki alveg jafn kátur. "Þetta var jafn leikur en við fengum fín færi til að skora og ég er ósáttur við að ná ekki að setja á þá mark. Við ætluðum að vera varkárir í upphafi leiks og mér fannst einhvern veginn að við næðum ekki að rífa okkur út úr því og spila þann fótbolta sem við höfum gert í sumar. Við náðum að rífa okkur aðeins upp eftir að við lentum undir og ógnuðum þá marki þeirra talsvert, en því miður náðum við ekki að skora," sagði Magnús.