Keppendurnir 15 í Rock Star: Supernova. Nú ætti að hitna í kolunum eftir brotthvarf Matts.
Keppendurnir 15 í Rock Star: Supernova. Nú ætti að hitna í kolunum eftir brotthvarf Matts.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ANNAR þátturinn í Rock Star: Supernova fer fram í nótt klukkan 1 en þátturinn er sýndur beint á Skjá einum.

ANNAR þátturinn í Rock Star: Supernova fer fram í nótt klukkan 1 en þátturinn er sýndur beint á Skjá einum. Í síðasta þætti var það Matt sem datt út eftir að hafa sungið Duran Duran lagið "Planet Earth" en þar áður söng hann "Yellow" með Coldplay. Þeir Clarke, Lee og Newstead voru óánægðir með lagaval Matts og þrátt fyrir að hann hefði ekki sungið verst af öllum keppendunum, var eins og þeim byði einfaldlega við tónlistarsmekk stráksins og því var hann látinn fjúka.

Hurðin skall þó ansi nálægt hælum Magna og eins og kom fram hjá þokkadísinni Brooke Burke sem kynnir þættina, þá var Magni á einhverjum tímapunkti kosningarinnar í einu af þremur neðstu sætunum.

Mikla umræðu er að finna á spjallsíðu þáttarins sem finna má á slóðinni, www.rockstar.msn.com, þar sem meðal annars er rætt um frammistöðu Magna og þar eru ekki allir á eitt sáttir. Einhver sem kallar sig WinceWhirlwind segir til dæmis að Magni verði næstur til að fá reisupassann. Í hann vanti allan takt og svo sé hann ekki nógu áhugaverður einstaklingur til að vinna hylli Supernova. Það er ljóst að mikill fjöldi Íslendinga leggur leið sína á spjallsíðu þáttarins því holskefla andmæla hellist yfir WinceWhirlwind í kjölfarið og honum eru svo sannarlega ekki vandaðar kveðjurnar.

Lagavalið mikilvægt

Eins og fyrr kom fram verður þátturinn sýndur í kvöld klukkan 1 og samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins er Magni fyrstur á svið í nótt. Í síðustu viku valdi hann að syngja "Satisfaction" með Rolling Stones en margir hafa síðan sagt að það val hafi ekki verið skynsamlegt. Lagið sé svo frægt í meðförum Jaggers og félaga að allir aðrir virki eins og karaoke-söngvarar þegar þeir reyni við það. Hvort það reynist Magna heilladrjúgt að stíga fyrstur á svið í kvöld kemur í ljós en aðalatriðið er að hann velji lag sem hentar honum og býður upp á hans eigin túlkun.