Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is STEFNA Ríkisútvarpsins og Sigurðar Guðjóns Sigurðssonar, sjálfstætt starfandi hönnuðar, á hendur 365-ljósvakamiðlum ehf. og auglýsingastofunni Góðu fólki var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

STEFNA Ríkisútvarpsins og Sigurðar Guðjóns Sigurðssonar, sjálfstætt starfandi hönnuðar, á hendur 365-ljósvakamiðlum ehf. og auglýsingastofunni Góðu fólki var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Krafist er að stefndu greiði stefnanda, Ríkisútvarpinu, 960.265 kr. og Sigurði Guðjóni Sigurðssyni 2 milljónir kr.

Málsatvik eru að 14. febrúar sl. pantaði Ríkisútvarpið síðu í Fréttablaðinu undir auglýsingu sem stofnunin hafði látið Sigurð vinna fyrir sig og sendi 365 fullbúið eintak af auglýsingunni á rafrænu formi. Þar var greint frá niðurstöðu fjölmiðlakönnunar IMG-þekkingarsköpunar hf. frá í janúar og bent á að 10 af 10 vinsælustu sjónvarpsþáttunum væru í Sjónvarpinu. 365 ljósvakamiðlar birtu auglýsingu frá Stöð 2 í Fréttablaðinu 28. febrúar þar sem auglýsing RÚV var tekin í heilu lagi, minnkuð og hallað til vinstri. Yfir auglýsingu RÚV höfðu verið settir rauðir borðar með orðinu "búið", og tekið fram að ekki væri nóg að vera vinsæll í viku og bætt við að 7 af 10 vinsælustu þáttum Sjónvarpsins væru ekki lengur á dagskrá.

Byggja stefnendur báðir á því að auglýsing njóti verndar sem höfundarverk samkvæmt 1. grein höfundarlaga nr. 73/1972. Stefnandi Ríkisútvarpið byggir á því að auglýsingin hafi verið tekin og notuð í heimildarleysi og án samþykkis eiganda hennar, sem er Ríkisútvarpið. Stefnandi Sigurður byggir á því að útliti og innihaldi auglýsingarinnar hafi verið breytt án leyfis hans, hún afbökuð og notuð gegn viðskiptavini hans.

Telur vinnubrögð í samræmi við venjur

"Ég held að þessi vinnubrögð sem viðhöfð voru við þessa auglýsingu, sem var unnin af auglýsingastofu fyrir okkur, séu nú í samræmi við það sem hafi tíðkast, m.a. af Ríkisútvarpinu," sagði Ari Edwald, forstjóri 365-miðla, í samtali við Morgunblaðið í gær og sagðist lítið annað hafa um málið að segja á þessu stigi. "Við erum að fara að taka til varna í málinu, eða því sem að okkur snýr."

Málið verður þingfest 7. september nk.