Guðný Einarsdóttir er nýútskrifuð frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn og er að sögn gagnrýnandans verulega fær orgelleikari.
Guðný Einarsdóttir er nýútskrifuð frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn og er að sögn gagnrýnandans verulega fær orgelleikari. — Morgunblaðið/Jim Smart
Guðný Einarsdóttir organisti lék verk eftir Bach, Alain, Widor og Mússorgskí. Sunnudagur 9. júlí.

UNGUR organisti, Guðný Einarsdóttir, sem er nýútskrifuð frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn, hélt tónleika í Hallgrímskirkju á sunnudagskvöldið. Strax í byrjun Prelúdíu og fúgu í D-dúr BWV 532 eftir Bach heyrði maður að hún er verulega fær; leikur hennar var óvenju skýr og raddir orgelsins í prýðilegu jafnvægi. Túlkunin var greinilega úthugsuð, tímasetningar voru hárréttar og hápunktarnir glæsilegir.

Sömu sögu er að segja um Fantasíu nr. 2 eftir Jehan Alain; þar kom framandi tónmálið, sem var undir sterkum austurlenskum áhrifum, sérlega fallega út í meðförum Guðnýjar. Alain lést í seinni heimsstyrjöldinni, aðeins 29 ára gamall, en hafði þá samið hvorki meira né minna en 120 tónverk. Í mörgum þeirra sótti hann innblásturinn í marokkóskar tónlistarhefðir og einnig djassinn. Verk hans eru þó afar persónuleg; Alain tókst að blanda saman ólíkum stílum og gera að sínum; útkoman ber vitni um gífurlega tónlistarhæfileika. Synd að hann fékk ekki að lifa lengur.

Síðasta atriðið fyrir hlé var kafli úr fimmtu orgelsinfóníu Widors. Hann ber yfirskriftina Allegro Vivace, sem þýðir hratt og fjörlega. Leikur Guðnýjar var nákvæmur og öruggur, en heldur varfærnislegur og því ekki eins fjörlegur og hann hefði þurft að vera. Fyrir vikið skorti flæðið í túlkunina.

Hinsvegar var margt einstaklega glæsilegt í Myndum á sýningu eftir Mússorgskí eftir hlé, en Keith John umritaði verkið árið 1953. Myndirnar eru margar erfiðar en Guðný hafði lítið fyrir þeim. Túlkunin einkenndist af kröftugum andstæðum og var yfirleitt ákaflega sannfærandi. Helst mátti finna að dálítið einhæfum styrkleika; tvær myndirnar, Limoges, og Ballett óklöktu fuglsunganna virkuðu óþarflega vélrænar og sum millispilin hefðu líka mátt vera veikari. Annað var aftur á móti frábært; nornin Baba Yaga var t.d. skemmtilega illileg og Stóra hliðið í Kiev beinlínis yfirgengilegt; þannig mætti lengi telja. Greinilegt er að Guðný er hæfileikaríkur, hámenntaður organisti; ég óska henni velfarnaðar á tónlistarbrautinni.

Jónas Sen

Höf.: Jónas Sen