Eftir Þóri Júlíusson thorirj@mbl.is PÁLMI Ragnar Pálmason, formaður stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH), segist ætla að ræða við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vegna málefna spítalans.
Eftir Þóri Júlíusson thorirj@mbl.is

PÁLMI Ragnar Pálmason, formaður stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH), segist ætla að ræða við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vegna málefna spítalans. Aðspurður hvort nefndin muni biðja ráðherra um viðbótarfjármagn segir Pálmi það eiga eftir að koma í ljós.

"Þegar búið er að greina vandann og það standa peningar upp úr verðum við auðvitað að fara fram á aukið fjármagn með einum eða öðrum hætti."

Pálmi segir hins vegar ljóst að einhver brestur sé í samskiptaferlinu á spítalanum og fara verði í gegnum það ferli í því skyni að komast hjá leiðindum. Þessi mál verði því rædd við ráðherra. "Það er eitthvað ekki eins og það á að vera fyrst að þessi mál koma upp en það er erfitt að gera svo öllum líki alltaf."

Pálmi bendir á að nefndin telji sig hafa að leiðarljósi hagsmuni spítalans og þeim sé best komið með svokallaðri helgun. Það felur meðal annars í sér að yfirlæknar sjúkrahússins séu í 100% starfi og reki ekki læknastofu utan hans.

"Það er alveg klárt að yfirlæknar verða af tekjum með þessari helgun en þeir fá auðvitað umtalsverðar tekjur fyrir að reka sínar stofur, sem þeir verða af. Það hefur verið reynt að mæta þessu og spítalinn telur sig núna vera búinn að teygja sig þangað sem hann getur. Ef þessir menn [...] vilja ekki sæta þessu er fórnað minni hagsmunum fyrir meiri að okkar áliti. Við fórnum þeirra hagsmunum fyrir hagsmuni spítalans."

Framhald málsins óráðið

Ákvörðun hefur ekki verið tekin um það fyrir hönd LSH hvort máli Stefáns E. Matthíassonar gegn spítalanum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Þetta kemur fram í bréfi sem forstjóri LSH og framkvæmdastjóri lækninga sendu læknum spítalans til upplýsingar. Þar segir jafnframt að lögmaður Stefáns, Ragnar H. Hall, hafi óskað eftir viðræðum til að leita leiða til að leysa þann ágreining sem varð tilefni málaferlanna. Spítalinn muni að sjálfsögðu verða við þeirri beiðni en ákvarðanir um framhald málsins verði að bíða þess að niðurstöður viðræðnanna liggi fyrir.