Undirrita samning Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, og Guðgeir Sigurjónsson, varaformaður Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs.
Undirrita samning Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, og Guðgeir Sigurjónsson, varaformaður Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs. — Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson
Eftir Gunnar Gunnarsson Fljótsdalshérað | Golfklúbbur Fljótsdalshéraðs og sveitarfélagið Fljótsdalshérað hafa gert með sér fjögurra ára samning um uppbyggingu á Ekkjufellsvelli.
Eftir Gunnar Gunnarsson

Fljótsdalshérað | Golfklúbbur Fljótsdalshéraðs og sveitarfélagið Fljótsdalshérað hafa gert með sér fjögurra ára samning um uppbyggingu á Ekkjufellsvelli. Fljótsdalshérað leggur til fjármagn sem gerir klúbbnum kleift að lengja völlinn úr stuttum par 33 velli upp í fullgildan par 36 níu holu golfvöll. Kristmann Pálmason, formaður klúbbsins, segir að innan fjögurra ára eigi jafnframt að vera búið að hanna upp 18 holu golfvöll á Ekkjufelli. "Allar breytingar á vellinum eru miðaðar við að hér verði 18 holu golfvöllur í framtíðinni. Við ætlum okkur að byggja upp góðan 9 holu völl áður en við förum að stækka hann enn frekar."

Fjölgað úr 45 í 130

Breytingar á vellinum hófust í vetur og á laugardaginn verða teknar í notkun nýjar flatir á brautum 7 og 8 þegar KB-bankamótið verður haldið á Ekkjufellsvelli. Kristmann áætlar að verðmæti breytinganna í útseldri vinnu sé milli 30 og 35 milljónir króna, en hann segir fyrirtæki á Fljótsdalshéraði hafa stutt vel við klúbbinn. Sem dæmi nefnir hann að Malarvinnslan gefur flötina á 7. braut. Kristmann segir að fyrirtækin taki eftir því öfluga starfi sem klúbburinn standi fyrir. "Félögum í klúbbnum hefur fjölgað úr 45 í 130 á tveimur árum auk þess sem barna- og unglingastarfið er í miklum blóma. Það eru að jafnaði yfir 20 krakkar í kennslu alla daga vikunnar."

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir samninginn mikilvægan fyrir sveitarfélagið. "Hann er mikilvægur fyrir bæði ferðaþjónustu og íbúa. Golfíþróttinni á Fljótsdalshéraði hefur vaxið verulega fiskur um hrygg og með þessum samningi, sem er bæði rekstrar- og uppbyggingarsamningur, er búið vel að uppbyggingu golfsins."