Systkinin Freyr Sigurjónsson flautuleikari og Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari hafa ekki mikið spilað saman. Þau segjast bæði vera skapmikil og því hafi samstarfið ekki endilega verið auðvelt en ákaflega frjótt og gefandi.
Systkinin Freyr Sigurjónsson flautuleikari og Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari hafa ekki mikið spilað saman. Þau segjast bæði vera skapmikil og því hafi samstarfið ekki endilega verið auðvelt en ákaflega frjótt og gefandi. — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Jón Gunnar Ólafsson jongunnar@mbl.is "ÞAÐ var alltaf músík í húsinu.
Eftir Jón Gunnar Ólafsson jongunnar@mbl.is

"ÞAÐ var alltaf músík í húsinu. Þetta er hús listamanns, ekki bara safn, hér bjó pabbi og starfaði og við systkinin spiluðum öll á hljóðfæri og því lá beint við að byrja með þessa tónleikaröð þegar safnið var opnað," segir Hlíf Sigurjónsdóttir, fiðluleikari og dóttir listamannsins Sigurjóns Ólafssonar. Í kvöld mun Hlíf ásamt bróður sínum, flautuleikaranum Frey Sigurjónssyni og hjónunum Iwonu og Jerzy Andrzejczak spila á fyrstu tónleikum sumarsins í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi en þetta er í átjánda sinn sem sumartónleikaröð er skipulögð í safninu.

Alls verða níu tónleikar í sumar, allir á þriðjudagskvöldum, fyrir utan aukatónleika nk. sunnudagskvöld og verða þeir allir um klukkustundarlangir. "Skipulagið á þessu var fyrst og fremst hugsað fyrir áheyrendur. Að það væri lítið mál að fara í göngutúr út á Laugarnes og aðeins skreppa inn á tónleika og fá sér svo kaffi og horfa á sólarlagið. Hér er frábær hljómburður fyrir kammermúsík og mér finnst magnað þetta samspil hússins, minninganna, staðarins og umhverfisins," segir Hlíf.

Mikilvægt fyrir Reykjavík

Þau systkinin eru sammála um það að tónleikaröðin muni einkennast af gæðatónlist sem flutt verði á aðgengilegan hátt, tónleikarnir séu ekki of langir og því ætti engum að leiðast. Þau telja að full þörf sé á framtakinu í höfuðborginni yfir sumartímann. "Það er ekkert annað svipað í gangi í Reykjavík núna. Það er allt búið eftir Listahátíðina og núna er allt úti á landsbyggðinni. Það er hið besta mál en það er mikilvægt að vera með tónleika af þessari gerð líka í Reykjavík. Tónlistin sem boðið verður upp á í sumar er frá barokk til nútíma. Þetta eru fyrst og fremst kammerverk, salurinn er hannaður fyrir þannig verk og þetta verður fjölbreytt," segir Hlíf og minnist á það að sellóið verði sérlega áberandi í sumar.

Hún hefur komið að skipulagi tónleikaraðarinnar frá því að hún hófst og oftsinnis spilað á sumartónleikum í safninu. Freyr hefur hins vegar ekki mikið komið fram í safninu upp á síðkastið en hann hefur gert það gott á Spáni þar sem hann hefur verið fyrsti flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Bilbao síðan 1982.

Það vantaði flautuleikarann

Á tónleikunum í kvöld verða fluttir allir flautukvartettar Mozarts en í ár eru 250 ár frá því að hann fæddist. "Ég bauð upp á þessa tónleika á Spáni í tengslum við fæðingarafmæli Mozarts. Þetta var skipulagt í gegnum Sinfóníuhljómsveitina í Bilbao. Hún er með kammertónleikaraðir sem ferðast um héraðið og mér datt þetta í hug í tengslum við það. Ég reiknaði með henni Hlíf systur í þetta verkefni," segir Freyr en Hlíf fór til Spánar í maí og fluttu þau systkinin þá sömu dagskrá og flutt verður á safninu í kvöld ásamt Iwonu Andrzejczak, leiðara víóludeildar sinfóníuhljómsveitarinnar í Bilbao, og manninum hennar, Jerzy Andrzejczak sem leiðir sellódeild sveitarinnar. Þau eru bæði komin til landsins og munu spila á tónleikunum í kvöld ásamt þeim systkinum. Þau ætla svo öll að koma fram á aukatónleikum nk. sunnudagskvöld ásamt Önnu Áslaugu Ragnarsdóttur píanóleikara en þá verða flutt verk eftir Bohuslav Martinu.

"Þegar ég fór til Spánar var komið fram við mig eins stórstjörnu og það var bara af því að ég er systir hans Freys. Það var svo gaman. Ég fékk að leysa af í hljómsveitinni þarna á tvennum tónleikum en þegar ég var að spila var Freyr í fríi. Hann kom að hlusta á tónleikana og að þeim loknum kom gagnrýnandi til Freys og sagði að það hefði verið augljóst að það vantaði flautuleikarann," segir Hlíf, greinilega stolt af bróður sínum.

Ekki mikið spilað saman

Þau systkinin hafa ekki mikið spilað saman og segjast þau bæði vera skapmikil og því hafi samstarfið ekki endilega verið auðvelt en ákaflega frjótt, gefandi og skemmtilegt. Að loknum tónleikunum tvennum verður Freyr hér á landi í stuttu fríi áður en hann heldur aftur til Spánar. Hann fékk fyrr á árinu frábæra dóma fyrir einleik sinn í konsert eftir Mozart fyrir flautu og hörpu, en það var hörpuleikarinn Marion Desjacques sem kom þá fram með honum. "Mér líður mjög vel fremst á sviðinu," segir Freyr sem hefur mikinn áhuga á því að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands. "Jón Ásgeirsson samdi fyrir mig konsert og ég hef sótt um að fá að flytja hann með Sinfóníunni hér. Þetta er afskaplega fallegt verk og er fyrir flautueinleik og hljómsveit," segir Freyr en hann hefur ekki fengið svar frá hljómsveitinni. Ef það gengur ekki upp að frumflytja verkið hér verður það að öllum líkindum gert á Spáni.

Freyr segir að það hafi alls ekki verið meðvituð ákvörðun að spila lítið á Íslandi. Hlutirnir hafi einfaldlega æxlast þannig. "Hérna áður fyrr var það bara svo dýrt að komast hingað en núna er það orðið mun auðveldara þannig að ég kem oftar hér og tek þá börnin með," segir Freyr sem hefur nóg fyrir stafni á Spáni. "Ég er bæði að kenna í tónlistarskólanum í Bilbao og er í fullri vinnu sem fyrsti flautuleikari í Sinfóníuhljómsveitinni. Það er alveg hellingur að gera. Við erum með tvo konserta í viku og það er alltaf fullt en salurinn tekur 2.200 manns í sæti. Svo erum við í alls kyns öðrum verkefnum. Við spilum líka í óperum. Það eru fluttar sjö óperur á ári og hver ópera er flutt fjórum eða fimm sinnum. Þannig að mér leiðist sko ekki."

Allir tónleikarnir hefjast kl. 20.30. Miðaverð er 1.500 kr. en aldraðir og námsmenn frá 300 kr. í afslátt. Allar nánari upplýsingar fást á www.lso.is.