DR. HANNES Jónsson, fyrrverandi sendiherra, lést í gær á 84. aldursári. Hannes fæddist í Reykjavík 20. október 1922, sonur hjónanna Jóns Guðmundssonar, bónda að Bakka í Ölfusi og Maríu Hannesdóttur.

DR. HANNES Jónsson, fyrrverandi sendiherra, lést í gær á 84. aldursári. Hannes fæddist í Reykjavík 20. október 1922, sonur hjónanna Jóns Guðmundssonar, bónda að Bakka í Ölfusi og Maríu Hannesdóttur.

Hannes lauk Iðnskólaprófi árið 1942 og Samvinnuskólaprófi ásamt sveinsprófi í prentiðn árið 1944. Árið 1949 lauk hann MA-prófi í félagsfræði og hagfræði frá University of North Carolina í Chapel Hill í Bandaríkjunum. Hannes varð doktor í þjóðfélagsfræði og þjóðarrétti frá Vínarháskóla í Austurríki árið 1980.

Áður en Hannes hóf störf hjá utanríkisþjónustunni starfaði hann sem prentari, blaðamaður og fulltrúi hjá SÍS ásamt störfum fyrir Framsóknarflokkinn.

Á árunum 1953-1989 starfaði Hannes sem embættismaður hjá utanríkisþjónustunni og um tíma sem blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Var hann m.a. varafastafulltrúi hjá SÞ og ræðismaður í New York, sendiherra og fastafulltrúi hjá EFTA, GATT og öðrum alþjóðastofnunum í Genf og sendiherra í Moskvu og Bonn.

Hannes gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum og sat meðal annars í fyrstu bæjarstjórn Kópavogs og átti sæti í miðstjórn Alþjóðasambands félagsfræðinga. Eftir hann liggja fjölmargar fræðiritgerðir og bækur á sviði félagsfræði, hagfræði og alþjóðamála. Hann var sæmdur stórriddarakrossi fálkaorðunnar árið 1976 og stórkrossriddara með axlaborða og stjörnu þýsku Verdienst-orðunnar árið 1986.

Hannes kvæntist árið 1948 eftirlifandi eiginkonu sinni Karin Waag, fæddri 1926. Þau eignuðust sjö börn.