NÚ HAFA komið fram hugmyndir um lagningu "hraðbrauta" í þrjár áttir út frá höfuðborgarsvæðinu. Það er Reykjanesbraut, en til viðbótar núverandi breikkun vantar marga km suður frá Hafnarfirði og síðan framlengingu að Leifsstöð. Þá leiðin austur fyrir fjall, utan við Selfoss og að Þjórsárbrú, og í þriðja lagi Vesturlandsvegur í framhaldi af Sundabraut og síðan fram hjá Akranesi og Borgarnesi og allt að Norðurárdal. Til að flýta vegagerðinni er talað um einkaframkvæmdir og endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs með skuggagjöldum tengdum umferðarmagninu.
Vel má vera að þessi aðferð yrði dýrari í krónum talin en sú venjulega með beinu útboði Vegagerðarinnar, en þá skiptir líka miklu máli hvort þessar framkvæmdir tækju 10-20 ár eða lullað yrði við þær fram á miðja öldina.
Það sem skiptir þó mestu máli eru áhrifin á byggðaþróunina. Þjóðfélagið stefnir hratt í átt til borgríkis með þeirri einsleitni og áhættu sem því fylgir (sbr. eggin og körfuna). Lóðaskorturinn á svæðinu er talinn mesta vandamálið og í því sambandi er horft jafnt út til hafs og upp til heiða, en að sunnanverðu teygir byggðin sig út á átta alda gamalt Kapelluhraunið.
Reynslan sýnir að fjöldi fólks vill búa í minni bæjum sem bjóða upp á alla almenna þjónustu og fjölbreytta atvinnu, en hafa þó borgina í seilingarfjarlægð bæði fyrir sérhæfða þjónustu og störf. Um leið styrkist landsbyggðin. Svo dæmi séu tekin þá munu áhrifin ná um allt Vesturland og bæta aðgengi Vestfirðinga og Norðlendinga að höfuðborginni. Í hina áttina munu meira að segja Vestmannaeyingar njóta góðs af eftir að höfn er komin í Bakkafjöru, og gestum þeirra mun líka stórfjölga þar sem jafnvel mestu landkrabbar munu ekki setja fyrir sig hálftíma siglingu. Einnig má nefna kostina fyrir orlofshúsafólkið og líklega fjölgar þá ferðum þess á veturna.
Fyrir utan úrtölumenn stendur þó einn þröskuldur í vegi. Hvers vegna skyldu Hvalfjarðargöng (þótt tvöfölduð verði) og Vaðlaheiðargöng verða einu gjaldskyldu umferðarmannvirki landsins? Fyrir bragðið nýtast þau ekki sem skyldi og hafa ekki full áhrif á byggðaþróunina. Þar ættu skuggagjöldin einnig að taka við í fullvissu um að af þessum málum í heild yrði ríkulegur hagnaður í þágu þjóðfélagsins.
Höfundur er viðskipta- og landfræðingur.