Fáskrúðsfjörður | Fyrsta skóflustunga hefur verið tekin að framkvæmdum í Hlíðahverfi í Fáskrúðsfirði. Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, var þar að verki á stærðar gröfu.
Skóflustungan markar tímamót í byggingarsögu Fáskrúðsfjarðar enda lætur nærri að íbúðum í byggðarlaginu fjölgi um 20% við framkvæmdirnar.
Fjárfestingafélag Austurlands fékk 26 lóðir úthlutaðar í hverfinu fyrir allt að 50 íbúðir í einbýlishúsum auk par- og raðhúsa.
Fjölskylduparadís utan við skarkala
"Fyrsta kastið rísa þarna sextán íbúðir í fjórum raðhúsum. Jarðvinnsla er hafin en neðri hæð húsanna verður steinsteypt og sú efri úr timbri. Hver íbúð verður á bilinu 120 til 150 fermetrar," segir Þórir Jens Ástvaldsson, framkvæmdastjóri BKR ehf. sem á Fjárfestingafélag Austurlands. "Um er að ræða tveggja ára verkefni en eftirspurn á markaði ræður miklu um hvert framhaldið verður að fyrsta áfanga loknum. Þetta tengist auðvitað Fjarðaáls-verkefninu, en Fáskrúðsfjörður er meira út úr skarkalanum en bæjarfélögin sem eru nær framkvæmdunum og við sjáum þetta fyrir okkur sem fjölskylduparadís."Leigufélagið Híbýli ehf. hefur fest kaup á hluta íbúðanna en afgangurinn verður seldur á frjálsum markaði.
Stefnt er að því að fyrstu húsin verði fokheld og tilbúin að utan í árslok 2006. Áætlað er að lokafrágangi innan dyra verði lokið á næsta ári.