TEKIN hefur verið ákvörðun um að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, FSA, verði með öllu reyklaus stofnun frá 1. október næstkomandi. Fyrir 10 árum voru reykingar starfsmanna bannaðar en sjúklingum heimilaðar reykingar í sérstökum reykherbergjum.

TEKIN hefur verið ákvörðun um að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, FSA, verði með öllu reyklaus stofnun frá 1. október næstkomandi. Fyrir 10 árum voru reykingar starfsmanna bannaðar en sjúklingum heimilaðar reykingar í sérstökum reykherbergjum. Framkvæmdastjórn hefur nú ákveðið að engar reykingar verði leyfðar, hvorki af hálfu sjúklinga, starfsmanna né aðstandenda í húsnæði FSA né á lóð spítalans.

Frá því síðastliðið haust hefur til reynslu gilt algjört bann við reykingum á Kristnesspítala, sem er hluti af FSA.

Þetta kemur fram á vef sjúkrahússins og haft eftir Halldóri Jónssyni forstjóra að reynslan af því að banna reykingar með öllu á Kristnesi hafi verið góð. Í því ljósi, sem og í framhaldi af þeim takmörkunum sem gilt hafa í aðalbyggingu sjúkrahússins á Akureyri, var sú ákvörðun tekin að stíga skrefið til fulls nú í haust.

Góð sátt ríkir um það skref sem nú verður stigið að því er fram kemur hjá Þóru Ákadóttur, starfsmannastjóra hjúkrunar FSA, en hún stýrði starfi nefndar sem fjallaði um málið.

Hún segir ákvörðunina í takt við þá jákvæðu þróun sem er að eiga sér stað í þjóðfélaginu hvað þessi mál varðar, það sé jákvætt fyrir FSA að taka þátt í henni.