BANDARÍSKI kylfingurinn Jeremy Weaver er heldur betur lukkunnar pamfíll. Jeremy þessi skellti sér í golf með félögum sínum, sólarhring fyrir brúðkaup sitt, á Iron Lakes vellinum í Pensylvaníu ríki í Bandaríkjunum. Á 6.

BANDARÍSKI kylfingurinn Jeremy Weaver er heldur betur lukkunnar pamfíll. Jeremy þessi skellti sér í golf með félögum sínum, sólarhring fyrir brúðkaup sitt, á Iron Lakes vellinum í Pensylvaníu ríki í Bandaríkjunum. Á 6. braut vallarins er hægt að greiða tvo dollara, 150 krónur, í pott og fari menn holu í höggi fá þeir 7.500 dollara í verðlaun, eða um 567 þúsund krónur.

Weaver hafði verið sagt upp störfum tveimur vikum áður en hann náði draumahögginu, sem hann sló með 6 járni. Eftir hringinn héldu þeir félagar inn í klúbbhúsið til að fagna og þar fékk hann símtal þar sem honum var tilkynnt að hann hefði hlotið starf sem hann hafði sótt um. Á einum sólarhring hafði hann því landað nýju starfi, farið holu í höggi, grætt rúma hálfa milljón króna og síðast en ekki síst, gengið í hjónaband með draumadísinni.