Zinedine Zidane skallar Ítalann Marco Materazzi í úrslitaleiknum í Berlín á sunnudaginn. Atvikið hefur skyggt talsvert á umræðuna um heimsmeistaratitil Ítala. Zidane var útnefndur besti leikmaður keppninnar.
Zinedine Zidane skallar Ítalann Marco Materazzi í úrslitaleiknum í Berlín á sunnudaginn. Atvikið hefur skyggt talsvert á umræðuna um heimsmeistaratitil Ítala. Zidane var útnefndur besti leikmaður keppninnar. — Reuters
ZINEDINE Zidane var í gær útnefndur besti leikmaður heimsmeistarakeppninnar af blaðamönnum og hlýtur því gullknöttinn eftirsótta.

ZINEDINE Zidane var í gær útnefndur besti leikmaður heimsmeistarakeppninnar af blaðamönnum og hlýtur því gullknöttinn eftirsótta. Það er FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið sem stóð fyrir valinu en íþróttafréttamenn, sem voru við vinnu á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi, greiddu atkvæði. Útnefningin kemur kannski einhverjum í opna skjöldu eftir að Zidane var vísað af leikvelli í úrslitaleiknum fyrir að skalla Marco Materazzi, en það skýrist einna helst af því að atkvæðum var skilað inn í leikhléi í úrslitaleik Frakklands og Ítalíu. Zidane hlaut 2.012 stig í fyrsta sætið en næstur á eftir honum var fyrirliði heimsmeistaranna, Fabio Cannavaro, með 1.977 stig. Þriðji í kjörinu var Ítalinn Andrea Pirlo með 715 stig.

Fréttamaður BBC , Gordon Farquhar, sagði að Zidane hefði ekki orðið efstur hefðu atkvæði verið greidd eftir leikinn. "Þetta er dálítið neyðarlegt fyrir FIFA. Leikmaður sem er rekinn út af í úrslitaleiknum fyrir óásættanlegt brot er valinn leikmaður keppninnar. Ástæðan að Zidane hafi verið valinn er tilfinningalegs eðlis. Allir vissu að þetta yrði hans síðasti leikur á ferlinum, en flestir urðu agndofa yfir því sem hann gerði," sagði Farquhar.

Zidane er nú kominn á stall með leikmönnum á borð við Oliver Kahn, sem vann gullknöttinn 2002, Ronaldo (1998), Romario (1994), Salvatore Schillaci (1990) og Diego Maradona (1986). Aðrir leikmenn sem hlutu tilnefningu voru Þjóðverjarnir Michael Ballack og Miroslav Klose, Ítalirnir Gianluigi Buffon, Gianluca Zambrotta, Frakkarnir Thierry Henry og Patrick Vieira og Nuno Maniche frá Portúgal.

Miroslav Klose varð markahæsti leikmaður keppninnar með fimm mörk, Buffon var valinn besti markvörður keppninnar, Lukas Podolski frá Þýskalandi var valinn efnilegasti leikmaðurinn og Portúgal var valið skemmtilegasta liðið.