Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is "ÞETTA er tímamótadómur fyrir íslenskt atvinnulíf," segir Halldór Jónasson, fulltrúi hjá Trésmiðafélagi Reykjavíkur, en Félagsdómur komst í dómi sínum sl.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

"ÞETTA er tímamótadómur fyrir íslenskt atvinnulíf," segir Halldór Jónasson, fulltrúi hjá Trésmiðafélagi Reykjavíkur, en Félagsdómur komst í dómi sínum sl. föstudag í máli Trésmiðafélagsins gegn Sóleyjarbyggð ehf. að þeirri niðurstöðu að hið íslenska fyrirtæki bæri ábyrgð á því að tryggja að erlendum starfsmönnum sem hingað kæmu til að vinna væru greidd laun í samræmi við lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein.

Í málinu var upplýst að litháskir starfsmenn sem komu hingað til lands á vegum tveggja litháskra fyrirtækja til að vinna fyrir Sóleyjarbyggð ehf. við húsbyggingar fengu greiddar rúmar 20 þúsund krónur í laun á mánuði. Dómurinn tekur fram að ekki beri að líta á dagpeninga eða aðrar greiðslur vegna útlagðs kostnaðar sem laun.

Í niðurstöðu dómsins er tekið fram að þar sem Sóleyjarbyggð ehf. hafi ekki gert neitt til að tryggja hinum lithásku starfsmönnum launakjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum hafi fyrirtækið brotið alvarlega gegn þeim skyldum sem á því hvíli samkvæmt samkomulagi því sem aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og SA, gerðu með sér í mars 2004 um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.

Mikilvægur áfangi í því að treysta stöðu íslenskra kjarasamninga

Ingvar Sverrisson, hdl. og lögfræðingur hjá ASÍ, segir nýfallinn dóm vera mjög mikilvægan áfanga hvað það varðar að treysta og styrkja stöðu íslenskra kjarasamninga í ljósi alþjóðavæðingar. Að mati Ingvars hefur dómurinn jákvæð áhrif fyrir ASÍ í væntanlegum viðræðum sambandsins við hið opinbera í þá veru að í útboðsskilmála verði sett mjög skýr og afdráttarlaus ákvæði um ábyrgð þeirra sem fá úthlutað verkum hjá opinberum aðilum. Leggur Ingvar áherslu á að þetta atriði sé ekki síður mikilvægt fyrir fyrirtækin í landinu og tryggi samkeppnisstöðu þeirra, því lykilatriði sé að öll fyrirtæki sitji við sama borð og að ekki sé verið að undirbjóða verk á grundvelli launa sem samræmist ekki íslenskum kjarasamningum.

Hissa á því hvað dómurinn gengur langt í túlkun samkomulagsins

Að mati Hrafnhildar Stefánsdóttur, yfirlögfræðings SA, er fremur óljóst hvað felst nákvæmlega í niðurstöðu dómsins. Segir hún að sér komi á óvart hvað dómurinn gangi langt í túlkun sinni á fyrrgreindu samkomulagi ASÍ og SA. "Við höfum áður sagt að notendafyrirtæki hljóti að bera ábyrgð ef það sé augljóst að endurgjald þeirra til leigufyrirtækja nægi ekki fyrir launagreiðslum. En þessi dómur gengur hins vegar lengra, þar sem hann túlkar útlendingasamkomulagið með nýjum hætti, á þann veg að það leggi beinar skyldur á herðar notendafyrirtækinu að gera ráðstafanir til að tryggja hinum erlendu starfsmönnum launakjör samkvæmt kjarasamningi."