* BJÖRN Margeirsson, úr FH , varð í 3. sæti í 800 m hlaupi á Gautaborgarleikunum um helgina. Hann hljóp á 1.50,76 mín., sem er 28/100 úr sekúndu frá hans besta á þessu ári. Sigurbjörn Árni Arngrímsson , HSÞ, bætti sinn besta árangur í 800 m hlaupi þegar hann hljóp á 1.52,16 mín., og varð í 8. sæti.
* SIGURBJÖRN Árni varð í 6. sæti í 1.500 m hlaupi karla á 3.53,12 mín. sem er hans besti tími á árinu. Björgvin Víkingsson varð 20. í 400 m hlaupi karla, á 49,93 sek., Ragnar Frosti Frostason varð 22. á 49,97 sek., og Bergur Hallgrímsson í 27. á 50,71.
* BJÖRGVIN varð í 4. sæti í 400 m grindahlaupi og hljóp á sínum ársbesta tíma 52,95 sek., en hlaupið vannst á 51,44.
* EINAR Daði Lárusson, úr ÍR, stórbætti vikugamalt Íslandsmet sitt í 300 m grindahlaupi (84 cm) þegar hann hljóp á 38,84 sek., en gamla metið var 39,03 sek. Einar Daði hafði nokkra yfirburði í hlaupinu en annar hlaupari í mark hljóp á 39,41 sek.
* EINAR Daði varð 2. í 110 m grindahlaupi í sínum aldursflokki (15-16 ára) á Gautaborgarleikunum. Hann hljóp á 14,57 sek., og bætti sinn fyrri árangur um 9/100 úr sekúndu. Einar Daði hafnaði í 3. sæti í 400 m hlaupi, hljóp á 49,99 sek., og bætti sig úr 51,34 sek. Sveinametið í 400 m hlaupi er í eigu Sveins Elíasar Elíassonar og er 49,96 sek., þannig að það er skammt undan. Einar Daði varð síðan í 9. sæti í 100 m hlaupi og hljóp á 11,50 sek en hann á best 11,37 sek.
*SVEINN Elías Elíasson , úr Fjölni , sigraði í 400 m hlaupi og bætti hann sig, hljóp á 48,66 sek., og bætti um leið met í flokki drengja 17-18 ára. Þetta var einnig nýtt leikamet á Gautaborgarleikunum og bætti hann fyrra metið um 2/100. Sveinn Elías varð síðan í 2. sæti í 100 m hlaupi á 11,01 sek sem er bæting um 5/100. Þá hljóp hann 200 m á 22,26 sekúndum í undanrásum og á 22,49 í úrslitum og varð fjórði.
* ÁSDÍS Hjálmsdóttir , Ármanni , varð 4. í kringlukasti fullorðinna, kastaði 46,80 m sem er hennar besti árangur á þessu ári. Hún hafði fyrr á mótinu unnið öruggan sigur í spjótkasti með 52,10 m. Nokkrum dögum fyrr hafnaði Ásdís í 4. sæti í spjótkasti á Árósarleikunum , kastaði þá 54,66 sem besti árangur Íslandsmethafans á þessu ári.