Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtist athyglisverð úttekt Kára Gylfasonar á högum pólskra innflytjenda á Íslandi.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtist athyglisverð úttekt Kára Gylfasonar á högum pólskra innflytjenda á Íslandi. Þar vekur fyrst athygli sú staðreynd, hversu fjölmennir pólskir innflytjendur eru orðnir hér á landi, en þeir hafa undanfarin ár verið langstærsti hópur erlendra borgara hér. Þeir voru á síðasta ári 3.629 talsins, sem er vel rúmlega eitt prósent af íbúum landsins. Það er hópur, sem víðast hvar þætti sjálfsagt og eðlilegt er að taka tillit til við opinbera stefnumótun, t.d. í menntamálum.

Jafnframt gerir þessi mikli fjöldi Pólverja hér á landi að verkum að íslenzk stjórnvöld hljóta að gefa samskiptum sínum við Pólland, sem hafa ekki verið mjög mikil á hinu pólitíska eða diplómatíska sviði, meiri gaum en verið hefur. Ef yfir 3.000 Íslendingar byggju í öðru landi, hvað þá ef þeir væru orðnir meira en eitt prósent af íbúafjöldanum, þætti okkur væntanlega sjálfsagt að þess sæi stað í samskiptum okkar við viðkomandi ríki.

Pólverjar eru stærsti og grónasti hópur innflytjenda á Íslandi. Engu að síður kemur fram í greininni að þrátt fyrir að vera upp til hópa vel menntaðir, starfa pólskir innflytjendur upp til hópa við láglaunastörf í frumframleiðslu og færast sjaldnast í störf sem krefjast meiri menntunar, jafnvel þótt þeir hafi búið hér lengi. Greinarhöfundur rekur þetta til þess að tungumálaörðugleikar leiði til einangrunar innflytjenda og komi í veg fyrir að menntun þeirra og reynsla nýtist til fulls. Hann vitnar m.a. í athuganir Unnar Dísar Skaptadóttur mannfræðings, sem hefur bent á að innflytjendur umgangist sjaldan Íslendinga á vinnustað, og eigi jafnframt erfitt með að læra íslenzku utan vinnutíma vegna lítillar íslenzkukennslu fyrir útlendinga.

Morgunblaðið hefur margoft bent á að gera verði átak í íslenzkukennslu fyrir útlendinga, eigi ekki að búa hér til stórkostleg vandamál, sem nágrannaríki okkar hafa glímt við árum saman en við eigum að geta forðazt, ef við lærum af reynslu þeirra. Annars vegar þarf að efla mjög íslenzkukennslu fyrir fullorðna, sem flytjast hingað frá öðrum löndum, bæta bæði gæði og framboð slíkrar kennslu og aðstoða innflytjendur við að greiða fyrir hana. Hins vegar þarf að bæta verulega stuðning við börn innflytjenda í skólakerfinu og hjálpa þeim til að læra íslenzku. Ein forsenda þess að það megi takast er að þessi börn njóti kennslu í eigin móðurmáli, en góð tök á móðurmálinu eru nauðsynleg, vilji fólk læra önnur mál.

Eins og Kári Gylfason bendir á í grein sinni er hættan sú, að innflytjendur myndi einangraða undirstétt, eins og gerzt hefur víða í nágrannaríkjunum. "Á Íslandi eru innflytjendur víða einangraðir innan samfélagsins og of lítið virðist gert til að fólk nái að verða hluti af því og njóta tækifæra til jafns við aðra," skrifar Kári.

Nógar vísbendingar eru að verða til um að við eigum á hættu að feta sömu braut og lönd, þar sem fjölgun innflytjenda hefur getið af sér ýmis vandamál. Við höfum hins vegar enn tækifæri til að læra af mistökum annarra. Við munum áfram þurfa á fólki frá öðrum ríkjum að halda til að styrkja íslenzkt efnahagslíf og til að auðga samfélag okkar á ýmsan hátt. Við eigum að hætta að líta á innflytjendur sem tímabundið vinnuafl og snúa okkur að því að aðstoða þá við að laga sig að íslenzku samfélagi.