Heiðar Þórarinn Jóhannsson fæddist á Akureyri 15. maí 1954. Hann lést af slysförum sunnudaginn 2. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jóhann Guðmundsson, f. 13. maí 1917, d. 14. mars 1993 og Freyja Jónsdóttir, f. 17. september 1923, d. 15. júní 1999. Eftirlifandi bræður Heiðars eru, Jón Dan, kvæntur Ruth Hansen og eiga þau þrjú börn, Rúnar Hafberg, kvæntur Jónheiði Kristjándóttur og eiga þau þrjú börn og Guðmundur, kvæntur Evu Ingólfsdóttur og eiga þau fjögur börn. Einnig eignuðust Freyja og Jóhann eina dóttur sem dó á fyrsta ári.
Heiðar var ókvæntur og barnlaus.
Hann lærði ketil- og plötusmíði í fjölskyldufyrirtækinu Sandblæstri og málmhúðun. Á yngri árum var Heiðar til sjós mestan hluta sem kokkur enda var eldamennska ein af hans ástríðum. Árið 1988 kom Heiðar aftur til starfa hjá Sandblæstri og starfaði þar sem verkstjóri til dauðadags. Heiðar var virkur meðlimur í Bifhjólasamtökum lýðveldisins Sniglum og einn af stofnendum samtakanna, enda var Heiðar af mörgum talinn vera mesti mótorhjólamaður Íslands.
Útför Heiðars verður gerð frá Glerárkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Sjónvarpað verður á sama tíma frá athöfninni í Bústaðakirkju.
Það er merkilegt hvað lífið tekur miklum breytingum við fráfall bróður, það fara af stað endalausar hugsanir um hvað hefði getað komið í veg fyrir hörmulegt bifhjólaslys sem Heiddi lenti í, hvernig gat það gerst að hann missti vald á því ökutæki sem hann kunni best á. Heiddi er í minningunni sá sem var óttalaus, ótrúlega klár og snjall bifhjólamaður en samt einn sá farsælasti þó hann hafi stundum fengið byltur og skrámur. Fyrsta minning mín frá hjólaævintýrum Heidda er þegar hann reiddi mig próflaus á kvenhondu og löggan elti okkur. Ég varð verulega hræddur þegar hann öskraði á mig að stökkva af hjólinu og hlaupa, ýmsar formælingar fylgdu þeirri skipun og hét ég því biðja hann ekki aftur um far. Það var með ólíkindum hvað Heiddi var bóngóður, alltaf var hann að gera eitthvað fyrir aðra. Þegar ég hugsa um það þá man ég að pabbi og mamma ólu okkur svona upp, mamma sagði alltaf, það kostar ekkert að segja já, þú færð tíma fyrir þig síðar. Okkur Heidda kom alltaf vel saman, þó stundum fyndist mér hann alltof fljótur að æsa sig út af smáatriðum, en það var líka búið með það sama.
Fáir voru eins glettnir og orðatiltækin oft á tíðum drepfyndin og komu á réttum augnablikum. Elsku Heiddi, hvert á ég nú að leita eftir ráðleggingum, hvernig á ég að kaupa hjól á Florida fyrst ég get ekki ráðfært mig við þig. Ég get líka sagt að ég syrgi þig og sakna svo mikið að í hvert sinn sem ég hugsa um þig kemur kökkur í hálsinn og tárin brjótast fram.
Lífið verður samt að halda áfram og ég reyni að telja mér trú um það að þú hafir dáið sáttur, hvíl í friði, elsku bróðir.
Kveðja
Guðmundur.
Heiddi frændi - það var alltaf töfraljómi yfir nafninu þínu, líklega vegna þess að óvissuferðir í bæinn þegar þú varst píndur til að taka mig með voru alltaf með furðulegum uppákomum, og smá slagsmálum okkar á milli, en ég fékk samt að vera með, tveimur árum yngri en þú og miklu frekari, eða það sagðir þú a.m.k. Ég mun sakna uppátækja þinna og núna verður enginn sem stoppar umferðina á Laugaveginum bara til að heilsa upp á frænku sína, eins og þú gerðir þegar þú varst á ferð um bæinn með félögunum. Ferðir þínar í eldhúsið mitt til að töfra fram ótrúlega góða rétti úr engu, því að á námsárunum mínum var ekki mikið til í skápnum, og þú í hláturskasti yfir spíruðum kartöflum og mygluðum osti. Ég alltaf jafnfljót þegar þú kallaðir á mig í matinn og gat ekki séð hvað þú þurftir að röfla yfir tómum ísskáp þegar þú gast eldað eitthvað úr engu.
Elsku Heiddi, þú varst ekki bara góður maður heldur lífskúnstner sem áttir engan þinn líkan og heimurinn er fátækari þegar þú ert farinn, en ég veit að þar sem að þú ert núna færðu að geyma öll hjólin þín í stofunni og bruna um á uppáhalds mótorhjólinu þínu að eilífu.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Bræðrum Heiðars og þeirra fjölskyldum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Freygerður Dana Kristjánsdóttir.
Kæri frændi, það var eins og tíminn stoppaði er ég frétti um lát þitt.
Oft heldur maður að við séum viðbúin því versta en svo er ekki, kannski sem betur fer. Að skrifa nokkur orð um þig er ekki það léttasta sem ég geri.
Nú mundir þú segja; blessaður, láttu það þá vera. Þú varst búinn að koma til mín og sýna mér myndir af skútu sem þú varst að kaupa og segja mér frá draumum þínum að fara í heimsreisu á henni. Frásagnargleði þín var mikil og alltaf var stutt í það jákvæða og skemmtilega í lífinu.
Og gaman var að heyra þig segja frá, mikið var hlegið af sögunum þínum sem flestar voru góðlátlegt grín að sjálfum þér og samferðamönnum þínum.
Á ættarmótum myndaðist oft hringur í kringum þig til að hlusta á þig þegar frásagnargleði þín komst á flug.
Ég kveð þig, frændi minn, með söknuði og rifja upp sögur um þig. Ég og fjölskylda mín sendum bræðrum þínum og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur
Heimir Jóhannsson.
Elsku Heiðar, kallið kom löngu áður en við vorum tilbúin að kveðja þig. Þegar pabbi hringdi á sunnudaginn með þessar hræðilegu fréttir, stoppaði tíminn. Minningarnar streyma fram, í kringum þig var alltaf taumlaus gleði, stutt í hláturinn og grínið.
Mínar fyrstu minningar um þig eru úr Eyrarveginum, þá var nú ekki ónýtt að fá að skreppa á rúntinn með stóra frænda. Ég man sérstaklega einu sinni að þú hljópst inn til að ná í spólu með réttu lögunum, flýtirinn var heldur mikill eins og oft hjá þér, kallinn minn, og bíllinn gleymdist í R, hann fór að mjakast afturábak og ég öskraði svo hátt að þú heyrðir það inn, hrikalega var ég hrædd. Seinna þegar ég var unglingur þá naut ég nú aldeilis góðs af því að vera frænka þín, það var svo auðvelt að kynna sig, þá var nú oft gripið til þess að segja, Heiddi er frændi minn og þá voru allir vegir færir. Nú síðustu 20 árin kynntust svo stelpurnar mínar því sama. Enginn frændi var betri og flottari en Heiddi. Alltaf til í að fíflast og leika, örlátur á gjafir og umhyggju. Ósjaldan skoppuðu jólapakkarnir frá þér eða framleiddu ótrúleg hljóð og vöktu ýmist kátínu eða skelfingu. Og ekki minnkaði ástin á þér eftir að þú eignaðist Rögg, og þegar við fengum að passa hana þá var lífið nú fullkomnað að mati Karenar, mikið held ég að hún sakni þín.
Að lokum langar mig bara að segja við þig, takk fyrir að vera eins og þú varst, enginn leikaraskapur eða tilgerð. Stundirnar hefðu alveg mátt vera fleiri en manni eins og þér sem á þúsundir vina þarf að deila. Nú verður ekki af heimsókninni í Huldugilið til okkar Rúnars, þú varst að gera grín í vor þegar hretið kom að ekki gætuð þið Axel hjólað til okkar þar sem snjóa hefði ekki leyst í efri byggð.
Við vitum að margir eiga um sárt að binda núna og vottum öllu samferðafólki þínu, bræðrunum og fjölskyldum, og einnig öllum vinunum samúð okkar. Hvíl í friði, elsku Heiddi, og við hittumst aftur, við vitum að amma Freyja og afi Jói passa þig.
Rannveig, Rúnar, Dana Ruth og Karen Ruth.
Mér er minnisstætt þegar við fórum til Ísafjarðar í fyrra, og á leiðinni Akureyri-Ísafjörður komum við við í Reykjavík að ná í hjólið sem þú síðan kvaddir okkur á. Þú geislaðir af ánægju eins og lítill krakki, æsingurinn var svo mikill að túrinn varð ævintýri líkast. Mikið hlógum við að því að þú gleymdir að loka bakpokanum í Bjarkarlundi og við Stebbi tíndum upp fötin þín af veginum alla leið. En svona varstu, aldrei lognmolla í kringum þig.
Ég kveð þig með trega, en get yljað mér við gríðarlegt magn góðra minninga. Þú sagðir við mig þegar ég byrjaði með Sallý minni, haltu fast, Jói, þetta er góð kona. Eins og venjulega hafðir þú rétt fyrir þér og ég kæmist ekki í gegn um þetta án hennar og barnanna. Ég veit að hvar sem þú ert, þá ertu örugglega orðinn aðaltöffarinn þar, og farinn að redda öllum. Hvíl í friði, elsku vinur, ég kem seinna og hjóla með þér aftur.
Þinn vinur og frændi,
Jóhann Freyr.
Við eigum margar góðar minningar um Heidda frænda, hann var alltaf flotti bróðir hans pabba sem var öðruvísi en allir aðrir frændur.
Í mörg ár komu jólin ekki almennilega til okkar fyrr en Heiddi var kominn, oftast alltof seinn, með blautt hárið og óbundið bindi, ef hann var þá með bindi. Hann var nefnilega ekki mikið fyrir að vera í því sem maður kallar hefðbundin jólaföt, enda aðaltöffarinn. Hann kom skellandi inn um útidyrnar, bretti upp ermar og fór að laga sósuna með jólasteikinni. Hann byrjaði á því að skella einhverjum grunni í pott, gramsaði svo í ísskápnum og fann eitthvað sem enginn hefði trúað að mætti nota í ljúffenga sósu. Nokkrum mínútum síðar var komin þessi líka dýrindis sósa sem engin uppskrift er að og ekki er hægt að gera eins aftur, ný "uppskrift" á hverjum jólum. Eftir jólamatinn settist Heiddi svo með okkur inn í stofu þar sem við krakkarnir rifum hvern pakkann upp af öðrum. Í einhverjum pökkum lumuðust svo flottar Sniglapeysur á hvert okkar sem við vorum alltaf jafn glöð að fá.
Gjafirnar frá Heidda hittu alltaf í mark hjá okkur krökkunum, hann var nefnilega frændinn sem gaf okkur það sem pabbi og mamma vildu helst sleppa við að gefa okkur, leikföng með hljóðum. Jóhann fékk t.d. eitt sinn glæsilegt rafmagnsmótorhjól sem keyrði um og gaf frá sér allskyns óhljóð og Freyja fékk loðinn apa sem hristist og urraði við snertingu. Alltaf stuð og hlátur í kringum Heidda. Margir í fjölskyldunni hafa líka verið svo heppnir að fá gripi sem hann hefur hannað og sérsmíðað handa hverjum og einum. Þetta eru ómetanlegir hlutir sem munu fylgja okkur alla tíð.
Heiddi var gull af manni sem sagði aldrei nei við neinn, hann var oft seinn en sagði samt aldrei nei. Á einu ættarmóti sem við fórum á í Ólafsfirði var Heiddi í hlutverki barnapíunnar þar sem hann fór hvern hringinn á fætur öðrum á mótorhjólinu með krakkana á svæðinu sem höfðu raðað sér í langa röð til að komast í smá bunu, röðin virtist endalaus því að eftir hverja bunu fóru krakkarnir aftur í röðina og Heiddi fór fleiri hringi. Þetta lýsti honum vel.
Nafnið hans kom líka einhvern veginn alltaf upp í hugann þegar þurfti að smíða eitthvað eða hanna. Hann hafði ótal hugmyndir og alltaf einhverja nýja sýn á málin sem virtust láta allt ganga betur upp. Hann mætti t.d. alltaf í veislur tilbúinn að fara í eldhúsið og redda málunum. Humarsúpan í fermingunni hans Jóhanns er umtöluð og fólk hafði aldrei fengið betri sósu en í brúðkaupinu hennar Huldu, í báðum þessum veislum stóð Heiddi vaktina með uppbrettar ermar og sleif í hendi og þáði bara klapp á bakið fyrir.
Heiddi var ótrúlega vinamargur og allir virtust þekkja hann og maður varð eiginlega hissa ef fólk kveikti ekki á perunni hver hann var. Hann var búinn að gera ótalmargt í lífinu og hefur sennilega lifað meira en margur annar. Við getum öll tekið hann til fyrirmyndar og notið þess að vera til, notið þess að gera það sem er okkur hugleikið og verið sannir vinir. Lifum fyrir daginn í dag.
Elsku pabbi og mamma, Jón Dan og Ruth, Rúnar og Heiða, þið hafið misst mikið og eigið eftir að sakna bróður ykkar og mágs en munið hvernig hann lifði og fagnið því. Nú er hann kominn til ömmu og afa og passar okkur öll með þeim. Guð veiti okkur öllum sem sakna hans styrk til að njóta lífsins.
Saknaðarkveðja,
Hulda Sigríður, Freyja Dan, Jóhann og Ágúst.
"Er ekki allt í lagi að láta eins og hálfvitar?" Þetta heyrði ég þig oft segja og þú stóðst alltaf við þau orð, engin lognmolla í kringum þig.
Ég hef þekkt þig í kringum 20 ár og kveð þig nú, elsku vinur.
Um helgina fyrir Landsmót Snigla hringdirðu í mig og spurðir hvort ég vildi koma að hjóla, þú skyldir lána mér Buelinn þinn, þetta var síðasta ferðin okkar, bara við tveir saman að þeysa um göturnar í kringum Akureyri.
Þú varst mér stærsti styrkurinn í AA-ferðinni minni, við fórum saman á miðnætur AA-fund á laugardagskvöldum og fórum svo saman út á lífið að kíkja á kerlingar eins og við sögðum.
Við ætluðum að fara að sigla skútu um næstu helgina eftir Landsmót frá Dalvík en sú ferð verður að bíða, þetta var ein dellan sem ég fékk að njóta með Heidda, alltaf þegar maður kíkti til hans varð hann að sýna manni skútu sem hann var búinn að finna á netinu.
Það væri hægt að skrifa heila bók um þig og þín uppátæki, ég vona að ég eigi eftir að sjá þig aftur, þá kannski förum við þessa skútuferð um eilífðina.
Ég sendi allri fjölskyldu Heiðars mínar dýpstu samúðarkveðjur. Megi Guð blessa þig, elsku vinur.
Þinn vinur,
Gunnlaugur Hólm Sigurðsson
(Gulli frá Dalvík).
Síðan þú fórst í þessa óvæntu ferð til annarra heima hef ég setið eftir skilningssljór og minningarbrotin um samferð okkar hrannast upp, mér finnst þú vera hér enn, ég heyri þig tala, hlæja, segja sögur með þinni einstöku frásagnargleði og hæfileika til að skemmta fólki og láta því líða vel í návist þinni. Þegar við kynntumst þóttu mótorhjólamenn furðufuglar og eiginlega bara villimenn en þú, mesti mótorhjólamaður Íslands, afsannaðir þá kenningu því að betri maður en þú er vandfundinn.
Einlægni þín var fölskvalaus, börn hændust að þér jafnt og fullorðnir. Við hefðum átt að fara að halda upp á 35 ára hjólaafmæli okkar um þessar mundir en í stað þess reyni ég af veikum mætti að tjá þér hversu vænt mér þótti um vinskap okkar. Ég fæ upp í hugann þegar þú hjálpaðir mér að komast í prófið á Akureyri og lánaðir mér BSA hjólið þitt. Þú vissir að Valdi Búri á Húsavík neitaði að taka mig í próf, því honum var illa við mótorhjól og sagðir, Síi minn, komdu bara til Akureyrar, við reddum þessu.
Þú varst alltaf að kaupa ný hjól. Oft komstu með þau til mín og sagðir; þú verður að fara hring á þessu og prófa, þú komst með nýja Z1000 Kawann 78 til mín og sagðist ætla á Þjóðhátíð til Eyja og spurðir hvort ég vildi ekki koma með nýja hjólið þitt, þannig að þú gætir sýnt vinunum í Eyjum nýjasta og stærsta hjólið á landinu. Þú sagðist ekki vilja láta einhver ruglhænsni vera á hjólinu.
Við vorum saman þegar þú sóttir nýja Hallann 11. júlí 03 og við biðum spenntir eftir að heyra sándið, þá sagðir þú; ans... þetta verð ég að laga strax, það verður að vera almennilegt sánd, ég læt ekki sjá mig svona. Seinni árin áttir þú þitt herbergi heima hjá okkur Sillu.
Ég ætla að enda með þér mótorhjólaaksturinn 11. júlí þar sem við byrjuðum 16 og 17 ára. Þú varst einstakt ljúfmenni, heiðarlegur, skemmtilegur listasmiður og kokkur, takk fyrir að hafa verið vinur, ég bý að því um ókomin ár. Við Silla kveðjum þig með miklum trega og vottum fjölskyldu þinni og vinum okkar innilegustu samúð. Hvíl í friði,
Sigurjón.
Ég kynntist Heiðari fyrir nærri tveimur árum og finnst erfitt að sjá á eftir þessum vini mínum svona snemma. Það er óréttlátt og hrikalega sorglegt að maður sem naut svo lífsins og lét drauma sína rætast sé svo skyndilega kippt í burtu. Það var margt spennandi fram undan sem hann hafði unnið fyrir og hlakkaði svo til t.d. í sambandi við mótorhjólasafnið og skútuna. Það var svo gaman síðasta sumar hjá okkur bæði fyrir norðan og austan. Það er alveg pottþétt að það eru fáir í heiminum eins góðir og hjartahreinir og Heiðar var, dugnaður hans og jákvæðni voru líka meiri en gengur og gerist. Að eiga svona kæran trúnaðarvin var dýrmætt, ég á eftir að sakna löngu símtalanna og þess að hitta hann aldrei aftur. Elsku besti vinur minn, við Ísak varðveitum allar góðu minningarnar og vottum fjölskyldu þinni og vinum samúð okkar.
Auður Mjöll Friðgeirsdóttir.