VALENTINO
VALENTINO
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is RÓMANTÍKIN er yfirleitt ofar raunsæinu í glæsilegum sköpunarverkunum sem hönnuðir opinbera á hátískuviku.
Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is

RÓMANTÍKIN er yfirleitt ofar raunsæinu í glæsilegum sköpunarverkunum sem hönnuðir opinbera á hátískuviku. Í þrjá daga í lok síðustu viku var París undirlögð hátísku en hönnuðir kynntu komandi haust- og vetrartísku.

Rautt telst rómantískur litur og verður liturinn áberandi í kjólatísku í vetur en úrvalið af rauðum kjólum var gott í nýafstöðnum sýningum. Bæði var um að ræða ljósari rauða liti en dumbrauður hafði þó vinninginn og mátti líka sjá flæðandi fjólurauða síðkjóla. Kjólarnir eru margir mjög klæðilegir en hönnuðir á borð við John Galliano hjá Christian Dior taka sér meira skáldaleyfi.

Hátískan hefur verið á undanhaldi því flíkurnar eru dýrar en í ákveðnum hópum lifir hún góðu lífi. Hún hefur langt frá því runnið sitt skeið, að sögn Didiers Grumbach, forseta Hátískusamtakanna í París, að því að fram kemur í viðtali við AFP-fréttastofuna. Hann segir að hátíska veiti þeim tískuhúsum sem taki þátt í henni samkeppnisforskot. Hátískan skerpi ímynd merkjanna og sé mikilvæg hvað varðar sölu á fylgihlutum og ilmvötnum.

"Hún verður að vera stórbrotin, hún verður að vera öðruvísi, hún þarf að gefa almenningi eitthvað til að dreyma um. Ef tilfinningin er ekki staðar virkar þetta ekki."