Ástamál Aniston og Vaughn eru mörgum hugleikin, hvort sem er á hvíta tjaldinu eða í raunveruleikanum.
Ástamál Aniston og Vaughn eru mörgum hugleikin, hvort sem er á hvíta tjaldinu eða í raunveruleikanum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ er kvikmyndin The Break Up sem situr í efsta sæti íslenska aðsóknarlistans þessa vikuna.

ÞAÐ er kvikmyndin The Break Up sem situr í efsta sæti íslenska aðsóknarlistans þessa vikuna. Kvikmyndin er eins og allir vita með þeim Jennifer Aniston og Vince Vaughn í aðalhlutverkum en fréttir af ástarsambandi þeirra utan kvikmyndaversins hafa vakið mikla athygli, framleiðendum myndarinnar til mikillar gleði eflaust. Christof Wehmeier hjá Sambíóunum sem dreifir myndinni hér á landi segir að kvikmyndin sé vel heppnuð rómantísk gamanmynd sem sýni sig í því að um sjö þúsund Íslendingar hafi þegar skellt sér á myndina frá því að hún var frumsýnd á miðvikudaginn í síðustu viku.

Í öðru sæti er að finna grínmyndina Click með Adam Sandler í aðalhlutverki. Í myndinni kemst persóna Sandlers að því að fjarstýringin hans býr yfir yfirnáttúrulegum eiginleikum sem í fyrstu virðist ætla að auðvelda honum lífið til muna. Rúmlega sex þúsund manns fóru á Click um helgina en í það heila nálgast aðsóknin sextán þúsund manns.

Disney/Pixar myndin Cars er að finna í þriðja sæti. Þessi nýjasta tölvuteiknimynd hefur verið vinsæl á meðal fjölskyldufólks en þá þykir íslenska talsetningin vera stórgóð, yngstu bíógestunum til mikillar gleði.

Í fjórða sæti er að finna nýja mynd inn á listann, Benchwarmers með þeim David Spade, Rob Schneider og John Heder. Eins og kom fram í dómi Heiðu Jóhannsdóttur í Morgunblaðinu eru þeir félagar við sama heygarðshornið og oft áður og er víst að aðdáendur Robs Schneider og félaga hans verði ekki fyrir vonbrigðum. Um 1.700 manns fóru á kvikmyndina um helgina.

Aðrar myndir á listanum falla um tvö sæti utan The Omen sem skýst upp um sjö sæti og fer úr því 16. í það 9. og svo er það unglingamyndin She's the Man sem stendur í stað.