"MÉR sýnist að þeir séu betri en við og möguleikar okkar liggja því helst í að ná hagstæðum úrslitum hér og vinna þá í síðari leiknum heima," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Íslandsmeistara FH um möguleika liðsins gegn eistneska liðinu TVMK...

"MÉR sýnist að þeir séu betri en við og möguleikar okkar liggja því helst í að ná hagstæðum úrslitum hér og vinna þá í síðari leiknum heima," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Íslandsmeistara FH um möguleika liðsins gegn eistneska liðinu TVMK frá Tallinn. Leikurinn er í 1. umferð forkeppni meistaradeildarinnar og fer fram í Tallinn í dag og hefst klukkan 18 að staðartíma eða 21 að íslenskum.

"Heimir [Guðjónsson] fór út og skoðaði liðið í leik hérna um daginn. Þeir spila sama kerfi og við, eru vel spilandi og með mjög gott lið. Þeir eru búnir að spila um tíu leiki í deildinni þannig að þeir eru á svipuðu róli og við.

Möguleikar okkar liggja fyrst og fremst í heimaleiknum þannig að við komum til með að verjast vel og markmiðið er fyrst og fremst að halda hreinu hérna og taka þá svo þegar þeir koma heim," sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið í gær er hann var á leið með liðið á æfingu á vellinum þar sem leikið verður. "Það eru allir í fínu standi hjá mér en það er mjög heitt hérna þannig að það gæti sett strik í reikninginn hjá okkur."