Zinedine Zidane, lengst til hægri, var niðurlútur þegar hann kom ásamt samherjum sínum til móttöku forseta Frakklands í Elysee-höll í gær. Hér er hann ásamt Franck Ribery og Raymond Domenech landsliðsþjálfara.
Zinedine Zidane, lengst til hægri, var niðurlútur þegar hann kom ásamt samherjum sínum til móttöku forseta Frakklands í Elysee-höll í gær. Hér er hann ásamt Franck Ribery og Raymond Domenech landsliðsþjálfara. — Reuters
FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, neitar því að stuðst hafi verið við myndbandsupptökur þegar Zinedine Zidane var vikið af leikvelli í úrslitaleik heimsmeistaramótsins á sunnudaginn.

FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, neitar því að stuðst hafi verið við myndbandsupptökur þegar Zinedine Zidane var vikið af leikvelli í úrslitaleik heimsmeistaramótsins á sunnudaginn. Zidane skallaði Materazzi í brjóstið að undangengnum einhverjum orðaskiptum þeirra í milli en boltinn var víðs fjarri þegar atvikið átti sér stað. Ekkert hefur verið staðfest um hvað þeim Zidane og Materazzi fór í milli áður en hinn fyrrnefndi missti stjórn á skapi sínu.

Horacio Elizondo, dómari leiksins frá Argentínu, sá ekki atvikið en Raymond Domenech, þjálfari Frakklands, fullyrðir að fjórði dómari leiksins hafi látið Elizondo vita eftir að hafa séð myndbandsupptöku af atvikinu. Forráðamenn FIFA þvertaka fyrir þetta og segja að fjórði dómarinn hafi séð atvikið og látið dómarann vita. Vissulega sé fimmti dómari leiksins með sjónvarpsskjá á meðan leik stendur en hann hefur ekki leyfi til að grípa inn í leikinn og hefur fjórði dómarinn ekki aðgang að honum.

"Það var alls ekki notast við myndbandsupptöku. Ég hef ráðfært mig við yfirmann dómaramála og hann sagði mér skýrt og skorinort að fjórði dómari leiksins hefði séð atvikið og ráðlagt dómaranum í gegnum fjarskiptabúnaðinn. Svo virðist sem dómarinn hafi beðið eftir að fá málin á hreint áður en hann framkvæmdi enda var nokkur hiti í mönnum," sagði Andreas Herren, talsmaður Alþjóða knattspyrnusambandsins, í gær en Elizondo tók sér tíma til þess að að kveða upp dóminn.

Uppnefndi Zidane hryðjuverkamann

Enn hefur ekkert verið gefið út hvað fór á milli Zidane og Materazzi áður en atvikið átti sér stað. Upptökur sýna að Materazzi hafi klipið Zidane í geirvörtuna og síðan hafi þeir átt einhver orðaskipti. Bresku blöðin Guardian og Mirror segist hafa heimildir fyrir því að Materazzi hafi kallað Zidane "arabískan hryðjuverkamann," og því hafi Zidane brugðist svo hart við, en hann rekur uppruna sinn frá Alsír. Franskar heimildir greina hins vegar frá því að Materazzi hafi haft uppi niðrandi ummæli um móður Zidane. Umboðsmaður Zidane sagði í gær að Materazzi hafi sagt eitthvað "alvarlegt" en Zidane hafi ekki viljað ræða atvikið en það yrði gert ljóst í næstu viku.

William Gallas, varnarmaður franska liðsins, var brjálaður út í Marco Materazzi fyrir hans þátt í atvikinu. "Þegar ég sá þetta langaði mig til að kýla hann í andlitið. Stundum eru leikmenn klókir og segja hluti sem gera mann það reiðan að maður langar til að drepa þá," sagði Gallas.

Frank Lebouf, sem lék með Frökkum þegar þeir urðu heimsmeistarar 1998, sagði að það hljóti að vera að Materazzi hafi sagt eitthvað ósæmilegt við Zidane en það réttlæti hins vegar ekki viðbrögð hans.

"Það skiptir engu hvað hann sagði. Ég skammast mín því þetta er ekki eitthvað sem menn eiga að gera á knattspyrnuvellinum," sagði Lebouf.

Zidane bað félaga sína afsökunar

Franski varnarmaðurinn Jean-Alain Boumsong segir að Zidane hafi beðið samherja sína afsökunar eftir leikinn. "Auðvitað gerði hann það. Hann var mjög vonsvikinn yfir brotinu," sagði Boumsong en hvorki Zidane né Materazzi hafa tjáð sig um atvikið opinberlega. Zidane flaug ekki með franska landsliðinu frá Þýskalandi í gær en mætti þó ásamt samherjum sínum í mótttöku hjá Jacques Chirac, forseta Frakklands, í Elysee-höll í gær. Þar jós Chirac lofi yfir Zidane en minntist ekki á brottreskurinn í úrslitaleiknum.