Framtíð Þjórsárvera hefur verið til umræðu.
Framtíð Þjórsárvera hefur verið til umræðu.
Þjórsárver upphaflega friðlýst árið 1981 Þjórsárver voru friðlýst árið 1981 og var friðlýsingin kynnt með auglýsingu menntamálaráðuneytisins. Í auglýsingunni segir m.a.

Þjórsárver upphaflega friðlýst árið 1981

Þjórsárver voru friðlýst árið 1981 og var friðlýsingin kynnt með auglýsingu menntamálaráðuneytisins. Í auglýsingunni segir m.a. að Náttúrverndarráð muni veita Landsvirkjun undanþágu frá friðlýsingunni til að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 metra hæð "enda verði kappkostað að halda umhverfisáhrifum mannvirkja í lágmarki".

Eftir Árna Helgason

arnihelgason@mbl.is

Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hefur verið til umræðu að undanförnu og hefur nýr umhverfisráðherra meðal annars lýst því yfir að vilji hennar standi til að stækka friðlandið.

En hver eru áhrif þess að friðlandið í Þjórsárverum yrði stækkað? Myndi það eitt og sér nægja til þess að fella áform um Norðlingaölduveitu út af borðinu?

Trúlega ekki. Með lögum frá 2003 var Landsvirkjun veitt heimild, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra, til að reisa og reka Norðlingaölduveitu í samræmi við úrskurð Jóns Kristjánssonar og stendur sú lagaheimild enn. Úrskurður Jóns er enn í gildi, en með dómi héraðsdóms var kveðið á um að set- og miðlunarlón utan friðlandsins samkvæmt úrskurðinum þurfi að fara í umhverfismat.

Forsætisráðherra og iðnaðarráðherra veittu Landsvirkjun í september 2004 leyfi til að reisa og reka Norðlingaölduveitu með skilyrðum sem sett eru í úrskurði Jóns.

Núgildandi ákvæði um friðlýsingu Þjórsárvera gera ráð fyrir Norðlingaölduveitu með allt að 581 metra lónshæð en í úrskurði Jóns er gert ráð fyrir að lón verði 575 metra yfir sjávarmáli.

Friðlýsing landsvæða er að jafnaði ákveðin af stjórnvöldum en ákvarðanir stjórnvalda eru réttlægri en lög frá Alþingi og víkja ef efni þeirra er ekki samræmanlegt. Því yrði að öllum líkindum að koma til lagasetning á þingi, þar sem heimild til Norðlingaölduveitu yrði afturkölluð, standi vilji á annað borð til þess að slá framkvæmdina alfarið út af borðinu með formlegum hætti. Friðlýsingin ein og sér myndi ekki duga til.

Undirbúningur hjá UST

Umhverfisstofnun sér um undirbúning að friðlýsingu landssvæða, samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Árni Bragason, forstöðumaður náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar (UST), segir að stofnunin vinni í flestum tilfellum undirbúningsvinnu að friðlýsingu en einnig geti komið til að umhverfisráðuneytið sjái um undirbúning eins og nú standi yfir í sambandi við Vatnajökulsþjóðgarð. Hann segir að megináhersla hjá stofnuninni sé á þau 14 svæði sem Alþingi samþykkti í náttúruverndaráætlun. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum er ekki þar á meðal.

"Það hefur ekki borist formleg beiðni frá ráðuneytinu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum," segir Árni en bendir á að stækkun friðlandsins hafi verið meðal þeirra 75 svæða sem Umhverfisstofnun lagði fram í náttúruverndaráætlun.

Hann segir að friðlýsing sé í raun reglugerð sem ráðherra setur. Í tilviki Þjórsárvera sé gert ráð fyrir Norðlingaölduveitu samkvæmt núverandi friðlýsingu. Eins og fram hefur komið er lagaheimild fyrir því að farið verði í gerð Norðlingaölduveitu og segir Árni að rekist slíkar heimildir á, þ.e. annars vegar reglugerð sem feli í sér friðlýsingu og hins vegar lagaheimild til að fara í virkjunarframkvæmdir á sama svæði, standi lagaheimildin. Því þurfi í raun að koma til ný lög frá Alþingi sem afturkalli heimild til að fara í gerð Norðlingaölduveitu.

"Ný lög eða lagabreyting eru forsenda þess að hætt verði við Norðlingaölduveitu," segir Árni.

Þarf framkvæmdaleyfi

Þótt lagaheimild til að fara í gerð Norðlingaölduveitu sé fyrir hendi dugir hún ekki ein og sér. Útgáfa framkvæmdaleyfis af hálfu sveitarfélags er einnig tilskilin og vegna Norðlingaölduveitu þyrfti slíkt leyfi að koma frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Forsenda þess að slíkt leyfi sé veitt er að framkvæmdin sé komin inn á aðalskipulag en afgreiðslu aðalskipulags á þessu svæði var hins vegar frestað á sínum tíma og að sögn Gunnars Arnar Marteinssonar, oddvita hreppsnefndar, hefur engin ákvörðun verið tekin um hvenær gengið verði frá afgreiðslu skipulagsins.

Gunnar segir erfitt að segja til um hvort pólitískur meirihluti sé fyrir framkvæmdinni. Önnur mál séu meira aðkallandi í sveitarfélaginu um þessar mundir. Auk Gunnars situr Ingvar Hjálmarsson í hreppsnefnd fyrir A-lista og segir Gunnar að listinn hafi ekki lagst gegn framkvæmdinni á sínum tíma. L-listinn hafi hins vegar andmælt áformunum en flokkurinn á nú tvo menn í hreppsnefnd og mynda A-listi og L-listi meirihluta í hreppsnefnd.

Segist Gunnar reikna með að L-listinn yrði mótfallinn framkvæmdinni en ekki liggi þó fyrir hvenær málið komi til afgreiðslu hreppsnefndar.

Samvinnunefnd miðhálendisins sér um að samræma skipulag á hálendinu. Óskar Bergsson, formaður nefndarinnar, segir að af hálfu nefndarinnar sé málið í biðstöðu en það verði tekið upp ef eftir því verði óskað.