Gunnhildur Fjóla Eiríksdóttir fæddist á Stafnesi 3. júní 1919. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 26. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sveinbjörg Ormsdóttir, f. 23. október 1889, d. 3. júní 1990, og Eiríkur Jónsson, f. 31. janúar 1884, d. 22. ágúst 1940. Systkini Fjólu eru: Vilborg, f. 23. desember 1912, d. 28. maí 2003, Sóley, f. 10. júní 1914, d. 26. janúar 1915, Jónína Sóley, f. 9. júlí 1915, d. 12. maí 1920, Júlíus, f. 1. júlí 1916, d. 16. október 2003, Jón f. 28. febrúar 1921, d. 22. mars 1988, Sveinbjörn, f. 25. ágúst 1923, Eiríkur, f. 8. nóvember 1925, Sigrún Lilja, f. 28. desember 1927, d. 24. mars 2006, Sigurður, f. 8. september 1929, Hildur, f. 25. janúar 1932, og Reynir, f. 13. janúar 1935.

Fjóla giftist 22. maí 1943 Haraldi Ágústssyni, f. í Árnhúsum á Skógarströnd 3. október 1910, d. 25. október 1988. Foreldrar hans voru Ágúst Líndal Pétursson, f. 1. mars 1888, d. 20. júlí 1984, og Sólveig Jónasdóttir, f. 1. desember 1867, d. 26. desember 1958. Fjóla og Haraldur eignuðust sjö börn. Þau eru: 1) Hreinn Líndal, f. 28. febrúar 1937. 2) Eiríka Dagbjört, f. 20. mars 1944, gift Steinþóri Eyþórssyni, f. 6. ágúst 1948, d. 26. október 2003. Börn þeirra eru: a) Margrét Líndal, gift Mogens Mogensen, börn Steinþór og Helena, b) Þórarinn Líndal, kvæntur Rut Magnúsdóttur, sonur Magnús, og c) Eiríkur Líndal. 3) Aldís Sjöfn, f. 15. febrúar 1946. Dætur hennar og Jóns Guðmundssonar, fyrrverandi eiginmanns hennar, eru: a) Fjóla Vilborg, maki Hrafn Hauksson, dætur Aldís og Hrafnhildur, og b) Svanbjörg Helena, unnusti Einar Ingvarsson. 4) Sólveig Hafdís, f. 3. febrúar 1949, gift Arnbirni Óskarssyni f. 10. janúar 1950. Börn þeirra eru: a) Haraldur Líndal, sambýliskona Þóra Brynjarsdóttir, börn þeirra eru Gunnhildur, Arnbjörn og Sóldís, b) Bryndís Líndal, gift Gunnari Róbertssyni, dætur þeirra eru Hafdís og Nadía, og c) Gunnhildur Líndal, f. 12. nóvember 1980, d. 26. febrúar 1998. 5) Sveinbjörg Gunnhildur, f. 7. júní 1950. Dóttir hennar er Elínrós Líndal, maki Steinþór Gunnarsson, synir þeirra eru Alexander, Gunnar og Arnaldur. 6) Haraldur Líndal, f. 17. ágúst 1952, kvæntur Ólöfu Thorlacius, f. 3. júní 1958. Börn þeirra eru: a) Ragnheiður Dögg, sonur hennar er Oliver, b) Haraldur Líndal, og c) Arnar. 7) Ágúst Líndal, f. 8. apríl 1957, sambýliskona Valgerður Sigurjónsdóttir, f. 23. janúar 1973, börn þeirra eru Andri og Gunnhildur. Börn Ágústs og Eddu Olgeirsdóttur eru: a) Olgeir Líndal, sambýliskona Rut Einarsdóttir, börn þeirra eru Ísak, Dagur og Birgitta, b) Hreinn Líndal, c) Ágúst Líndal, sonur hans er Ágúst, og d) Aron Líndal.

Þegar Fjóla var á fjórða aldursári fluttust foreldrar hennar frá Stafnesi að Skuld í Sandgerði. Þaðan flutti fjölskyldan að Hólum á Miðnesi, en þar hafði fjölskyldan byggt sér íbúðarhús. Húsið á Hólum brann árið 1937. Fjölskyldan fluttist í Norðurkot, en þar bjó Fjóla þar til hún 16 ára fór að heiman til Keflavíkur. Þar kynntist hún Haraldi Ágústssyni, en þau giftu sig 1943. Þau hófu búskap árið 1936 á Hafnargötu 41 í Keflavík, en fluttu á Framnesveg 16 árið 1946 og bjuggu þar síðan. Árið 1990 flutti Fjóla á Kirkjuveg 1 og bjó þar til æviloka.

Útför Fjólu verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma og tengdamamma, þá er lífi þínu hér á jörðu lokið, og það ekki þrautalaust, með öll þín veikindi.

Okkur langar til að skrifa nokkrar línur til þín, elsku mamma, við gætum skrifað margar blaðsíður til þín, en við geymum þær minningar í hjarta okkar. Við vitum að það hefur verið tekið vel á móti þér, af pabba, Gunnhildi okkar og Steina, ásamt fleirum úr okkar fjölskyldu sem fallnir eru frá.

Elsku mamma, takk fyrir allt það sem þú ert búin að gera fyrir okkur, þakka þér fyrir að vera til staðar fyrir okkur þegar Gunnhildur okkar lést, fyrir faðminn þinn sem alltaf stóð opinn og allar bænir þínar.

Já, þú varst svo sannarlega stóri kletturinn í okkar erfiðleikum og lífi okkar. Þín verður sárt saknað af okkur, börnum okkar og litlu ömmu- og afabörnunum okkar. Elsku mamma, takk enn og aftur fyrir að vera til fyrir okkur.

Okkur langar að enda kveðju okkar til þín, með þessu fallega lagi sem var flutt við útför Gunnhildar okkar.

Í sóleyjarbreiðu

á síðdegi heiðu

nú sit ég við hliðina á þér

og hendinni minni

þú heldur í þinni

vertu mamma, hjá mér.

Er vindurinn þýtur

er veturinn bítur

ef vegurinn holóttur er

skal mamma þig leiða

og leið þína greiða

já, þá er mamma hjá þér.

Spinna örlög minn óskavef

út hann breiðir sig

von mín rætist þó aðeins ef

ég á þig og þú átt mig

Ef heimurinn kaldur

þér gelur sinn galdur

og grá virðist tilveran hér

ég hendinni þinni

skal halda í minni

þá vil ég vera hjá þér.

(Karl Ágúst Úlfsson.)

Við biðjum guð að styrkja öll börnin þín, barnabörn, barnabarnabörn og tengdabörn.

Guð geymi þig að eilífu, elsku mamma og tengdamamma, kær kveðja,

Sólveig og Arnbjörn.

Mig langar til að minnast tengdamóður minnar Fjólu Eiríksdóttur.

Það er skrýtin tilhugsun að þú skulir vera farin frá okkur. Þú sem varst höfuð fjölskyldunnar, tengiliður, sem sást til þess að börn, barnabörn og barnabarnabörn hittust. Ég minnist oft þeirra stunda þegar þið hjónin og þú eftir fráfall tengdaföður míns komuð í heimsókn til Ísafjarðar þau tíu ár sem við bjuggum þar. Þær stundir sem við tvær áttum saman eru mér ómetanlegar. Þar sem við sátum, spjölluðum saman og prjónuðum. Þú sagðir mér frá uppvaxtarárum þínum og þinni miklu lífsreynslu. Alltaf varst þú boðin og búin til að hjálpa. Það var mér sérstaklega mikils virði þegar Arnar fæddist og þú komst vestur og varst hjá okkur eins og á hverju ári í rúman mánuð. Þinn stuðningur og aðstoð var mér meira virði en orð fá lýst. Þú varst manneskja sem hafðir skoðanir og vildir hafa fyrirhyggju í öllum þeim málum sem huga þurfti að. Þú hafðir göfugt hjarta, sem ekkert aumt mátti sjá. Til marks um það er sá stóri vinahópur sem þú átt, bæði þér tengdur og ótengdur. Mörgum úr þeim hópi þótt gott að leita til þín með sín innstu mál. Þú varst alltaf tilbúin til að hlusta og benda á hvað betur mætti fara og hvað væri til ráða. Þú komst þínum sjónarmiðum á framfæri á hlutlausan og sannfærandi hátt. Þeir eru ófáir sem leituðu til þín í sorg sinni og þá sérstaklega eftir ástvinamissi. Trú þín var mikil, sem þú fórst vel með. Þú hlustaðir og varst tilbúin til að ræða trú þína við þá sem vildu hlusta og taka þátt í umræðunni.

Fjóla mín, ég vil þakka þér fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og þinn mikla stuðning.

Þín tengdadóttir,

Ólöf.

Nú er hún elskulega amma farin á æðra tilverustig. Það var lítið annað en lífsviljinn sem hélt henni gangandi þessi síðustu ár, því líkaminn var löngu búinn. En í honum bjó ung og falleg sál sem skein svo einlægt og skært að hún blindaði okkur af þeirri staðreynd að stutt var í endalok hennar hér. ,,Ég er ekkert að fara að deyja," var það síðasta sem hún sagði við okkur Söbbu frænku fimm dögum áður en hún kvaddi þennan heim. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég veit til að amma hafi orðið uppvís að því að segja ekki satt. En það versta sem hún vissi var þegar ungunum hennar leið illa og þar sem ég og Sabba vorum á leiðinni til Parísar og Sabba hafði brostið í grát við að sjá elsku ömmu svona veika voru þetta þau huggunarorð sem hún vissi að við vildum mest af öllu heyra.

Amma Fjóla eins og hún var vanalega kölluð var heitt elskuð. Segja má að hún hafi gefið tóninn í fjölskyldunni, því við bárum mikla og djúpa virðingu fyrir henni og fórum eftir því sem hún sagði. Hún elskaði okkur öll á óeigingjarnan og skilyrðislausan hátt og var klettur í lífi þeirra sem áttu um sárt að binda. En hún var ekki einungis vel gerð, heldur einnig vel gefin kona. Hún aðlagaðist fljótt öllum þeim tækninýjungum sem urðu á hennar tíma, en hélt fast í góð og gömul gildi. Hún fylgdist vel með stjórnmálum landsins og hafði ákveðnar skoðanir á flestu því sem á vegi hennar varð. Hún talaði hispurslaust og síður en svo undir rós og við veltumst oft um af hlátri þegar hún lét skoðanir sínar í ljós á mjög svo beinskeyttan hátt. Þrátt fyrir þetta var hún alltaf ljúf og góð.

Samkennd sú sem ömmu var gefin í vöggugjöf gerði henni kleift að verða mikilvægur þáttur í lífi allra sinna afkomenda. Hún grét með okkur, elskaði okkur, samgladdist okkur og deildi með okkur vonum og draumum. Ömmu sakna ég sárt, því missirinn er mikill. Hún var mér bæði amma og mamma og síðast en ekki síst minn besti vinur. Það var ekkert sem ég ekki gat rætt við ömmu, hún var einlægur og góður hlustandi, þagði yfir leyndarmálum og gaf góð ráð. Mér finnst ég hafa notið mikillar blessunar að hafa átt hana að og þrátt fyrir að ég sakni hennar sárt og finnist ég standa berskjaldaðri en fyrr í þessum heimi, þá samgleðst ég henni af öllu hjarta að geta nú loksins flogið um í fangi afa; laus við allar þær kvalir og þjáningar sem hún þurfti að þola vegna veikinda sinna í þessu lífi.

Guð geymi þig elsku amma.

Elínrós Líndal.

Fjólu Eiríksdóttur kynntist ég fyrir u.þ.b. þremur árum, þegar móðir mín og hún deildu stofu í tvígang á HSS. Fljótt sá ég, þó svo að kynnin væru stutt, að þarna fór mikil dama, ættmóðir stórrar fjölskyldu, kona sem kærleikur geislaði frá hvar sem hún kom. Það var auðséð að hún naut virðingar, var elskuð og dáð, um það báru símtöl og heimsóknir til hennar fagurt vitni. Við mæðgur fórum ekki varhluta af hjartagæsku Fjólu. Hún deildi með okkur sigrum og ósigrum og gerði sigra okkar að sínum þó sjálf væri hún oft sárþjáð.

Á sjúkrastofunni myndaðist vinkvennabandalag. Þar var spjallað um allt mögulegt. Fjóla gerði mig líka að sínum gesti í daglegum heimsóknum mínum til móður minnar. Hún fagnaði mér og mínum þegar við komum, með elskusemi og vináttu. Þegar sorgin knúði dyra hjá mér á síðasta ári hafði þessi sómakona ekki gleymt mér. Hún sendi mér yndislega kveðju sem mun lengi ylja mér um hjartaræturnar. Við mæðgur töluðum oft um að við þyrftum að heimsækja Fjólu, en aldrei varð úr því. Enn einu sinni erum við minnt á hve augnablikið er ofurstutt og hve mikilvægt það er að slá ekki góðum hugmyndum á frest því það er ekki víst að okkur verði gefið tækifæri til að framkvæma þær síðar. Hún Fjóla hefur hlotið góða heimkomu þar sem gengnir ástvinir hafa fagnað henni með Gunnhildi dótturdóttur hennar fremsta í flokki. Sú sýn gefur lífinu eilífðargildi.

Ég kveð þessa heiðursdömu með söknuði og bið Guð að leiða hana til ljóssins. Ástvinum hennar öllum og ættmennum votta ég mína dýpstu samúð.

Rósa Sigurðardóttir.

Elsku amma. Þú varst einstök kona. Þú lifðir í nútímanum en um leið stóðstu fyrir þau gömlu gildi sem allir ættu að hafa hugföst, virðuleika, væntumþykju, dugnað, ósérhlífni, hlýhug og trúrækni. Það er ógleymanlegt þegar þú sagðir okkur sögur af uppvaxtarárum þínum og hvernig nútíminn, sem þú hafðir svo sterkar skoðanir á, kallaðist á við fortíðina í frásögnum þínum.

Það einhvern veginn svo eðlilegt að margir hafi leitað skjóls í hlýju þinni, sérstaklega þegar erfiðleikar steðjuðu að. Þú varst alltaf eins og klettur í hafinu og gafst hlutunum nýja vídd. Þú reyndir að skilja án þess að dæma. Allir voru jafnir fyrir þér.

Nú þegar við höfum aðeins minningar til að ylja okkur við og söknuðurinn grípur um sig veit ég að þú munt vaka yfir okkur, blessa og varðveita börnin þín, barnabörnin og barnabarnabörnin.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Þú verður alltaf með okkur.

Guð geymi þig.

Ragnheiður, Haraldur,

Arnar og Óliver Dagur.

Elsku yndislega amma mín. Þótt þú sért nýorðin 87 ára sem kallast mikill aldur finnst mér ótrúlegt að sitja hér og skrifa til þín kveðjuorð. Þó ég vissi innst inni að einhvern tímann kæmi að kveðjustund fannst mér einhvern veginn eins og þú myndir alltaf vera hjá okkur, þú bara gætir ekki farið. Þú hefur verið svo mikill klettur, höfðingi fjölskyldunnar sem alltaf hafðir réttu svörin við öllu, áttir alltaf nóg að gefa til annarra og fannst ekki mikið mál að hjálpa öðrum þó þú værir sjálf búin að þjást mikið í mörg ár. Það var svo skrýtið að þó líkami þinn minnkaði með árunum eins og gengur og gerist varðst þú alltaf stærri og stærri því persóna þín er svo stór og mikilfengleg. Það var alltaf svo gott að koma til þín og hjá þér ríkti alltaf svo mikil ró og friður. Og þó maður væri nýbúinn að borða var ekki möguleiki að sleppa án þess að fá sér eitthvað. Borðin hjá þér kiknuðu alltaf undan kræsingunum.

Elsku amma mín, þú gerðir svo mikið fyrir mig og gafst mér svo mikið í gegnum árin að ég get aldrei þakkað þér nóg. Það verður skrýtið að fara næst erlendis og geta ekki hringt í þig til að fara með bænina okkar en ég veit að þegar ég fer með hana sjálf þá ert þú hjá mér og ég veit að við förum með hana saman. Nú segi ég bara eins og þú sagðir alltaf, eigum við að fara með bænina okkar:

Fagra nafnið frelsarans

fylgi þér og hlífi.

Ávallt vaka augu hans

yfir þínu lífi.

Elsku amma mín, nú hefur þú örugglega þegar hitt afa, Gunnhildi, pabba, Borgu, Sigrúnu og alla hina og ég er viss um að það hafa verið miklir og góðir endurfundir. Ég bið algóðan guð að vernda þig og passa fyrir okkur og hjálpa þér til að líða vel þar sem þú ert núna, því ég veit að þú munt halda áfram að hugsa um að hjálpa öðrum.

Þín að eilífu,

Margrét.