Í kirkjugarðinum á Ísafirði er kvæði á legsteini Kristrúnar V. Kristjánsdóttur sem fæddist 5. ágúst 1865 og lést 5. febrúar 1938. Fyrirmyndarmanneskja þess tíma?
Hér er gengin hljóð til moldar
hæglát kona, er mikið vann.
Dygg í starfi, styrk í lundu
stóð í skuld við engan mann.
Falslaus vinum, frændum öllum
fús að hjálpa í hverri raun.
Óstudd gekk, en aðra styrkti
urðu það hennar verkalaun.
Rúnar Kristjánsson vill svo vekja athygli á að ekki sé það sem verst að verða "(h)eldri borgari."
Hann yrkir svo um efri árin (-bestu árin?) og varpar ljósi á það sem þau eldri hafa fram yfir yngri:
Þegar efri árin hefjast
eftir margan krappan dans,
minninganna myndir vefjast
mörgum hjá í geislakrans.
Þá fær margt í skini að skarta,
skilning eykur hugarþel.
Þá mun lifa þökk í hjarta
þeirra til sem reyndust vel.
pebl@mbl.is