Jarðgöng - Ábending til sjónvarpsins FRÁ því að maður fór að heyra fullorðna menn ræða um jarðgöng til Vestmannaeyja hefur mér fundist það vera brandari.

Jarðgöng - Ábending til sjónvarpsins

FRÁ því að maður fór að heyra fullorðna menn ræða um jarðgöng til Vestmannaeyja hefur mér fundist það vera brandari.

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí var í sjónvarpsfréttum rætt við fólk á götu í Vestmannaeyjum og virtist mikil trú á að jarðgöng til lands væru á næsta leiti, bara ef menn kysu rétt. Nýlega var í blöðum greint frá áframhaldandi undirbúningi að gerð ganganna og þótt þeir aðilar, sem að því standa, telji kostnaðinn nokkrum tugum þúsunda milljóna lægri en einhverjir svartsýnir íslenskir verkfræðingar hef ég ekki séð útreikninga þeirra á hvað mundi kosta fyrir fjölskylduna að skjótast á bílnum á milli lands og Eyja.

Eftir að hafa séð ítarlegan fræðsluþátt BBC-sjónvarpsins um gerð Ermarsundsganganna og síðar annan þátt sem fjallaði um rekstrarerfiðleika fyrirtækisins hef ég oft hugsað um, að mikil þörf sé á að upplýsa Íslendinga um hve umfangsmikið og flókið verkefni gerð og rekstur slíks mannvirkis er og því tel ég mjög æskilegt að sjónvarp allra landsmanna fái þessa tvo þætti til sýningar.

Þegar fólk hefur séð þá er ég viss um að enginn efast um, að besti kosturinn í samgöngumálum Vestmannaeyinga er ferjuhöfn í Bakkafjöru.

Hins vegar eru jarðgöng upp á Kjalarnes, sem hluti af Sundabraut, með allri sinni umferð, allt annað og hagkvæmara verkefni.

Óskar Jóhannsson,

Skúlagötu 40a, Rvík.

Staðið við loforðin

NÝI borgarstjórnarmeirihlutinn gaf það til kynna, eða tilkynnti, að hann ætlaði að láta þrífa betur í borginni. Það hefur verið staðið við það og má sjá víða merki um það.

Ég geng á hverjum morgni niður í Fossvog og á bílastæðum sem eru austan við brúna, sem er yfir í Nauthólsvík, þar eru stæðin hrein og vel þrifin og ánægjulegt að sjá það. Með fram Fossvogslæknum, þegar maður gengur í austurátt, er mikið fuglalíf og margir sem leggja leið sína með fram læknum. Þar var fullt af rusli, m.a. gömul reiðhjóladekk, nú er búið að þrífa það allt.

Ég vil koma á framfæri þakklæti fyrir þessar hreinsunaraðgerðir og gaman að sjá hversu þrifalegt er orðið og mikið búið að slá.

Það hafa aukist mikið hjólreiðar hjá fólki, það kemur í hópum, 15-20 manns, og það er ekkert pláss fyrir það á hjólreiðabrautinni því hún er svo mjó og mjög óþægilegt fyrir fólk sem er á gangbrautinni þegar svona hópur kemur aftan að því á mikilli ferð. Ég vil vegna þess koma því á framfæri að það er nauðsynlegt að breikka hjólreiðastígana.

190923-4799.