"FORELDRAR bera ábyrgð á börnum sínum til átján ára aldurs, þannig að hvort sem börnin eru að fara þarna með leyfi eða í leyfisleysi er þáttur foreldra nokkuð stór," segir Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð, en undanfarnar tvær helgar bar töluvert á eftirlitslausum og ölvuðum unglingum á fjölskylduhátíðunum Færeyskir dagar og Írskir dagar. Hann segir þörf á vitundarvakningu í samfélaginu.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu náði aldur drukkinna ungmenna allt niður í fjórtán ár og segir Tómas Guðmundsson, einn skipuleggjenda Írskra daga á Akranesi, dæmi um unglinga sem stolist hafi út til að skemmta sér. Meirihlutinn hafi hins vegar verið á aldrinum 15 til 17 ára, sem hafi farið í útilegu með leyfi foreldra sinna og stóra spurningin eftir helgina sé því hvar ábyrgð foreldranna liggi. "Vandamálið er náttúrlega sú staðreynd að samfélaginu í heild sinni virðist þykja í lagi að fimmtán, sextán ára krakkar fari með leyfi foreldra sinna hingað og þangað um landið og drekki áfengi í tvo til þrjá sólarhringa."
Tómas segir að ungmennin hafi upp til hópa hegðað sér vel en þó verði farið yfir þátt þeirra í hátíðinni og hvernig brugðist verði við að ári liðnu. Hins vegar eru aðstandendur ánægðir með hátíðina í heild sinni þar sem fjöldi fólks naut fjölskylduvænnar dagskrár. Talið er að ríflega þrjú þúsund manns hafi verið á Írskum dögum.