Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarna daga um vistaskipti enska knattspyrnumannsins Davids Beckhams sem mun á næstunni yfirgefa eitt nafnkunnasta félag heims, Real Madrid, og ganga í raðir félags sem fáir hafa líklega heyrt nefnt áður, LA Galaxy í...

Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarna daga um vistaskipti enska knattspyrnumannsins Davids Beckhams sem mun á næstunni yfirgefa eitt nafnkunnasta félag heims, Real Madrid, og ganga í raðir félags sem fáir hafa líklega heyrt nefnt áður, LA Galaxy í henni Ameríku.

Beckham hefur undanfarinn áratug verið stöðug uppspretta vangaveltna skríbenta, dægurmenningarfrömuða ekkert síður en sparkskýrenda. Hann hefur mun víðari skírskotun í samfélaginu en nokkur knattspyrnumaður á undan honum.

Það er einmitt sú staðreynd sem gerir för hans til Bandaríkjanna áhugaverða. Vitaskuld kemst Beckham ekki með tærnar þar sem Pelé, Beckenbauer og Cruyff höfðu hælana á sparkvellinum en öllum mistókst þessum mönnum að snúa Kananum til sparkelsku – en hann er margfalt frægari. Raunar ögrar enginn knattspyrnumaður, hvorki lífs né liðinn, honum hvað það varðar. Beckham er fyrsti sparkandinn sem lifir lífi kvikmyndastjörnu – með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja. Það fór ekkert á milli mála þegar spúsa hans, Victoria, kom vestur um helgina.

Það má liggja Beckham á hálsi fyrir metnaðarleysi í sparklegum skilningi, hann hefur nú yfirgefið stóra sviðið. Á móti kemur að það er verðug áskorun að gera tilraun til að draga Bandaríkjamenn á völlinn. Ekki síst á þessu stigi ferilsins, þegar máttur er í rénun. Hvort það tekst skal ósagt látið en ef einhver hefur burði til að ná þessu markmiði er það einmitt David Beckham.

Engin hætta er þó á því að kappinn líði upp þrítugan hamarinn. Hann þarf m.a. að glíma við helsta fjanda knattspyrnunnar vestra – sjónvarpið. Eðlis leiksins vegna hafa skjábændur þar um slóðir ímugust á honum, það er ekki hægt að koma að auglýsingum á tíu mínútna fresti. Fyrir heimsmeistaramótið í Bandaríkjunum 1994 stungu sjónvarpsfrömuðir meira að segja upp á því í fullri alvöru að leiknum yrði skipt upp í fjóra leikhluta með góðu hléi milli hvers og eins. Er þessum mönnum við bjargandi?