Öflugt Nýtt snjóruðningstæki flugvallarþjónustudeildarinnar á Keflavíkurflugvelli var tekið í notkun við athöfn sem fram fór í gær.
Öflugt Nýtt snjóruðningstæki flugvallarþjónustudeildarinnar á Keflavíkurflugvelli var tekið í notkun við athöfn sem fram fór í gær. — Ljósmynd/Víkurfréttir
Keflavíkurflugvöllur | Meðalaldur snjóruðningstækjanna á Keflavíkurflugvelli lækkaði í gær þegar Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar tók í notkun glænýtt tæki. Er þetta fyrsta tækið sem Flugmálastjórn kaupir fyrir nýstofnaða flugvallarþjónustudeild.

Keflavíkurflugvöllur | Meðalaldur snjóruðningstækjanna á Keflavíkurflugvelli lækkaði í gær þegar Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar tók í notkun glænýtt tæki. Er þetta fyrsta tækið sem Flugmálastjórn kaupir fyrir nýstofnaða flugvallarþjónustudeild.

Flugvallarþjónustudeildin sem annast meðal annars snjóruðning og hálkuvarnir á flugvellinum starfrækir 35 sérhæfð tæki. Meðalaldur þeirra er 22 ár. Elsta tækið verður fimmtíu ára á þessu ári og það er af Oskos-gerð, eins og nýja tækið.

Hluti sameykis

Nýja tækið er búið 470 hestafla vél, er fjórhjóladrifið með stýringu á öllum hjólum og íssköfu undir því miðju, auk tengibúnaðar fyrir plógtönn og vélsóp. Kostaði sjálft tækið tæpar 25 milljónir kr., með virðisaukaskatti, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli. Með plógtönn að framan og vélsóp í eftirdragi myndar tækið svonefnt sameyki sem í heild kostar um 55 milljónir kr. Sameyki gerir fernt í senn, skefur, sópar og blæs.

Þótt sum tækjanna séu orðin gömul hefur þeim verið haldið vel við og nokkur nýrri tæki eru í hópnum. Með sex sameykjum er unnt að hreinsa 3,3 kílómetra langa flugbraut 40 metra á breidd á fimmtán mínútum.

Deildin hefur einnig yfir að ráða snjóblásurum, hjólaskóflum og dreifurum fyrir sand og afísingarvökva. Öll tækin, fyrir utan það nýja, voru tekin á leigu af Bandaríkjaflota þegar varnarliðið fór af landinu. Fram kemur í fréttatilkynningu Flugmálastjórnar að endurnýja þurfi að minnsta kosti 80% tækjabúnaðarins á allra næstu árum.