Steingrímur Jónsson fæddist á Akureyri 13. júlí 1929. Hann lést á heimili sínu 4. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Steingrímsson lögfræðingur og sýslumaður, f .14.3. 1900, d. 22.7. 1960, og Karitas Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 20.12. 1899, d. 22.9. 1982. Systur Steingríms eru: Benta Margrét Jónsdóttir, f. 6.5. 1925, gift Valgarð Briem, f. 31.1. 1925, Guðný Jónsdóttir Brainard f. 12.2. 1927, gift William Schrader, f. 24.2. 1930 og Kristín Sólveig Jónsdóttir, f. 21.5. 1933, gift Ólafi Erni Arnarsyni,, f. 27.7. 1933.

Steingrímur kvæntist 6.2. 1960 Ingu Birnu Jónsdóttur, f. 17.9. 1934, þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Jón, f. 15.9. 1960, sambýliskona Guðrún Ólafsdóttir, f. 12.5. 1967. Börn þeirra eru Hjördís, f. 31.8. 1993, Steingrímur Karl, f. 2.10. 1997 og Ólafur Steinn, f. 2.1. 2003. 2) Skorri, f. 29.8. 1962. Dóttir hans og fyrrverandi sambýliskonu, Guðlaugar Maríu Sigurðardóttur, f. 11.11. 1965, er Eik, f. 10.2. 1987.

Steingrímur kvæntist 18.9. 1970 Molly Clark Jonsson, f. 28.3. 1932.

Steingrímur ólst upp í Stykkishólmi til níu ára aldurs en fluttist þá í Borgarnes þar sem hann eyddi æskuárunum. Hann stundaði ýmis störf á sínum yngri árum, þ. á .m. við þungavinnuvélar. Árið 1959 lauk hann prófi í flugvirkjun í Bandaríkjunum og öðlaðist full réttindi árið 1962. Flugvirkjun varð svo hans ævistarf og vann hann fyrir ýmsa flugrekstraraðila en þó lengst af hjá Flugleiðum, eða þar til hann hætti störfum 1996.

Útför Steingríms verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveð ég tengdaföður minn, Steingrím Jónsson, flugvirkja og hagleiksmann. Ég vil þakka honum samfylgdina í gegnum árin og allar þær ánægjulegu samverustundir sem við höfum átt. Fráfall hans var óvænt og við munum sakna hans.

Minningarnar eru margar. Má þar nefna heimsóknir hans og Mollýar til okkar í Svíþjóð og Noregi og kalla þær fram margar myndir í hugann. Þau að leiða Hjördísi litlu á leið í leikskólann í Lundi, öll brosandi og stolt hvert af öðru. Steingrímur úti að smyrja og stilla hjólin okkar eða inni að hjálpa börnunum að föndra eða gera við dótið þeirra. Jólin sem hann lagði á sig ferðalag til okkar í Förde en þá var Mollý í heimsreisu. Þangað kom líka Chuck frændi og áttum við ánægjuleg jól og áramót saman. Ekki má gleyma öllum sendingunum til okkar á meðan við bjuggum erlendis. Harðfiskur, dót fyrir börnin og vandlega upprúlluð Morgunblöð sem hann sendi mér nær mánaðarlega. Allt sent með hlýju og umhyggju. Samskipti okkar eftir að við fluttumst aftur til Íslands héldu áfram að einkennast af velvild og hjálpsemi.

Hann og Mollý ræktuðu afa- og ömmuhlutverkið vel, vildu allt fyrir barnabörnin gera og er börnunum missir að afa Steina. Í þeirra huga var ekki til sá hlutur sem hann gat ekki lagað og verður erfitt að venja sig af því að segja "þetta er allt í lagi, afi Steini getur örugglega lagað þetta." Steingrímur var mjög greiðvikinn, gott var að leita til hans og brást hann skjótt við þegar maður þurfti á að halda. Hann var tryggur vinum sínum og mat vináttu þeirra mikils. Hann deildi með okkur mörgum minningum sínum frá yngri árum. Það var greinilegt að uppvaxtarárin í Borgarnesi voru honum ánægjuleg og þar sló hjarta hans. Hann vitnaði oft í sögur af sér og vinum sínum í Borgarnesi, einnig frá því þegar hann var fyrst kúskur og síðar á vélskóflu í vegavinnunni og ekki síst þegar hann var sýsluskrifari og bílstjóri hjá pabba sínum.

Síðustu árin hrakaði heilsu Mollýar og hefur hún nú búið á Grund um tíma. Það reyndi oft á hann að fylgjast með því hvernig veikindi hennar hafa ágerst. Steingrímur var einstaklega natinn og góður við Mollý á þessum erfiða tíma. Hann heimsótti hana daglega og fóru þau saman í langar gönguferðir á meðan heilsa hennar leyfði.

Enn vil ég þakka Steingrími fyrir samfylgdina og megi hann hvíla í friði.

Guðrún Ólafsdóttir.

Steingrímur Jónsson mágur minn og vinur er látinn. Hans er sárt saknað.

Líklegt má telja að ýmsir hafi gert ráð fyrir því að Steingrímur myndi er tímar liðu fram feta í fótspor feðra sinna Jóns, sýslumanns Steingrímssonar og Steingríms bæjarfógeta Jónssonar, lesa lög og gerast sýslumaður. En Steingrími hugnaðist ekki langskólaganga og sennilega hafa genin frá móðurafa hans Guðmundi Péturssyni bátasmið verið yfirsterkari og því kaus hann sér það lífsstarf að gera við flugvélar.

Steingrímur var snemma atorkusamur og tápmikill. Fara sögur af því að í æsku sinni í Stykkishólmi hafi hann mjög sótt niður á bryggjurnar þar sem atvinnulíf staðarins fór fram og oftar en ekki hafi hann þá dottið framaf og í sjóinn og komið holdvotur heim. Þessi athafnaþrá hans hélst eftir að hann fluttist í Borgarnes. Þar réð hann sig ungur kúsk í vegavinnu og enn tók hann þátt í atvinnulífinu þegar til Reykjavíkur kom, gerðist kranastjóri við uppskipun á fiski og byggingarframkvæmdir. Þannig kynntist hann atvinnulífinu vel bæði til sjávar og sveita.

Þótt Steingrímur væri fyrst og fremst menntaður flugvirki, var fjarri að verkkunnátta hans væri bundin við flugvélar. Hann fór létt með að gera við úr og klukkur, bíla og barnahjól og allt þar á milli. Má raunar segja að öll verk á þessu sviði hafi leikið í höndunum á honum. Margir voru þeir hlutir sem menn töldu ónýta en Steingrímur tók til handargagns og urðu sem nýir. Mest var þó um vert með hvaða hugarfari Steingrímur hjálpaði mönnum með þessum hætti. Auðvitað kom ekki til mála að hann þæði greiðslu fyrir viðvikið heldur hitt að það var sem maður gerði honum greiða að leyfa honum að gera við, hvort heldur var bilaða brauðrist, bílinn eða hamar lausan á skafti. Hann naut þess sannarlega að gera vinum sínum greiða og margir voru þeir sem hann hjálpaði með verklagni sinni og hugkvæmni.

Þótt Steingrímur ætti til þeirra að telja, sem mikil afskipti hafa haft af stjórnmálum og skarað fram úr á því sviði, hafði hann ekki löngun til frama í þá átt. Þó er mér nær að halda að hann hafi verið andvígur öllum ríkisstjórnum hverjir sem þær skipuðu af þeirri einföldu ástæðu að honum þótti alltaf sem gengið væri á rétt aldraðra, öryrkja og þeirra sem slys eða sjúkdómar höfðu dæmt úr leik í lífsbaráttunni en hampað hinum sem betur mega sín. Aðspurður hverja hann vildi þá velja til setu í ríkisstjórn, benti hann gjarnan á vini sína í Borgarfirði, bændur, bílstjóra og aðra sem tóku þátt í brauðstriti hins líðandi dags. Fæst af aðgerðum ríkjandi stjórnvalda var honum að skapi. Hin síðari ár hafði Steingrímur miklar áhyggjur af heilsufari Mollyar konu sinnar, sem vegna sjúkleika getur nú ekki fylgt eiginmanni sínum til grafar.

Ég held að flestum sem þekktu Steingrím Jónsson hafi verið hlýtt til hans en við hjónin og fjölskylda okkar eigum honum fyrir vináttu og hjálpsemi skuld að gjalda.

Blessuð sé minning Steingríms Jónssonar.

Valgarð Briem.

Steingrímur Jónsson eyddi fyrstu æviárum sínum í Stykkishólmi þegar faðir hans, Jón Steingrímsson, var sýslumaður þar. Þau fluttu svo öll til Borgarness árið 1937 og áttu þar sín ágætustu ár. Kynni okkar Steingríms hófust á árinu 1955 þegar ég kynntist Kristínu Solveigu systur hans sem síðar varð eiginkona mín.

Steingrímur hafði ekki mikinn áhuga á frekari skólagöngu að loknu skyldunámi og starfaði framan af við verklegar framkvæmdir víða um land. Síðar kom þó að því að hann lagði í flugvirkjanám í Flórída og stundaði það starf alla tíð.

Fyrstu árin að námi loknu starfaði Steingrímur sem flugvirki víða um heim, t.d. í Afríku og Lúxemborg. Þá var hann einnig búsettur í Englandi í nokkur ár. Hann kynntist enskri konu, Molly, en hún hafði starfað hér í breska sendiráðinu um nokkurn tíma. Þau hafa nú verið gift í vel yfir þrjátíu ár og sá tími hefur verið vel notaður. Saman hafa þau hjón ferðast um allan heiminn auk þess sem þau nutu þess að fara í sumarbústaðinn í Borgarfirðinum. Fyrir tæpum tveimur árum hafði heilsu Mollyar hrakað svo að hún flutti á Elliheimilið Grund þar sem hún býr nú og Steingrímur hugsaði afskaplega vel um hana þar.

Eftir að þau fluttu til Íslands vann Steingrímur mest hjá Flugfélagi Íslands hér á vellinum og virtist njóta sín vel. Eftir að hann hætti að vinna er langt í frá að hann hafi sest í helgan stein. Hann sinnti stórum hópi vina og kunningja og aðstoðaði við ýmis verk, enda með eindæmum handlaginn. Aðstoðaði hann oft ýmis skyldmenni sín sem þurftu á hjálp að halda og hélt með því mjög góðu sambandi við þau.

Steingrímur fylgdist líka mjög vel með fréttum og raunar því sem var að gerast á flestum sviðum. Hann kom einnig reglulega til systra sinna sem þótti mjög gaman að fá hann í heimsókn og fengu oft góða hjálp með ýmislegt sem laga þurfti.

Ég sendi mínar bestu samúðarkveðjur til sona Steingríms, þeirra Nanna og Skorra, og fjölskyldna þeirra.

Ólafur Örn Arnarson,

læknir.

Á góðum degi hafði enginn fallegra hjartalag en Steingrímur móðurbróðir minn. Það eru fáir sem búa við þann munað að fá reglulega símhringingu þar sem spurt er: "Er ekki eitthvað bilað hjá þér? Er ekki eitthvað sem ég get hjálpað til við að laga?" Þá var Steingrímur á línunni. Á þeim árum þegar ég keyrði um á druslum og var nýflutt inn í íbúðina mína var slík hjálp ómetanleg. Laun hans voru ekki há, í mesta lagi tebolli. Og margar kennslustundir áttu sér stað yfir bílvélinni, yfir ryðblettunum á bílnum og við kranann á baðherberginu. Þess á milli skeggræddum við pólitík, skattamál og efnahagsmálin almennt. Við vorum auðvitað ekki alltaf sammála, fremur sjaldan reyndar, en Steingrím skorti aldrei álit á þessum málum. Steingrímur var ekki glaður þegar börnin í fjölskyldunni komust á þann aldur að keyra um á nýlegum bílum, því þá var minna fyrir hann að gera. Ég leitaði til hans síðastliðið sumar vegna lakkvandamála á rauða bílnum mínum og þá dró hann úr pússi sínu rautt bón. Ekki veit ég hvenær hann átti síðast rauðan bíl. Þó þörfin fyrir aðstoð Steingríms hefði minnkað með árunum var alltaf gaman að eiga við hann spjall um landsins gagn og nauðsynjar. Hans mun verða sárt saknað.

Katrín Ólafsdóttir.

Hann Steingrímur frændi er látinn. Það var óvænt og sár fregn sem okkur barst í síðustu viku. Okkur bræðrum og fjölskyldum okkar var brugðið. Horfinn er á braut í senn góður frændi og vinur.

Þegar við bræður vorum að alast upp stafaði ávallt einhverjum ævintýraljóma af Steingrími frænda. Hann nam flugvirkjun og tengdist fluginu sem alltaf var spennandi. Hann var um tíma að störfum erlendis og flutti okkur sögur af þátttöku sinni og dvöl á Sao Tome vegna hjálparstarfs í Biafra, dvöl sinni í Lúxemborg á bernskuárum Cargolux og fleiri framandi stöðum. Mest áhrif höfðu þó sennilega þau tæki og tól sem honum fylgdu, þekking hans og hæfileiki til að laga og breyta og grúska, sem vöktu áhuga og aðdáun ungra drengja. Og þegar við sjálfir fórum að eiga og reka tæki og bíla var Steingrímur ávallt sá fyrsti sem kom upp í hugann ef ráðleggingar þurfti eða eitthvað bjátaði á, enda einstaklega gott til hans að leita. Hann var ávallt reiðubúinn til hjálpar hvort sem var með eigin höndum eða leiðsögn. Og þegar árin færðust yfir og hann hafði rýmri tíma kom þessi eiginleiki enn betur í ljós. Hann virtist hafa einstaka ánægju af því að hjálpa til og lagfæra hluti og gera við. Ófá eru þau tæki og tól sem Steingrímur gæddi nýju lífi og enn gagnast þótt eigendum hafi þótt þau haugamatur. Mörg eru þau barnabörnin í stórfjölskyldunni og víðar sem Steingrímur hefur fært uppgert reiðhjól. Hér og þar í bílskúrum vina og vandamanna er að finna til dæmis hjólatjakka sem hann bað viðkomandi að "geyma" fyrir sig. Og um tíma var því haldið fram að hann héldi beinlínis tveimur Vauxhall Viva-bifreiðum okkar frændsystkinanna gangandi og ætti aðrar tvær í varahlutum í hillum víða um bæinn. P38 og "resin and hardener" eru orðtök sem hljóma í minningunni. Að rétta hjálparhönd er sú lýsing sem okkur finnst helst hæfa Steingrími frænda nú er leiðir skilja.

Þessi mikli áhugi á vélum og tækjum var Steingrími í blóð borinn og kom honum vel í starfi sínu sem flugvirki. Þegar þróun í flugvélasmíði komst á það stig að viðgerðir fólust aðallega í því að endurnýja bilaða hluti fannst Steingrími ekki lengur eins gaman að starfinu. Hann var ekki rólegur fyrr en hann hafði tekið hlutinn í sundur og fundið orsök fyrir biluninni. Hann saknaði þess tíma þegar hann gat handleikið hlutina og gert við þá.

En Steingrímur hafði líka skoðanir á mönnum og málefnum og var hvenær sem var reiðubúinn að láta þær í ljós. Og sjaldan var hann sammála viðmælandanum. Við minnumst skemmtilegra orðræðna um ríkisstjórnir og ráðherra sem fengu það óþvegið hjá Steingrími Jónssyni, en þó að mestu innan velsæmismarka.

Ekki er hægt að minnast Steingríms án þess að upp komi í hugann sumarbústaðurinn við Hreðavatn, Kvistur. Ekki bara fyrir þá einstöku náttúrufegurð sem þar er heldur þá hluti sem tengjast Steingrími. Þar kenndi ýmissa grasa, svo sem utanborðsmótors sem tengdur var við rafgeymi úr bíl, og seglbáts úr plastdúk sem strengdur var á trégrind og síðar hlaut nafnið Ísbrjóturinn og loks legstað sem sandkassi fyrir börnin. Ófáar stundir áttum bræður og fjölskyldur í Kvisti og ógleymanlegur er flutningurinn á nýja bústaðnum á stæði þess gamla. Þar var Steingrímur á heimavelli og í essinu sínu.

Síðustu misserin hafa verið Steingrími nokkuð erfið, sennilega erfiðari en nokkurn grunaði. Veikindi Mollýar, konu hans, og umönnun reyndi verulega á hann. En nú er þessu lokið. Steingrímur hefur kvatt. Eftir stendur einstaklega ljúf minning um góðan og eftirminnilegan frænda. Við vottum Mollý, Nanna, Guðrúnu, Skorra og barnabörnum okkar dýpstu samúð.

Ólafur Jón, Garðar og Gunnlaugur Briem.

Hvernig fara fjölskyldur að sem eiga engan Steingrím frænda? Þetta hefur oft verið haft að orði í fjölskyldu minni og ekki að ástæðulausu. Það var nefnilega fátt svo illa farið eða bilað að Steingrímur móðurbróðir minn gæti ekki bjargað því, sama hvort um var að ræða heimilistæki, stíflaða vaska eða bíla. Og alltaf með sömu ljúfmennskunni.

Þegar við frændsystkinin vorum ung með tilheyrandi blankheitum og ókum á misöldruðum og misökufærum farartækjum, fékk Steingrímur margt neyðarkallið og alltaf brást hann fljótt og vel við. Var oft gaman að fylgjast með vinnubrögðunum; handlagninni, heilabrotunum og hugmyndaauðginni. Aldrei gafst hann upp fyrr en í fulla hnefana og þá var örugglega óhætt að henda viðkomandi hlut. Hjálpsemin var ekki aðeins bundin við fjölskylduna, allir sem kynntust honum nutu sömu greiðasemi. Ekki var það bara fjárhagsávinningurinn sem maður kunni að meta, og hann var umtalsverður, heldur ekki síður að vita að maður átti góðan að ef maður lenti í vanda. Á síðustu árum kvartaði hann oft yfir því að núorðið bilaði ekkert hjá okkur, átti jafnvel til að hringja og spyrja hvort það væri nú ekki eitthvað sem þyrfti að laga.

Nú er komið að því að við verðum að bjarga okkur án aðstoðar Steingríms, fyrr en okkur grunaði. Við munum sakna þess en ennþá meira munum við sakna hans sjálfs.

Guðrún Ólafsdóttir.