NÝLEGA pantaði ég litla, enska bók á Netinu og greiddi með korti. Hún kom með DHL skömmu síðar og henni fylgdi reikningur, sundurliðaður svohljóðandi: Í-gjald skv. nýrri reglugerð, kr. 750,00 Umsjón. kr. 305,22. Vsk (af umsjón) kr. 74,78. Alls kr. 1.

NÝLEGA pantaði ég litla, enska bók á Netinu og greiddi með korti. Hún kom með DHL skömmu síðar og henni fylgdi reikningur, sundurliðaður svohljóðandi:

Í-gjald skv. nýrri reglugerð, kr. 750,00

Umsjón. kr. 305,22.

Vsk (af umsjón) kr. 74,78.

Alls kr. 1.130 – en bókin sjálf kostaði aðeins níu sterlingspund, eða 1.260 kr.

Burtséð frá þeirri staðreynd að "nýja" reglugerðin er frá árinu 1997 og hefur verið hnekkt með EFTA-dómi og hæstaréttardómi (Nr. 477/2002) sem ólögmætri mismunun á markaðsstöðu innlendra og erlendra bóka, þá er það ljóst að skattheimtumaður ríkissjóðs fer offari með því að setja lágmarksgjald sem leiðir til óeðlilegs innheimtukostnaðar (umsjónargjalds flytjanda) og loks virðisaukaskatts af þeirri þjónustu og veldur þannig tæknilegri hindrun á því að Íslendingar geti nýtt sér erlend bókakaup með sama hætti og íslensk.

Þetta leiðir hugann að þeim tíma þegar þeir Friðrik Sophusson (fjármálaráðherra árið 1997) og Geir H. Haarde, eftirmaður hans, brutust ungir hugsjónamenn til stjórnmálaáhrifa undir gunnfánanum "Báknið burt!" Ef til vill getur forsætisráðherra nú svarað þeirri spurningu sem ljóðskáldið Jóhann Jónsson velti fyrir sér í ljóðinu Söknuður:

Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað

Og ljóðin sem þutu um blóð þitt frá draumi til draums?

Hvar urðu þau veðrinu að bráð...?

Höfundur er fv. fréttamaður.