Þórður Stefánsson fæddist í Hafnarfirði 18. nóvember 1932. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 28. desember síðastliðinn og var útför hans gerð frá Víðistaðakirkju 5. janúar.

Fyrir tæpum 40 árum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Þórði mági mínum. Þegar ég hitti hann í fyrsta skipti tók hann á móti mér eins og ævagömlum vini og hefur sú vinátta styrkst með hverju ári síðan.

Þórður bjó lengst af með foreldrum sínum á Hamarsbrautinni, þar sem hann á seinni árum sá um heimilishaldið fyrir þá og var umhyggja hans í garð þeirra einstök. Stefán faðir hans lést fyrir 5 árum, 92 ára að aldri, en móðir hans Hulda, lifir son sinn 96 ára gömul og saknar hún hans sárt. Hún er nú vistmaður á Hrafnistu en í mörg ár, eða þar til hann veiktist, keyrði Þórður móður sína í dagvistun þangað.

Þórður eignaðist eina dóttur, Huldu, sem hann ól upp á Hamarsbrautinni. Hún var alla tíð augasteinninn hans og ekki síður dóttursynirnir, Viktor Ingi og Stefán Máni, sem nú sakna afa síns, sem var þeim svo nátengdur. En það voru fleiri börn sem nutu gæsku Þórðar. Hann var einskaklega barngóður og vinur allra barna í fjölskyldunni. Það gladdi þau ávallt þegar Þórður frændi kom í heimsókn og aldrei gleymdi hann afmælisdögum þeirra. Fjölskylda mín fór með Þórði og Huldu í nokkrar skíðaferðir til útlanda og áttum við margar góðar stundir saman í brekkunum. Sl. vetur áttum við sem oftar pantaða skíðaferð með Þórði, sem hann varð því miður að hætta við vegna veikinda.

Þórður starfaði lengst af í Vélsmiðju Hafnarfjarðar með föður sínum, en eftir sölu hennar fékkst Þórður við fasteignarekstur.

Hann var góður söngmaður og var um árabil í Karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði, þar sem hann söng m.a. með föður sínum og bræðrum. Þá var Þórður félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar.

Nú verða ferðir mínar á Hamarsbrautina ekki fleiri, en þar átti ég alltaf líflegar samræður við Þórð um það sem var í brennidepli hverju sinni og voru stjórnmálin þá oft rædd. Þótt ég væri ekki alltaf sammála honum var oft erfitt að hrekja þann rökstuðning sem lá að baki skoðunum hans.

Að leiðarlokum vil ég minnast Þórðar Stefánssonar sem trausts vinar sem alltaf var boðinn og búinn að hjálpa, hvar sem hjálpar var þörf. Ég vil þakka honum fyrir allt það sem hann var okkur Helgu og börnunum okkar. Það var sárt að sjá illvígan sjúkdóm leggja hann að velli á nokkrum mánuðum.

Elsku Hulda mín, Viktor Ingi, Stefán Máni og Hulda tengdamóðir mín, missir ykkar er mikill. Ég bið guð að blessa ykkur og styrkja í sorg ykkar.

Gunnar Hjaltalín.

Látinn er frændi minn; Þórður Stefánsson, eftir skamma sjúkdómslegu. Margs er að minnast og þakka. Þórður var prýddur mörgum góðum kostum þar sem umhyggju fyrir velferð ættingja bar hæst. Var hann stoð og stytta foreldra sinna eftir að þau komust á efri ár og gerði þeim kleift að búa á heimili sínu svo lengi sem raunin varð.

Þórður var með eindæmum barngóður enda hændumst við frændsystkinin að honum. Einkum þótti mér sem unglingi vænt um að hann talaði og kom fram við mig eins og ég væri fullmektugur. Hann gerði sér far um að ræða landsmálin og hin ýmsu heimspekilegu álitaefni sem á ungmenninu brunnu í það og það skiptið. Þessum samræðustundum héldum við frændur áfram eftir að á fullorðinsár mín var komið. Þórður hafði alltaf skoðanir á mönnum og málefnum líðandi stundar enda víðlesinn og skarpgreindur.

Eina stutta sögu vil ég að lokum segja af Þórði eða Bóbó eins og við vorum vön að kalla hann. Tveir frændur, stuttfættir, voru staddir í boði og var umhugað um að sýna öllum viðstöddum snilli sína í töfrabrögðum. Fóru því á milli gestanna með litla kúlu sem þeir áttu að leggja í lófa sinn, loka augum, krossleggja fingur og renna þeim yfir kúluna. Þá var spurt: hvað ert þú með margar kúlur í lófanum? Það voru mikil vonbrigði þeim stuttfættu að allir viðstaddir virtust sjá í gegnum þetta bragð þar til kom að Bóbó.

Huldu og drengjunum hennar þeim Viktori Inga og Stefáni Mána votta ég mína dýpstu samúð.

Eyjólfur Rúnar Sigurðsson.

Kveðja frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar

Horfinn er á braut rótarýfélagi okkar, Þórður Stefánsson. Þórður gekk til liðs við Rótarýklúbb Hafnarfjarðar 23. maí 1985 sem fulltrúi fyrir starfsgreinina vélsmiðjur, en faðir hans var einn af stofnfélögum klúbbsins fyrir rúmum 60 árum og var Þórður því þess aðnjótandi að starfa í klúbbnum með föður sínum um langt skeið.

Þórður var mjög vel lesinn og það duldist engum á ferðum klúbbsins, hér á landi og erlendis, og nutu ferðafélagar hans vel kunnáttu hans á sögu og staðháttum. Það var reyndar næstum því sama hvert umræðuefnið var, sjaldan var komið að tómum kofunum hjá Þórði. Hann lét tölvuöldina hins vegar ekki hafa áhrif á sig og skrifstofa hans var ein fárra sem ekki skörtuðu tölvu af einhverju tagi en ritvélin var enn í notkun á skrifstofunni þar sem hann vann við eignaumsýslu til dauðadags.

Þórður var stallari klúbbsins 1989–1990 og gjaldkeri 2004–2005 og skilaði góðu búi eins og búast mátti við af honum en Þórður var áhugasamur um starf og stefnu rótarýklúbbsins.

Félagar sjá á eftir góðum félaga og fyrir hönd klúbbsins færi ég móður hans, systkinum, dóttur og dóttursonum og öðrum ættingjum innilegustu samúðarkveðjur.

Guðni Gíslason, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar.