TALIÐ var að um 210.000 heimili væru án rafmagns og um 50.000 án símasambands í Svíþjóð í gær eftir fárviðri sem gekk þar yfir á sunnudag.

TALIÐ var að um 210.000 heimili væru án rafmagns og um 50.000 án símasambands í Svíþjóð í gær eftir fárviðri sem gekk þar yfir á sunnudag. Þrír fórust í Svíþjóð í óveðrinu sem olli einnig miklum truflunum á samgöngum, meðal annars vegna trjáa sem rifnuðu upp með rótum og féllu á vegi og járnbrautarteina.

Þegar óveðrið var verst mældist vindhraðinn um 40 metrar á sekúndu, að því er fram kom á fréttavef Svenska Dagbladet . Alls voru um 275.000 sænsk heimili án rafmagns af völdum ofsaveðursins á sunnudag.

Tjónið í óveðrinu var þó minna en af völdum stormsins sem gekk yfir Svíþjóð fyrir tveimur árum og nefndur hefur verið Guðrún, að sögn sænska blaðsins Dagens Nyheter .

Óveðrið gekk einnig yfir Danmörku og þar varð vindhraðinn allt að 38 metrar á sekúndu.

Skipverjum bjargað

Lægðin færðist yfir Eystrasalt og Rússland í gær en vindhraðinn var minni en um helgina.

Flutningaskip strandaði í óveðrinu undan strönd Lettlands í gær og sextán skipverjar af 24 voru fluttir með þyrlum í land. Í skipinu eru 25.000 tonn af áburði og um 500 tonn af olíu.

Allt að 50.000 manns voru án rafmagns af völdum óveðursins í Lettlandi og um 70.000 heimili í Litháen.