Katmandú. AFP. | Maóistar í Nepal tóku sæti á þingi í gær eftir að hafa sl. tíu ár háð blóðuga baráttu sem leiða átti til þess að kommúnískir stjórnhættir yrðu teknir upp í landinu. Að minnsta kosti 12.

Katmandú. AFP. | Maóistar í Nepal tóku sæti á þingi í gær eftir að hafa sl. tíu ár háð blóðuga baráttu sem leiða átti til þess að kommúnískir stjórnhættir yrðu teknir upp í landinu. Að minnsta kosti 12.500 manns týndu lífi í átökunum en maóistar og stjórnvöld í Nepal sömdu um vopnahlé sl. vor.

Alls sitja 330 á nepalska þinginu, en það kom saman í gær. Þar af eru nú 83 maóistar. Ríkisstjórn landsins hafði um helgina samþykkt nýja stjórnarskrá fyrir landið, til bráðabirgða. Segja má að maóistar og stjórnarflokkarnir hafi náð saman um vopnahlé eftir að Gyanendra konungur hrifsaði til sín öll völd snemma árs 2005, en hann neyddist til að kalla þing saman aftur í apríl 2006 eftir margra vikna mótmæli.

Felur nýja stjórnarskráin það í sér að konungurinn verði sviptur öllum völdum, en maóistar vilja ganga lengra og taka upp lýðveldisfyrirkomulag, þ.e. afnema konungræði.

Talsmaður maóista, Madhav Kumar Nepal, sagði í gær að þeir hlökkuðu til að takast á við þingstörfin. Sögulegir tímar færu í hönd.