SJÖTÍU ára afmæli Skautafélags Akureyrar var haldið hátíðlegt um helgina. Um leið var fagnað þeim áfanga að félagið hefur öðlast viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ og þrjár gamlar kempur voru gerðar að heiðursfélögum.
Skautafélag Akureyrar var stofnað 1. janúar 1937. Nú eru starfandi þrjár deildir í félaginu; krulludeild, íshokkídeild og listhlaupsdeild.
Heiðursfélagarnir þrír eru Edda Indriðadóttir, Björn Baldursson og
Ásgrímur Ágústsson. Þau Edda og Björn voru bestu skautahlauparar landsins um árabil. Edda á öll gildandi Íslandsmet í hraðhlaupum en þau setti hún um miðja síðustu öld og Björn á líka enn gildandi Íslandsmet. Ásgrímur hefur unnið mikið starf í þágu félagsins í áraraðir. Baldur var ekki viðstaddur.
Ólafur Rafnsson, forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, tilkynnti í hófinu að SA væri orðið eitt fyrirmyndarfélaga ÍSÍ og formaður SA, Leena Kaisa Vitanen, tók við viðurkenningu því til staðfestingar.
Undanfarna mánuði hefur félagið unnið ötullega að skipulagningu á innri starfsemi sinni til þess að uppfylla skilyrði sem sett eru fyrir þessari tilnefningu.
Að morgni hátíðardagsins fór fram íshokkímót drengja í 4. flokki með þátttöku SA, Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur og um kvöldið var á dagskrá leikur Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur í meistaraflokki karla á Íslandsmótinu í íshokkí. Leikurinn var bráðskemmtilegur en heimamenn urðu að játa sig sigraða, 6:4. Höfðu menn á orði að sunnanmönnum hefði þótt Akureyringar verið búnir að fagna nóg þann daginn...