Ásgeir Guðmundsson
Ásgeir Guðmundsson
Ásgeir Guðmundsson skrifar opið bréf til samgönguráðherra: "Ég veit, ráðherra góður, að göngin mörgu eru mikilvæg en bágt á ég með að trúa því að þessir 16 km tefji þær smíðar svo nokkru nemi."

GREIN með þessari yfirskrift var birt í Morgunblaðinu 5. júlí 2001 og síðan hef ég fjallað um þennan veg annað slagið í stuttum greinum í blaðinu og jafnan fengið viðbrögð þín. Enn þykir mér ástæða til að forvitnast því ég hef orðið var við að fjölmargir sem tengjast svæðunum í uppsveitum Árnessýslu hafa mikinn áhuga á framgangi þessa vegar, fastir íbúar sem og aðkomufólk.

Já, hugsaðu þér, ágæti ráðherra, það eru senn 7 ár síðan ég skrifaði þessar línur en þá hafði þessi vegarspotti verið í umræðunni um nokkurt skeið og gerðar um hann áætlanir í langtíma vegaáætlun 2003–2010. Það eru mörg ár síðan þú sagðir að nú væri komið að framkvæmdum, það er allt skráð í svörum þínum. En hvar er málið nú?

Í grein minni frá 2001 nefndi ég nokkur dæmi um þörfina fyrir þennan veg:

1. Skipulagðar skoðunarferðir til Gullfoss, Geysis og um Þingvöll stefna í flestum tilvikum um Gjábakkaveg. Leiðin er fögur en slæmur vegur og rykkóf kemur iðulega í veg fyrir ánægjulega skoðunarferð. Mestan hluta vetrar er leiðin lokuð og verður þá að aka lengri leið með tilheyrandi kostnaði.

2. Þúsundir manna af höfuðborgarsvæðinu eiga sumarathvarf í Laugardal, við Úthlíð og víðar í Tungunum og efst í Grímsnesi. Þetta fólk á um tvo kosti að velja; að fara Hellisheiði og upp Grímsnes eða að aka Mosfellsheiði og um Gjábakkaveg. Akstursleiðin frá Reykjavík að Laugarvatni er um 25% styttri ef farið er um Mosfellsheiði. Menn veigra sér hins vegar við því að fara þá leið að jafnaði þar sem enginn tími sparast vegna ástands vegarins, auk þess sem meiri hætta er á bílskemmdum sakir grjótkasts og glannalegs aksturs.

3. Bensínkostnaður hefur aukist verulega á síðustu misserum. Ef Gjábakkavegur væri endurbyggður myndu fjölmargir ferðamenn án efa kjósa að aka þá leið og spara með því umtalsverða fjármuni.

4. Umferð um Suðurlandsveg hefur aukist gífurlega á undanförnum árum og krafan um tvöföldun vegarins yfir Hellisheiði að Selfossi er orðin hávær. Endurgerður Gjábakkavegur myndi án efa létta verulega á þjóðveginum austur fyrir fjall, sérstaklega á sumrin.

5. Ástæða er til að ætla að þessi aðgerð leiddi til færri slysa.

Það þarf ekki að breyta mörgu í þessari upptalningu en hugsanlega bæta einhverju við. Því er t.d. við að bæta að íbúum í sumarhúsum hefur fjölgað um þúsundir á þessum árum sem nýta þau jafnar allt árið en áður var með tilkomu hitaveitu. Þeir mundu margir kjósa að eiga kost á þessari leið í staðinn fyrir að hætta sér á formúlubrautina austur yfir fjall.

Ég sakna þess að sveitarstjórnarmenn, rekstraraðilar í ferðaþjónustu, Alþingismenn og sumarhúsaeigendur á svæðunum fyrir austan fjall skuli ekki láta í sér heyra. Ég veit, ráðherra góður, að göngin mörgu eru mikilvæg en bágt á ég með að trúa því að þessir 16 km tefji þær smíðar svo nokkru nemi.

Höfundur er eigandi sumarbústaðar í Bláskógabyggð.

Höf.: Ásgeir Guðmundsson