Anna Þorbjarnardóttir fæddist á Eyrarbakka 26. ágúst 1914. Hún lést á Dvalarheimilinu Ási í Hveragerði 31. desember síðastliðinn og var jarðsungin frá Eyrarbakkakirkju 6. janúar.

Nú þegar komið er að kveðjustund vil ég þakka vinkonu minni Önnu Þorbjarnardóttur fyrir öll árin sem við höfum átt saman og alla hennar vináttu og tryggð við mig og mína fjölskyldu. Kynni okkar hófust þegar við fjölskyldan fluttum á Þelamörkina. Þá bjó Anna í næsta húsi og þar vorum við heppin að eignast slíkan nágranna sem hún var. Það var alltaf hægt að leita til hennar hvort sem var um einhverja aðstoð eða bara góð ráð. Það var hægt að trúa Önnu fyrir öllu. Hún var einstaklega traust og grandvör og ekkert fór lengra sem henni var trúað fyrir og börnunum var hún sem besta amma enda sóttu þau til hennar.

Anna starfaði í mörg ár í Kjörís og þrátt fyrir lélega heilsu skilaði hún starfi sínu af stakri prýði og samviskusemi. Hún var mannasættir og lagði alltaf gott til ef eitthvað missætti kom upp á í vinnunni.

Anna var hæglát, virðuleg og falleg kona og bar sig af reisn. Hún átti fallegt heimili og naut þess að hafa fínt hjá sér. Hennar ævi var ekki alltaf létt en það bar hún ekki á torg fyrir aðra en hún auðgaði líf okkar hinna sem kynntumst henni og nutum samvista við hana.

Síðustu æviárin dvaldi Anna á Hjúkrunarheimilinu Ási hér í Hveragerði þar sem hún naut góðrar umönnunar svo sem best varð á kosið hjá því góða fólki sem þar starfar og vil ég þakka fyrir það.

Önnu minni bið ég Guðs blessunar og góðrar heimkomu á ströndinni fyrir handan.

Ástvinum öllum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Laufey S. Valdimarsdóttir, Hveragerði.

Í dag kveð ég hinstu kveðju vinkonu mína Önnu Þorbjarnardóttur. Anna var órjúfanlegur hluti af tilveru minni fyrstu sex ár ævi minnar. Ég hef búið að vináttu hennar alla tíð síðan. Anna bjó í húsinu við hliðina á æskuheimili mínu og þangað var gott að leita skjóls er á þurfti að halda. Það má eiginlega segja að hún hafi verið hálfgerð amma, enda átti ég ekki því láni að fagna að kynnast ömmum mínum. Að stíga inn í ríki Önnu voru forréttindi. Þar var komið fram við mann eins og fullorðna manneskju og mikill skilningur sýndur á hinum ýmsu vandamálum sem upp komu. Anna kenndi mér að meta fallega hluti enda var heimili hennar sérstaklega fallegt og lítið stúlkubarn skynjaði fegurðina í málverkunum, útsaumuðum púðum, postulíni og kristal. Það var ævintýri líkast að vera boðið í "kaffi" til Önnu. Litlu stúlkunni stóð alltaf til boða að velja á milli þess að fá heitt eða kalt kakó. Ég valdi alltaf heitt, þótt mér þætti þá það kalda betra, vegna þess að heita kakóið var alltaf borið fram í postulínsbollum og það fannst okkur Önnu svo "elegant". Ég held ég geti fullyrt að mér hafi sjaldan liðið jafnmikið eins og heimskonu og á þessum stundum í húsi Önnu á Þelamörkinni. Stundum fékk ég að gista og var það á við stórhátíð. Anna hafði tvö rúm í herberginu sínu og því svaf ég inni hjá henni. Hún hafði snyrtiborð þar sem voru krúsir með kremum og öðru þess háttar. Og þarna fékk ég dýrindis næturkrem á freknóttar kinnarnar og Anna greiddi hár mitt fyrir svefninn. Síðan sagði hún mér sögur frá því þegar hún var lítil stúlka á Eyrarbakka. Mér er sérstaklega minnisstætt er ég ákvað að gleðja Önnu mína einn sólríkan sumardag. Móðir mín hafði verið að taka upp og brytja rabarbara sem hún ætlaði síðan að sulta. Þennan fínt skorna rabarara færði ég Önnu án þess að leiða hugann að því að Anna átti sjálf fullan kálgarð af rabarbara.

En það var ekki bara ég sem sótti til Önnu. Það voru einnig systkini mín, Aldís, Valdimar og Sigurbjörg. Valdimar gerðist svo ákafur eitt sinn er hann var á leið til Önnu að hann festi höfuðið á sér í hliðgrindinni og þurfti tilfæringar til að losa drenginn.

Já, margar eru minningarnar sem að streyma fram í hugann. Ég vil með þessum fátæklegu orðum þakka Önnu samfylgdina. Ég vil þakka henni fyrir að kenna mér að sjá fegurðina allt um kring og ekki síst það að njóta augnabliksins og það var einmitt það sem við gerðum í gamla daga. Hún lifði með reisn til hinstu stundar, alltaf jafnfalleg. Nú gengur fallega Anna mín inn í ljósið til endurfunda við systkini sín og aðra ástvini þar sem fegurðin ein ríkir.

Megi algóður Guð blessa minningu Önnu Þorbjarnardóttur.

Ég sendi ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Hafsteinsdóttir, Hveragerði.

Elsku Anna frænka. Það er mjög erfitt að vita að þú sért farin í burtu. Ég mun ávallt sakna þín í framtíðinni.

Það sem kemur fyrst í huga mér þegar ég hugsa um þig er þegar ég kom alltaf í heimsókn til þín þegar ég var lítil. Þú bauðst okkur alltaf jólaköku, kex og mjólk en mér bauðstu alltaf djús eða kók því að ég drekk ekki mjólk. Ég borðaði heldur ekki jólakökuna því að það voru rúsínur alltaf í henni þannig að ég fékk mér bara kex. En seinna þegar ég kom þá varstu komin með jólaköku með súkkulaði svo að ég gæti fengið mér líka köku. Þú varst alltaf hjá okkur um jólin og það var bara sjálfsagður hlutur að fá þig rétt fyrir klukkan 18:00 á aðfangadagskvöld en svo eitt árið þá varstu ekki hérna hjá okkur og okkur systrunum fannst það eitthvað svo tómlegt að hafa þig ekki; að hafa þig þá voru jól.

Að koma til þín í heimsókn var alltaf svo gaman því þú tókst okkur alltaf opnum örmum og settir alltaf eitthvað á borðið til að gefa okkur. Svo átti ég mér visst sæti og ef það sat einhver þar þá var manneskjan nánast rekin úr því þegar ég kom. Eitt skiptið þegar ég kom þá voru blöð í stólnum sem ég sat alltaf í og þú fórst strax að taka þau af stólnum svo að ég gæti sest á minn stað. Svo varstu alltaf með eitthvað til að sýna okkur inni í stofunni hjá þér. Ég man líka þegar ég var lítil þá var ég alltaf að leika mér með skóhornið sem var bakvið útidyrahurðina hjá þér og ég var alltaf að hugsa hvað þetta væri, svo þegar ég hætti að leika mér með það þá fór hún Margrét að leika sér með það.

Eitt skiptið þegar ég kom í heimsókn til þín þá var vinkona mín með mér og hún hélt að þú værir amma mín og það var eiginlega alveg rétt því þú hefur verið sem amma mín alla mína tíð.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr.)

Þín frænka

Sigrún Hannesdóttir.