Virkni til verks Íbúar og starfsfólk Búsetuþjónustunnar takast á hverjum degi á við krefjandi verkefni.
Virkni til verks Íbúar og starfsfólk Búsetuþjónustunnar takast á hverjum degi á við krefjandi verkefni.
Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur join@mbl.is Markviss þróun í átt að skilvirkari þjónustu við geðfatlaða á síðasta ári sýnir að hægt er að virkja geðfatlaða til aukinnar þátttöku í samfélaginu um leið og þeir fá aðstoð við að auðga sitt líf.

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur

join@mbl.is

Markviss þróun í átt að skilvirkari þjónustu við geðfatlaða á síðasta ári sýnir að hægt er að virkja geðfatlaða til aukinnar þátttöku í samfélaginu um leið og þeir fá aðstoð við að auðga sitt líf. Á hverjum degi er tekist á við krefjandi verkefni, sem oft skilja eftir sig gleði, stolt og traust og við lendum líka í því að takast saman á við erfiðari tilfinningar tengdar vonbrigðum, pirringi og reiði," segir Jóna Rut Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi og forstöðumaður búsetu- og stuðningsþjónustu geðfatlaðra, sem er á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. "Stefna Velferðarsviðs er að notendur taki þátt í þeirri þjónustu, sem þeir njóta og því höfum við markvisst lagt okkur eftir því að þróa áhugaverð verkefni fyrir notendur þjónustunnar. Markmiðið er að kynna skjólstæðingum okkar margþætt verkefni, fá þá til að axla ábyrgð og viðhalda áhugamálunum. Hér stöndum við til að mynda að út-gáfu Hugviljans og efnum bæði til skemmtilegra föstudaga og furðulegra fimmtudaga svo dæmi séu tekin með ýmsum uppákomum og skemmtilegheitum, auk þess sem við höfum farið saman í ferðalög," segir Jóna Rut.

Unnið gegn fordómunum

Fólk setur sér markmið tengd athöfnum daglegs lífs og starfsfólk fær leiðbeiningu um hvernig það getur stutt, hvatt, leiðbeint og örvað í átt að markmiðunum.

"Snemma á síðasta ári tókum við upp einkunnarorðin "virkni til verks" og hafa áherslur í þjónustu og stjórnun síðan einkennst af fjórum megin þáttum.

Í fyrsta lagi var aukinn þungi lagður á búsetuendurhæfingu í formi faglegra vinnu-bragða endurhæfingar og búsetugreiningar. Í öðru lagi var sérstök áhersla lögð á að öll starfsþróun og stjórnun myndi einkennast af gæðastjórnun og nútímalegum vinnubrögðum stjórnunar. Í þriðja lagi var lögð áhersla á ímyndarvinnu og kynningu á búsetuþjónustunni með það að leiðarljósi að auka samvinnu við félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki, m.a. til að vinna að hagsmunum geðfatlaðra en ekki síður til að vinna gegn fordómum í garð þeirra. Í fjórða lagi var unnið markvisst að þróun nútímalegra samfélagsverkefna, sem miða að því að þjónusta við notendur fylgi tíðaranda samfélagsins, en sé ekki skrefum aftar eins og oft einkennir opinberar þjónustustofnanir," segir Jóna Rut.

Þjónustan fer fram víðsvegar í Reykjavík Alls hafa 23 geðfatlaðir einstaklingar verið að þiggja þjónustu, en nú stefnir í að skjólstæðingum muni fjölga um sextíu.

Undirbúið fyrir nýtt hlutverk

Unnið hefur verið markvisst við að aðstoða íbúana við markmiðssetningu, t.d. í sambandi við persónulegt hreinlæti, heimilisþrif, eld-húsþjálfun, ferðaþjálfun og innkaup. "Persónulegt hreinlæti var í flestum tilvikum ábótavant. Ég tel að góður árangur hafi náðst við að virkja íbúa við athafnir daglegs lífs eftir breytta þjónustustefnu og nálgunarstjórnun starfsmanna. Í byrjun voru margir íbúar óvirkir og vörðu deginum í einrúmi við reykingar, en nú er áhersla lögð á að veita íbúum einstaklingsbundna aðstoð við að auka þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum. Hluti af búsetuendurhæfingu felst í að búa íbúa undir nýtt hlutverk. Fréttablaðið Hugviljinn hefur gefið mönnum tækifæri til þátttöku í áhugaverðu starfi. Merki Búsetuþjónustunnar var hannað af íbúa frá grunni auk þess sem margir hafa stundað garðrækt og jólakortagerð. Á haustmánuðum var ákveðið að stofna Iðjum sem ætlað er að veita líkamlega og andlega þjálfun," segir Jóna Rut að lokum.