Það kom fáum á óvart að franskir hægrimenn, UMP, skyldu tilnefna Nicolas Sarkozy innanríkisráðherra forsetaefni sitt í kosningunum í vor. Sarkozy gaf einn kost á sér og fékk hann atkvæði rétt rúmlega 98% þeirra 70% flokksmanna, sem tóku þátt í kosningunni. Þessar tölur eru þó ekki til marks um það að eining sé um frambjóðandann. Hann er umdeildur og hans helsti andstæðingur í flokknum er núverandi forseti, Jacques Chirac, sem var ekki einu sinni viðstaddur tilnefninguna á sunnudag. Chirac hefur ekki enn sagt hvort hann muni gefa kost á sér til endurkjörs og er talið að með því vilji hann eyðileggja fyrir Sarkozy. Ólíklegt er reyndar að hann geri það. Hann nýtur lítilla vinsælda um þessar mundir og í nýlegri skoðanakönnun sögðust 80% ekki vilja að færi fram á ný. Chirac hefur hins vegar ekki fyrirgefið Sarkozy að hann skyldi styðja hægri manninn Edouard Balladur gegn sér í forsetakosningunum fyrir tíu árum.
Frambjóðandi sósíalista í kosningunum í vor verður Segolene Royal. Samkvæmt könnunum er Sarkozy eini franski stjórnmálamaðurinn, sem getur skákað henni, og mælist fylgi þeirra hnífjafnt.
Kosningarnar í Frakklandi í vor skipta miklu máli. Í frönsku efnahagslífi ríkir stöðnun. Atvinnuleysi er tæplega níu af hundraði. Óánægja kraumar í hverfum og bæjum innflytjenda þar sem atvinnuleysið er jafnvel margfalt meira. Myndir af brennandi bílum og ofbeldi á götum úti hafa sést reglulega í fréttum frá Frakklandi. Árið 2005 var kveikt í 45 þúsund bílum og 110 þúsund tilvik ofbeldis skráð í borgum landsins.
Sarkozy hefur boðað hörku í málum innflytjenda, þótt í ræðu hans þegar hann þakkaði tilnefninguna hafi mátt greina mýkri tón en áður. Hann sagði að það væri óviðunandi að fólk vildi búa í Frakklandi án þess að virða og elska Frakkland, sem er bein skírskotun til samfélags múslíma í Frakklandi. Hann vísaði einnig til þess að hann væri með blandað blóð, en faðir hans var Ungverji. Nái hann kjöri yrði það í fyrsta skipti, sem sonur innflytjanda verður forseti.
Segolene Royal gæti orðið fyrsta konan til að verða forseti Frakklands. Hún talar iðulega um endurnýjun lýðræðisins og reynir að virkja óánægju almennings með ráðamenn, þótt hún sé síður en svo nýgræðingur eða utangarðsmaður í pólitík. Hún talar um breytingar, en erfitt er að festa hendur á því hvaða breytingar hún hefur í hyggju.
Sarkozy getur átt von á andstöðu bæði frá hægri og vinstri og þótti ræða hans á sunnudag bera því vitni að hann vildi höfða til hugsanlegra kjósenda öfgamanna á borð við Jean-Marie Le Pen. Það getur orðið erfitt fyrir hann að sækja bæði inn á miðjuna og til hægri.
Royal gæti lent í sama vanda og þurft að glíma við fleiri frambjóðendur á vinstri vængnum. Framboð ýmissa vinstri frambjóðenda í síðustu kosningum komu sennilega í veg fyrir að Lionel Jospin næði þá sigri.
Erfitt getur orðið að losa um höft og stöðnun í frönsku efnahagslífi. Tilraun núverandi ríkisstjórnar til að losa um vinnumarkaðinn í því skyni að auka atvinnu mætti slíkri andstöðu að draga varð aðgerðirnar til baka. Frakkar óttast bæði að verða undir holskeflu hnattvæðingarinnar og um leið að þeir muni missa það sem þeir þegar hafa verði brugðist við hnattvæðingunni með aðgerðum og umbótum. Royal og Sarkozy boða bæði breytingar og gætu hrist upp í frönskum stjórnmálum, en það er vandasamt að styrkja Frakkland með þeim hætti að Frakkar geti veitt trúverðuga forustu í Evrópusambandinu og látið að sér kveða með sannfærandi hætti á alþjóðlegum vettvangi.