MP Fjárfestingarbanki hefur stofnað fjárfestingafélagið Aurora Holding, en tilgangur þess eru fjárfestingar í Eystrasaltsríkjunum og Mið- og Austur-Evrópu. Aurora mun jafnframt hafa heimild til að fjárfesta í félögum í öðrum löndum sem eru með stóran hluta af starfsemi sinni í ríkjum Austur-Evrópu. Framkvæmdastjóri og starfsmenn félagsins verða með aðsetur í Vilníus, höfuðborg Litháens. Frá þessu er greint í tilkynningu frá MP Fjárfestingarbanka.
Í tilkynningunni kemur fram að hlutafé Aurora sé 30 milljónir evra, sem svarar til um 2.760 milljóna íslenskra króna. Þá segir að fjárfestar hafi skráð sig fyrir öllum hlutum í fyrsta hluta lokaðs útboðs.
Haft er eftir Styrmi Þór Bragasyni, framkvæmdastjóra MP Fjárfestingarbanka, í tilkynningunni að Aurora muni fyrst um sinn einbeita sér að Eystrasaltsríkjunum, Rússlandi og Úkraínu en vel verði fylgst með öðrum mörkuðum Austur-Evrópu. Mikilvægt sé að vera vakandi fyrir tækifærum á þessu markaðssvæði sem einkennst hafi af örum vexti síðastliðin ár og miklum tækifærum fyrir fjárfesta. Aurora Holding er íslenskt félag með íslenskri stjórn.