Í fjósinu Laufey Bjarnadóttir og Þröstur Aðalbjarnarson, bændur á Stakkhamri, í nýja fjósinu á Stakkhamri á Snæfellsnesi. Kýrin Brák var fengin til að aðstoða við fyrirsætustörfin.
Í fjósinu Laufey Bjarnadóttir og Þröstur Aðalbjarnarson, bændur á Stakkhamri, í nýja fjósinu á Stakkhamri á Snæfellsnesi. Kýrin Brák var fengin til að aðstoða við fyrirsætustörfin. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Sumum hefði sjálfsagt þótt eðlilegt að starfa áfram sem ráðunautur en það freistaði mín að geta verið frjáls hérna í sveitinni," segir Laufey Bjarnadóttir bóndi á Stakkhamri í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Sumum hefði sjálfsagt þótt eðlilegt að starfa áfram sem ráðunautur en það freistaði mín að geta verið frjáls hérna í sveitinni," segir Laufey Bjarnadóttir bóndi á Stakkhamri í Eyja- og Miklaholtshreppi. Hún og maður hennar, Þröstur Aðalbjarnarson, eru háskólamenntuð í búfræðum en fóru úr ráðunautastörfum og framhaldsnámi til að taka við búi á Stakkhamri. Á stuttum tíma er bú þeirra komið í fremstu röð kúabúa á landinu, það var í hópi þeirra búa sem skiluðu mestum meðalafurðum á síðasta ári en það skýrist á næstu dögum hvort það hefur orðið efst allra.

Laufey og Þröstur eru búfræðikandídatar frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Eftir að Laufey útskrifaðist, fyrir bráðum áratug, vann hún að rannsóknum og var síðan ráðunautur hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands í nautgriparækt og rekstrarleiðbeiningum ásamt hrossarækt. Þröstur er frá Lundi í Öxarfirði og útskrifaðist frá Hvanneyri 2001 og vann eftir það í ár sem ráðunautur í sauðfjárrækt hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Hann var byrjaður í meistaranámi við kanadískan háskóla þegar ákvörðunin mikla var tekin á árinu 2003, að fara út í búskap.

Laufey er frá Stakkhamri þar sem foreldrar hennar, Bjarni Alexandersson og Ásta Bjarnadóttir, ráku blandað bú. "Það var komið að tímamótum hér hjá foreldrum mínum, þau voru að velta því fyrir sér hvað þau ættu að gera. Við ákváðum að prófa, þótt við værum sögð "ofmenntuð" í þetta starf," segir Laufey. Þau taka bæði fram að þau hefðu ekki treyst sér til að fara út í búskap án þessa undirbúnings. Tveggja ára búfræðinám hefði ekki dugað þeim. "Það er alltaf hætt við að menn festist í hugarfari fyrri kynslóða en búvísindanámið breikkar sjóndeildarhring manns," segir Þröstur og Laufey bætir við: "Þekking er lykill að árangri hvar sem er og nýtist alltaf, hvað sem maður tekur sér fyrir hendur." Þröstur segir að þegar upp komi vandamál og viðfangsefni í búskapnum fari þau að grufla í því sem þau lærðu í námi og fyrri störfum, ekki síst af heimsóknum til bænda, og það hjálpi þeim að leysa málin.

Gefa kúnum meira en margir aðrir

Laufey og Þröstur taka þátt í skýrsluhaldi nautgriparæktarfélaganna og þau komust fljótt í fremstu röð með meðalafurðir. Á árinu 2005 varð bú þeirra í þriðja sæti yfir landið með 7137 kg mjólkur eftir árskú og á fyrri hluta síðasta árs komust þau í efsta sætið sem þau hafa haldið síðan. Samkvæmt uppgjöri fyrir nóvembermánuð voru meðalafurðir hjá þeim á tólf mánaða tímabili 7785 kg mjólkur en meðalafurðir á öllum kúabúum í landinu sem þátt taka í skýrsluhaldinu voru 5388 kg. Verið er að gera upp skýrsluhaldið fyrir árið í heild og munu niðurstöður liggja fyrir á næstu dögum.

Þegar spurt er um ástæður fyrir þessum árangri byrjar Laufey að nefna að þau hafi tekið við góðum kúm af foreldrum hennar í júní 2003, þær séu afrakstur góðs ræktunarstarfs í langan tíma. Þau segjast hafa byggt ofan á þennan grunn með því að innleiða nýjungar í fóðrun.

Þau segjast leggja mikið upp úr því að gera góðar fóðuráætlanir fyrir hvern einasta grip. Þröstur bendir á að viðteknar hugmyndir gangi út á það að kýr sem mjólki mikið geti ekki étið nóg og gangi því á eigin forða á mjaltaskeiðinu. Þau hafi viljað prófa að fóðra kýrnar betur og því gefið þeim mikið bygg og annað kjarnfóður til viðbótar góðu heyi og grænfóðri sem þau hafi haft yfir að ráða. "Það gerði það að verkum að kýrnar hér mjólka mikið eftir burð og halda mikilli nyt lengi. Það hefur orðið til þess að við erum hætt að hugsa um að stilla of mikið af burðinn til að hafa mjaltaskeiðið lengra þegar það hentar," segir Laufey. "Rætt hefur verið um að íslensku kýrnar mjólkuðu ekki nógu mikið. Það kitlaði okkur að athuga hvað þær myndu geta og við erum ekki komin á neinn endapunkt með það," segir Þröstur.

Hann segir að til að ala upp góða mjólkurkú þurfi að huga að fóðruninni frá upphafi. Kálfarnir vaxi hraðast á fyrstu mánuðum ævinnar og þá þurfi að gefa þeim vel. Þá þurfi að auka smám saman fóðurgjöf svo kýrnar séu tilbúnar til að mjólka eftir burð.

Þau reikna út eftir hverja viku hvað hver kýr mjólkar og gera fóðuráætlanir samkvæmt því. Þröstur segir að þeirra reynsla sýni að kýrnar geti innbyrt meira fóður en nemur 3% af eigin þyngd, eins og miðað sé við í kennslubókunum. Þessar aðferðir bændanna á Stakkhamri kalla á meiri notkun kjarnfóðurs en algengast er. Þannig er meðaltalið hjá þeim 2,7 tonn á hverja árskú, samkvæmt skýrsluhaldinu, og er heimafengið bygg þá talið með. Þau eru ekkert feimin við að sýna mikla kjarnfóðurnotkun, segja hana ekkert trúaratriði. Þröstur segir að kýrnar þurfi ákveðna orku til að halda jafnvægi og hana fái þær úr góðu gróffóðri ásamt byggi og öðru kjarnfóðri.

Laufey bætir því við að þegar kýrnar séu vel fóðraðar verði þær heilbrigðari og líklegri til að festa fang þegar til er ætlast.

Aukinn kvóti og nýtt fjós

Það skiptir líka máli fyrir þróun búskaparins á Stakkhamri að Þröstur og Laufey hafa verið tilbúin að bæta mikið við mjólkurkvótann. Þau tóku við búi með 83 þúsund lítra kvóta og hafa nærri því þrefaldað hann, eru nú með 233 þúsund lítra. Verðið hefur sífellt farið hækkandi og er alltaf of hátt fyrir þann sem er að kaupa. "Þetta er skelfilegt kerfi, að þurfa að kaupa sig inn í þessa atvinnugrein," segir Þröstur og Laufey tekur undir það en bendir um leið á að þetta sé aðallífeyrir þeirra bænda sem séu að hætta búskap.

Kvótakaupin og framkvæmdir á jörðinni sýna að þau hafa trú á framtíð nautgriparæktarinnar í landinu. "Markaðurinn fyrir mjólkurafurðir hefur verið góður og neysla mjólkurafurða aukist. Þá hafa jákvæðir hlutir verið að gerast á Bandaríkjamarkaði. Slíkt markaðsstarf skilar sér alltaf, vonandi með því að við fáum sambærilegt verð og á innanlandsmarkaði," segir Þröstur. Á móti komi að blikur séu á lofti vegna aukins þrýstings um innflutning á mjólkurafurðum sem Laufey og Þröstur segja að sé áhyggjuefni.

Fjósið í Stakkhamri er byggt í tveimur áföngum, eldri hlutinn 1961 og sá yngri 1986. Þröstur og Laufey eru nú að stækka það til að bæta vinnuaðstöðu sína og aðstöðu kúnna.

Þau ákváðu að reyna að nýta það sem hægt var úr gamla fjósinu frekar en að byggja alveg frá grunni. Þröstur sagði að það væri heldur ódýrara. Það var gert með því að byggja stærra hús utan um gamla fjósið og þannig nýtist grunnur þess og haughús en gömlu veggirnir voru að mestu leyti brotnir niður. Fjósið er lausagöngufjós fyrir 55 kýr, með hefðbundnum mjaltabás.

Miðað við áherslu bændanna á fóðrun kemur kannski ekki á óvart að sett verður upp fullkomið fóðurkerfi, svokallað heilfóðurkerfi. Þar er gróffóðrið saxað og blandað með kjarnfóðri, byggi og öðrum nauðsynlegum efnum og kerfið flytur fóðrið tilbúið á sjálfvirkan hátt á fóðurgang þar sem tölva stýrir aðgangi gripanna að því. "Við getum gefið oftar á dag og það skapar betri meltingu og heilbrigði kúnna, auk þess sem þær geta innbyrt meira. Það eru að minnsta kosti þær væntingar sem við gerum til þess kerfis sem við erum að velja," segir Þröstur.

Þau ákváðu að koma sér upp mjaltagryfju í stað þess að kaupa sjálfvirka mjaltavél, svokallaðan mjaltaþjón. "Það er allt of dýrt og okkur sýnist þessi tækni enn ekki nógu fullkomin," segir Þröstur og Laufey bætir við: "Við gerum meiri kröfur um hreinlæti en þetta býður upp á."

Þótt framkvæmdir standi enn yfir eru þau búin að flytja kýrnar í nýja fjósið, notuðu jólin í það. Segja að nytin hafi minnkað og það taki einhvern tíma fyrir menn og skepnur að læra á nýjar aðstæður.

Mikilvægt að fylgjast með

Bjarni og Ásta ráku blandað bú á Stakkhamri á uppvaxtarárum Laufeyjar en höfðu flutt áhersluna á nautgriparæktina áður en Laufey og Þröstur tóku við, enda hentar jörðin betur til kúabúskapar en sauðfjárræktar. Unga fólkið er þó með nokkrar kindur og töluvert af hrossum, til gamans.

Laufey hefur áhuga á hestum. Hún segir að þau hafi ræktað folöld undan þremur fyrstuverðlaunahryssum sem pabbi hennar á og reynt þannig að halda við ræktuninni og selja upp í kostnað. Svo njóti hún þeirrar ánægju að geta riðið út á góðum hestum.

Þröstur og Laufey eru virk í félagsmálum bænda, bæði heima í héraði og á landsvísu, og segja að þátttaka í félagsstörfum verði sífellt mikilvægari eftir því sem bændum fækki. "Það er mikilvægt að hafa sjálfur upplýsingar og innsýn í hagsmuni okkar til að geta myndað sér skoðanir og tekið ákvarðanir um búreksturinn," segir Þröstur. "Við höfum valið okkur þetta ævistarf og mikilvægt að geta kynnt það almenningi. Þetta er hluti af starfinu," segir Laufey.

Í hnotskurn
» Laufey Bjarnadóttir og Þröstur Aðalbjarnarson tóku við búi af foreldrum hennar á Stakkhamri í júní 2003 og hafa síðan stækkað búið mikið.
» Þau eru bæði háskólamenntuð í búfræðum.
» Þau hafa þrefaldað kvótann og eru að tvöfalda fjósið og taka upp nýja tækni við mjaltir og fóðrun.
» Með aukinni fóðrun hafa afurðirnar stóraukist. Kýrnar mjólka nú að meðaltali tæplega 7800 kg á ári þegar meðaltalið yfir landið er tæplega 5400 kíló.