Það er athyglisvert að velta fyrir sér orðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, um samkennd kvenna á Alþingi, þvert á pólitíska flokka, sem hún lét falla í viðtali við Morgunblaðið í fyrradag.
"Hins vegar held ég að það sé ákveðin samkennd meðal kvenna á Alþingi og ég þori að fullyrða að við erum tillitssamari hver við aðra en almennt tíðkast í pólitík. Ég get mjög vel sett mig í spor annarra kvenna í forystu í íslenskum stjórnmálum og tel mig vita hvað þær hafa þurft að leggja á sig til þess að komast þangað sem þær eru. Ég nefni bara tvær konur úr ríkisstjórninni, Valgerði Sverrisdóttur og Þorgerði Katrínu. Ég er ekki viss um að karlarnir skilji það jafnvel," segir Ingibjörg Sólrún m.a. í ofangreindu viðtali.
Þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir taka undir þessi orð Ingibjargar Sólrúnar hér í Morgunblaðinu í gær. Þær segja að þótt konur á þingi nái saman á ákveðinn hátt, þýði það ekki að þær missi sjónar á þeirri pólitísku stefnu sem þær eru talsmenn fyrir.
Þetta eru áhugaverð sjónarmið frá forystukonum á Alþingi, úr þremur ólíkum stjórnmálaflokkum – sjónarmið sem karlarnir á þingi mættu velta fyrir sér og hvað þeir geti lært af þeim viðhorfum sem konurnar hafa reifað. Er það endilega best til árangurs fallið að valta yfir pólitískan andstæðing, með árásargjörnum, persónulegum og hugsanlega ósanngjörnum málflutningi? Hér skal fullyrt að svo er ekki.
Það er hægt að sýna fylgni og ákveðni í málflutningi, þar sem málefnaleg umfjöllun ræður för, og ná með slíkum málflutningi miklum árangri. Allt of oft breytast umræður á þingi í strákslega málfundi, þar sem sá sem er hvað forhertastur í ósvífnum málflutningi og persónulegu skítkasti, er talinn hafa verið "sigurvegarinn".
Ingibjörg Sólrún sagði í viðtalinu við Morgunblaðið að völd og valdabarátta væru ekki kjörlendi kvenna og rakti nokkrar ástæður fyrir þeirri skoðun sinni.
Það er rétt sem hún og Þorgerður Katrín benda á. Konur sem veljast til forystu í stjórnmálum í dag ganga inn í ákveðið umhverfi, sem karlar hafa mótað. Sumt hentar þeim, annað ekki. Það er á ábyrgð þeirra kvenna sem valist hafa til forystu í stjórnmálum í dag að gera stjórnmálaþátttöku og forystuhlutverk kvenna bæði eftirsóknarverð og aðlaðandi.
Því eiga konur í öllum stjórnmálaflokkum að stefna að, en til þess að raunverulegur árangur náist í þeim efnum þarf að fjölga konum í lykilstöðum, þannig að stjórnmálaþátttaka verði jafnáhugaverð og spennandi fyrir konur og karla. Til þess að svo megi verða þurfa karlarnir að sýna slíkri jafnréttisbaráttu stuðning, ekki bara í orði, heldur einnig í verki.