Los Angeles. AP | Fyrrverandi íþróttastjarnan O.J. Simpson þykir fara mjög nærri því að játa á sig morðið á fyrrverandi eiginkonu sinni og vini hennar í bókarhluta sem var lekið til tímaritsins Newsweek og fjallað er um í nýjasta hefti þess. Simpson segir "huliðshöfund" (e. ghost writer) hafa skrifað megnið af kaflanum "The Night in Question", sem sé ekki játning og auk þess fullur af rangfærslum.
Umræddur kafli er úr hinni afar umdeildu bók "Hafi ég gert það", sem bókaforlagið HarperCollins hætti við að gefa út vegna mikillar reiði bandarísks almennings. Var sú ákvörðun tekin eftir að blaðakóngurinn Rupert Murdoch, stjórnandi News Corp, ákvað að falla frá útgáfunni og sýningu viðtalsþáttar við Simpson á Fox News -sjónvarpsstöðinni, vegna mikilla mótmæla.
Eins og nafnið gefur til kynna lýsir bókin því hvernig Simpson hefði borið sig að við morðið á fyrrverandi eiginkonu sinni, Nicole Brown Simpson, og vini hennar Ronald Goldman.
Að sögn breska dagblaðsins Guardian lýsir Simpson þeim atburðum í smáatriðum í kaflanum sem gerðust fyrir og eftir hið örlagaríka kvöld 12. júní 1994. Simpson lýsir því hvernig hann hafi ákveðið að heimsækja Nicole, vegna þess hversu ósáttur hann hafi verið við hegðun hennar. Hann hafi svo lagt bíl sínum skammt frá heimili hennar, sett upp hanska og hatt, og haft hníf í hendi í því skyni að hræða hana.
Áætluninni hafi svo verið raskað þegar hann hitti Goldman við bakdyrnar að heimili Nicole. Þeim var ekki vel til vina og Simpson sakaði hann um að hafa átt í ástarsambandi við Nicole.
Goldman neitaði ásökunum en í þann mund kom hundurinn Kato út úr íbúð Nicole og fagnaði honum. Við það reiddist Simpson mjög og sagði viðbrögð hundsins sýna, að Goldman hefði verið þarna áður.
Því næst hefði Nicole ráðist að Simpson en misst jafnvægið og fallið til jarðar. Goldman hefði þá búið sig undir átök en á því augnabliki stöðvast frásögnin. "Síðan fór eitthvað hræðilega úrskeiðis. Ég veit hvað gerðist, en get ekki sagt þér nákvæmlega hvernig," skrifar Simpson í endurminningunum. Þegar hann rankaði svo við sér hefði hann verið alblóðugur, með hníf í hendi.
Lögreglan fann hnífinn aldrei en lagði hald á blóðuga sokka Simpsons.
Í hnotskurn
» Meintur flótti Simpsons frá morðstaðnum í hvítum Ford Bronco jeppa var sýndur í beinni sjónvarpsútsendingu.» Hann var sýknaður í sakamáli 1994 en síðar dæmdur sekur af öðrum rétti og til að borga skaðabætur sem hann hefur aldrei greitt.